Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 14:40:00 (4379)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir nál. við frv. með fyrirvara eins og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn og mun í nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls.
    Ég vil byrja á því að ítreka að í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um uppbyggingu á gjaldeyrismarkaði og nýskipan á því sviði. Í kynningu þessa máls í vetur fór hins vegar ansi mikið fyrir umræðu um tengingu íslensku krónunnar við ECU mikið fyrir umræðu um tengingu íslensku krónunnar við ECU. Þar fór í fararbroddi hæstv. viðskrh. með yfirlýsingar þess eðlis að það væri æskilegt að við tækjum upp ECU-tengingu sem fyrst. Ég hef m.a. undir höndum ræðu sem hæstv. ráðherra flutti á iðnþingi þar sem þetta kom mjög greinilega fram. Sömuleiðis kemur það fram í skýrslu sem viðskrn. sendi frá sér. Þetta ítrekaði hæstv. ráðherra áðan, ég man það ekki orðrétt en hann sagði að það væri ætlan ríkisstjórnarinnar að tengja krónuna við ECU þó svo það standi í greinargerð með öðru frv., því næsta sem er hér á dagskrá, að slíkt sé ekki tímabært að sinni. Ég vil því inna hæstv. ráðherra eftir því hver séu helstu rökin fyrir því að ráðast á næstunni í það stórvirki að tengja íslensku krónuna við hinn samsetta evrópska gjaldmiðil.
    Ég vil hins vegar í framhaldi af því sem ég sagði um markaðstengingu krónunnar og gengi krónunnar segja að ég er þeirrar skoðunar að það atriði eigi að geta tryggt betur en verið hefur fram að þessu að gengið sé á hverjum tíma skráð þannig að það sé viðunandi fyrir framleiðslu- og útflutningsatvinnuvegina. Þrátt fyrir ummæli í þá veru að leggja þurfi hér á sérstakan auðlindaskatt til þess að leiðrétta gengið, sem alla tíð hafi verið skráð miðað við stöðu sjávarútvegsins, þá sýnir reynslan okkur það að á síðustu áratugum hefur gengið tekið mið af innflutningnum miklu frekar en útflutningnum. Við þurfum ekki annað en að horfa á stöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna í landinu til þess að átta okkur á að svo hefur verið. Verði farið út í markaðstengingu gengisins er það ljóst að samkvæmt frv. er Seðlabankanum ætlað lykilhlutverk. Eitt af því sem hefur ekki komið fram nema mjög óljóst er það hver hin nauðsynlegu fráviksmörk frá þeirri gengiskörfu, sem ákveðið verður að tengja íslensku krónuna við á hverjum tíma, eiga að vera. Hvað þarf gengið að hafa sveiflast mikið til þess að Seðlabankinn grípi til þeirra aðgerða sem hann hefur heimild til? Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. að því hvert frávikið frá hinu fasta gengi, sem ákveðið verður á hverjum tíma, þurfi að vera. Þetta held ég að sé mjög æskilegt og þarft að skoða núna, m.a. með tilliti til reynslu nágrannaþjóða okkar sem hafa svipað kerfi á skráningu síns gjaldmiðils.
    Til viðbótar varðandi tenginguna við ECU og þau rök sem þar kunna að vera á bak við og mæla með því. Ég kem ekki auga á þau í fljótu bragði. Ég sé hins vegar rök sem mæla á móti því og þau helst að ég held að við hljótum áfram að eiga Bandaríki Norður-Ameríku sem eitt af okkar mikilvægustu viðskiptalöndum. Ég tel að dollarinn muni því áfram verða mjög mikilvægur í okkar utanríkisviðskiptum. Sömuleiðis hafa viðskipti við ýmis önnur lönd farið fram í dollurum. Mér sýnist að með ECU-tengingunni yrðu viðskipti við aðra heimshluta en Evrópu áhættumeiri heldur en Evrópuviðskiptin. Þetta vil ég láta koma skýrt fram í þessari umræðu.
    Síðan er ástæða til að koma aðeins inn á þátt Seðlabankans í stjórn efnahags- og peningamála því að það er alveg ljóst að hér er honum ætlað verulegt hlutverk. Ég get tekið undir það, sem hefur komið fram hjá tveimur síðustu ræðumönnum, að fyrir eðlilega efnahags- og peningamálastjórnun í landinu sé það æskilegt að við höfum hér sem sjálfstæðastan seðlabanka. Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því að það muni vera nokkuð langt í land með að svo sé. Ég vil leyfa mér að vitna hér óbeint í ummæli hæstv. sjútvrh. á ráðstefnu norður á Akureyri um síðustu helgi þar sem kom fram verulegt vantraust á stöðu og getu Seðlabankans í dag til þess að takast á við þessi mál. Hæstv. ráðherra sagði að Seðlabankinn hafi í gegnum tíðina framfylgt núllstefnu gagnvart sjávarútveginum, þ.e. stefnu sem hafi gert það að verkum að sjávarútvegurinn, okkar helsti útflutningsatvinnuvegur, hafi ekki getað byggt upp eigið fé í gegnum eðlilega afkomu. Það er svolítið athyglisvert að bera saman í því sambandi að í ræðu hæstv. sjútvrh. á viðkomandi ráðstefnu kom fram að á umliðnum árum hefði vantað um 60 milljarða upp á að sjávarútvegurinn hafi haft þá afkomu sem var honum nauðsynleg til þess að tryggja sína stöðu. Ég tel að það sé mjög þarft fyrir þá

sem tala hátt um aðgerðir eða réttara sagt aðgerðaleysi í sjávarútvegsmálum núna að bera þessa tölu, 60 milljarða, saman við skuldastöðu sjávarútvegsins í dag, um 100 milljarða sem menn ræða þar um. Í þessu frv. og þeim frumvörpum sem við höfum hér er Seðlabankanum ætlað að grípa til aðgerða gagnvart gengismálunum ef gengið ætlar að fara út fyrir þann ramma sem menn hafa sett sér á hverjum tíma. Það er því ljóst að þar er honum ætlað mjög stórt hlutverk.
    Ég hef einnig nokkrar áhyggjur af því að gagnsemi þessrar aðgerðar verði ekki sú sem menn ætluðu, m.a. eftir að hafa lesið viðtal við forstjóra Þjóðhagsstofnunar í Morgunblaðinu í síðustu viku þar sem hann segir beinlínis að slík markaðstenging gengisins geti verið forsenda þess að upp verði tekið veiðileyfagjald eða auðlindaskattur eftir því sem það er kallað í sjávarútvegi. Hann segir þar að sé gengið markaðstengt, eins og nú er að stefnt, þurfi þetta ekki að vera íþyngjandi fyrir sjávarútveginn því að það muni mynda þrýsting á gengið sem muni breytast. Samkvæmt þessum lögum breytist gengið ekki lengra en Seðlabankinn leyfir á hverjum tíma. Ég hef af því áhyggjur að haldi menn til streitu hugmyndum um veiðileyfagjald í sjávarútvegi muni það gleypa ávinninginn sem sjávarútvegurinn kynni að hafa af frjálsari gengisstefnu.
    Það væri svo sem freistandi, af því að menn eru að ræða um Seðlabankann, að fara út í peningastjórnina og samspil gengismála, vaxta- og fjárlagahalla. Það er einu sinni þannig að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur lagt alla áherslu á að það væri hallinn á ríkissjóði sem væri undirrót alls ills í okkar efnahagsmálum. Ég ætla ekki að draga úr því að það sé nauðsynlegt að taka á þeim málum. Ég vil hins vegar benda á að upp á síðkastið hefur heyrst önnur rödd úr herbúðum hæstv. ríkisstjórnar sem hefur sýnt eilítið breytta mynd. Það er með þeim yfirlýsingum hæstv. sjútvrh. að það sem skipti mestu máli fyrir okkar efnahagslíf sé að halda þannig á gengismálum að viðskipti við útlönd séu í jafnvægi. Reyndar er hægt að leiða að því rök að hægt sé að standa þannig að peninga- og gengismálum að við næðum jafnvægi í viðskiptum við útlönd þó svo að enn yrði nokkur halli á ríkissjóði. Það er óneitanlega skemmtilegt að velta þeim fleti svolítið fyrir sér.
    Mér finnst að lokum varðandi vextina, og það tengist stöðu Seðlabankans í umræðunni, að þar sé komin upp nokkuð sérkennileg staða núna þar sem svo er komið að stærstu aðilar á peningamarkaði í landinu, ríkissjóður og stóru bankarnir, geta leyft sér að halda að sér höndum með vaxtabreytingar þó að allir viðurkenni að vextir séu allt of háir. Þeir leyfa sér að bíða með vaxtabreytingar þar til menn sjá hver verði niðurstaða kjarasamninga. Og eins og hæstv. forsrh. sagði hér í fyrirspurnatíma í síðustu viku verður vöxtunum breytt af hálfu ríkisins um leið og búið er að gera kjarasamninga. Þetta segir mér, hæstv. viðskrh., að hér hefur aldrei komist á nokkuð sem hægt er að kalla markaðsvexti því það samrýmist ekki nokkru markaðskerfi að stærstu aðilarnir á markaðnum geti einhliða ákveðið verð þjónustunnar um lengri tíma, beðið eftir hagstæðum tímapunkti að þeirra mati. Þetta er kannski hin endanlega staðfesting á þeim orðum hæstv. viðskrh. fyrr í vetur að hér væri í raun fákeppnismarkaður á peningamarkaðnum og atvinnulífið fengi ekki fjármagn á eðlilegum kjörum fyrr en hann hefði verið opnaður fyrir erlendu fjármagni. Ef það er ekki rétt hjá mér að markaðskerfið hafi brugðist gagnvart vöxtunum og ríkisstjórnin og stærstu aðilarnir á peningamarkaðnum geta skyndilega lækkað vextina fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust, þá er hin skýringin sú að hæstv. ríkisstjórn hafi séð að sér og ákveðið að beita handafli. Þannig mundi ég skilja þá aðgerð ef allt í einu ætti að lækka vextina, sem ég reyndar tel bráðnauðsynlegt, um 2--3 prósentustig, eins og menn hafa talað um. Sé það ekki vegna kalls eða kröfu markaðsins, þá hafa menn nú loksins mannað sig upp og ákveðið að beita handafli. Önnur hvor skýringin hlýtur að vera á þessu. Annaðhvort hefur markaðurinn brugðist því hlutverki sínu að stýra vöxtunum eða þá hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að manna sig loksins upp í það að beita handafli á vextina.
    Ég er kannski kominn eilítið út fyrir efni frv. en þó ekki mikið að mínu mati. Ég vil að lokum draga í örfáum orðum saman viðhorf mitt til frv. Ég er hlynntur því að komið verði á markaðstengingu á gengi íslensku krónunnar innan ákveðinna fráviksmarka eins og er meginþema frv. Ég vara hins vegar stórlega við þeim áformum, sem eru uppi samhliða þessu, um tengingu íslensku krónunnar við ECU og ég dreg nokkuð í efa að Seðlabankinn, eins og hann hefur hugsað og framkvæmt á síðustu árum, sé í stakk búinn til að taka við því veigamikla hlutverki sem honum er ætlað í tengslum við þetta mál.