Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 15:06:00 (4381)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er þá komið í ljós hvert er hyggjuvit núv. ríkisstjórnar samanber niðurlagsorð hæstv. viðskrh. áðan. Það er að viti hæstv. núv. ríkisstjórnar hyggilegt að standa þannig að peninga- og vaxtamálum að nú um hálfs árs skeið hafa raunvextir verið með þeim hætti hér á landi að það er gjörsamlega vonlaust fyrir önnur en allra efnamestu fyrirtæki að standa undir þeim. Ég vil enn fremur benda hæstv. viðskrh. á það að ef raunveruleg markaðsöfl réðu vöxtunum hefðu stærstu aðilarnir á fjármagnsmarkaðnum ekki komist upp með það mánuðum saman að halda uppi 20% raunvöxtum sem er langt umfram það sem atvinnulífið í landinu þolir. Það er nú einu sinni þannig, hæstv. ráðherra, að til lengri tíma litið stendur ekkert annað en atvinnulífið undir ávöxtun fjármagns í landinu, ekkert annað en það sem atvinnulífið getur ávaxtað fjármagnið á hverjum tíma. Og það er þetta sem mér finnst gagnrýnisvert. Um margra vikna skeið hafa menn rætt um að þeir skuli fara að tala um vaxtalækkun þegar sjái fram úr kjarasamningum. Það finnst mér ekki bera vott um að tekist hafi að koma hér á frjálsum og skilvirkum peningamarkaði þar sem raunveruleg markaðsöfl réðu. M.a. staðfesti hæstv. ráðherra það í ræðu hér á Alþingi í vetur.