Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 15:09:00 (4382)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég óttast að þessar umræður fjarlægist umræðuefnið en vil þó engu að síður svara andsvari hv. 6. þm. Norðurl. e.
    Það er hverju orði sannara hjá honum að fjármagnsmarkaðurinn hér á landi er ekki ýkja fullkominn. Þar ríkir enn fákeppni. Sannarlega er ég honum sammála um það að opnun fjármagnsmarkaðarins og greiðari leið fyrir íslenskt atvinnulíf að afla sér lánsfjár frá öðrum löndum milliliðalaust sé nauðsynleg. Þetta eru rétt sjónarmið. Hins vegar breytir það engu um það að ríkið hlýtur á hverjum tíma að meta markaðsaðstæður og taka sína ákvörðun um það hvaða vexti það sýnir. Ég vil líka benda þingmanninum á að vextir hafa farið lækkandi á undanförnum vikum, nafnvextirnir mjög ört og raunvextirnir nokkuð. Það eru staðreyndir í málinu. Það breytir engu um það að við gætum hugsanlega orðið sammála um að vextir hafi verið of háir um skeið. En ég bendi á að nú eru vextir lægri en þeir voru fyrir ári ef litið á heildarmyndina.