Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 15:33:00 (4389)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það að fyrirvarar Framsfl. komu skýrt fram í ræðu minni áðan gagnvart ECU-tengingunni þannig að þar þarf enginn að fara neitt gruflandi. Hugleiðingar hæstv. viðskrh. þar að lútandi eru alfarið hans. Í raun er slæmt að á þennan hátt skuli það vera dregið inn í umræðuna vegna þess að grundvallarþátturinn í frv. er að mínu mati nauðsynleg og rétt breyting á efnahagskerfi okkar gagnvart því sem við kemur gengisskráningunni. Ef rétt er á málum haldið á hún að geta tryggt að gengisskráningin á hverjum tíma sé nær því að vera þóknanleg framleiðslu útflutningsatvinnuvegunum. Það er svo annað mál hvort hæstv. núv. ríkisstjórn er treystandi til þess að framfylgja málinu til að svo verði.
    Ég ítreka líka ummæli síðasta ræðumanns þar að lútandi að þegar fulltrúar Seðlabankans voru á fundi nefndarinnar kom það skýrt fram að allar heimildir munu vera í lögum nú þegar til þess að breyta gengiskörfunni þannig að hægt væri að tengja beint við ECU. Það þarf því ekki að sækja heimildir í lög þess vegna.
    Að lokum, virðulegi forseti, eftir þessa umræðu held ég að æskilegt sé nú að fram komi brtt. í þá veru að eftirfarandi setning falli niður úr textanum, með leyfi forseta: ,,svo sem evrópsku mynteiningunni (ECU) og sérstökum dráttarréttindum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR)``. Ég held að til þess að afstaða þingmanna í þessu efni geti komið skýrt fram sé nauðsynlegt að slík brtt. komi fram og ég mun beita mér fyrir að svo verði.