Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 15:36:00 (4390)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Óhjákvæmilegt er að fara aðeins yfir umræðuna aftur vegna endurtekinna tilrauna hæstv. viðskrh. til þess að flytja inn í málið aðra hluti en þar eru á ferðinni. Ég þakka hv. þm. sem lagt hafa lið í þeim efnum. Auðvitað er ákaflega hvimleitt að hæstv. viðskrh. skuli reyna að læða áhugamálum sínum eða pólitískum áherslum ríkisstjórnarinnar með þessum hætti inn í mál sem efnislega er ekki á nokkurn hátt jafngildi þeirrar ákvörðunar að taka upp ECU-tengingu krónunnar. Ég vil minna hæstv. viðskrh. á hvernig athugasemdir við hans eigin frv. byrja, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarp þetta er flutt í tvennum tilgangi. Annars vegar til að unnt sé að breyta núgildandi fyrirkomulagi á gengisskráningu krónunnar þannig að gengi hennar ráðist í auknum mæli af framboð og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði. Hins vegar til að aðlaga lög um Seðlabanka Íslands að lögum um fjárfestingu erlendra aðila``.
    Þetta er hinn tvíþætti megintilgangur frv. og tilgangurinn eins og tekið er fram í athugasemdum við frv. Að vísu er síðan aftar í athugasemdunum vísað yfir í pólitísk stefnumið ríkisstjórnarinnar sem eru bara annað mál, eru útlistun á því framkvæmdarvaldi sem ríkisstjórnin hefur með höndum. Það að reyna að búa til einhvers konar stimplun á stefnu ríkisstjórnarinnar úr þeirri atkvæðagreiðslu sem fer fram um frv. inni í þinginu er auðvitað ósvífið. Það er fullkomlega óréttmætt og óþolandi að hæstv. viðskrh. sé endalaust að reyna að nudda í því. Þess vegna er alveg nauðsynleg að taka af öll tvímæli um það og ég tek undir það að bæði efnislega, úr því sem komið er og eins líka af málsfarsástæðum, er ástæða til þess að bera það undir og fá samþykkt að henda úr dæmasafni hæstv. viðskrh. um ECU og SDR eða að bæta inn í það eins og 20 mismunandi einingum og gjaldmiðlum af ýmsu tagi þannig að það sé ljóst að verið er að tína upp dæmi um allt milli himins og jarðar sem út af fyrir sig er fræðilega hugsanlegt að tengja krónuna við. T.d. bath, sem mun vera gjaldeyrir þeirra í Tælandi. Þar eru gefnir út myndarlegir seðlar af Bhumibol konungi og bath-myntin er notuð í viðskiptum. Það er auðvitað engin endir á því og ástæðulaust með öllu að vera að tína þetta upp með þessum hætti í lagatextanum.
    Síðan er nauðsynlegt að menn ræði þá líka hreint út um aðra hluti að eitt er viðmiðun gengisins við einhverja körfugjaldmiðla eða einingu eins og ECU eða SDR og annað er fasttenging. Það felst engin efnisbreyting í frv. hvað það snertir að heimilt hefur verið að miða gengi krónunnar við einhverja körfugjaldmiðla. Það er allt annað mál að reyna síðan að binda krónuna fasta og út af fyrir sig má segja að það felist nokkur mótsögn í því að vera að taka upp gjaldeyrismarkað og viðskipti með krónu en vera svo sérstaklega að gera því skóna að hún skuli síðan jafnvægisstillt á þeim markaði miðað við einn gjaldmiðil öðrum fremur. Ég verð að láta sjónarmið mitt koma hér fram að ég tel það mjög mikið umhugsunarefni ef menn vilja reyna að miða við hér eftir sem hingað til einhverja tiltekna körfu gjaldmiðla og reyna að beita ráðstöfunum á markaði til þess að stilla gengi krónunnar af miðað við slíka viðmiðun, þá eigi það að vera ECU. Hvað gerist með því að hverfa frá núverandi gengiskörfu og yfir í ECU? Það er ósköp einfaldlega það að dollar og öðrum myntum, sem vigtað hafa að einhverjum mæli inn í gjaldeyriskörfu okkar hingað til, er hent út. Hvers vegna á að henda dollar út úr þeirri viðskiptakörfu sem við Íslendingar miðum við þegar við jafnvægisstillum eða verðleggjum gjaldeyri okkar? Hvers vegna? Er markaðurinn í Bandaríkjunum og breytingar á gengi Bandaríkjadollars eitthvað minna mikilvægur fyrir okkur hlutfallslega en aðrar slíkar hræringar í heiminum? Ég segi auðvitað nei. Það væri að mínu mati beinlínis heimskulegt ef menn væru með slíkum hætti að vega þau viðskipti eitthvað léttar en önnur eða torvelda það eða láta það mæta afgangi að við gættum hagsmuna okkar í þeim efnum. Staðreyndin er auðvitað sú að gengishreyfingar á dollar geta skipt mjög miklu máli langt út fyrir það sem nemur vægi dollarsins t.d. í útflutningsviðskiptum okkar. Það kemur til af því að viðskipti á ýmsa aðra markaði sem og auðvitað lánssamningar og fjölmargt annað er enn sem komið er í það ríkulegum mæli með einum eða öðrum hætti tengt dollar og þess vegna er auðvitað stærð hans og vigt í alþjóðaviðskiptum svo mikil. Ég hef því í fyrsta lagi miklar efasemdir um það að t.d. sé skynsamlegt að láta ekki dollar eða jen eða aðra slíka gjaldmiðla sem skipta umtalsverðu máli í útflutningsviðskiptum okkar halda áfram að vera til viðmiðunar að einhverju leyti sem nemur nokkurn veginn hlutfalli þeirra í þeim sömu viðskiptum.
    Ég held líka að það eigi að geta hjálpað okkur Íslendingum til þess að hafa skaplegra jafnvægi í þessum efnum. Ég er alveg viss um það að sú breyting ein að láta dollar hverfa út úr þessari körfu og binda sig eingöngu við Evrópumyntir er beinlínis óskynsamleg með hliðsjón af því markmiði að halda sem mestu jafnvægi á væntanlegum markaði fyrir gjaldeyri á Íslandi, beinlínis óskynsamleg. Dollar vegur t.d. mjög þungt í þjónustuviðskiptum Íslendinga. Nægir að nefna rekstur Flugleiða og ferðaþjónustuna sem dæmi um það. Ég sé ekki hvers vegna í ósköpunum menn ættu t.d. frá sjónarhóli þeirrar atvinnugreinar að mæla með því að dollar hyrfi þarna út. Ég spyr: Hvers vegna ættum við Íslendingar endilega að apa það upp eftir þjóðum sem annaðhvort eru í Evrópubandalaginu eða eru með gersamlega háð því og yfirgnæfandi viðskiptatengslum við það svæði? Hvers vegna ættum við sem höfum talsvert aðra hagsmuni í þessum efnum að apa þetta upp? Hitt er svo það að fasttenging við ECU er auðvitað allt annar hlutur eða eitthvað annað sem menn vildu reyna að miða sig við.
    Menn hljóta líka að spyrja sig að því: Hvernig ætla menn að verja slíka fasttengingu við einhverja gjaldmiðla þó með tilteknum fráviksmörkum sé með jafnlitlum gjaldeyrisvarasjóði og léttum seðlabanka og við höfum? Hafa menn virkilega trú á því að íslenski seðlabankinn geti með sínu fé ráðið við það þó hann hafi lánssamninga og yfirdráttarheimildir í einhverjum erlendum bönkum og geti þannig samtals með gjaldeyrisvaraforðanum og eigin fé sínu og lánsheimildum erlendis kannski ráðstafað 10--20 milljörðum kr. í slíku skyni? Hvar er tryggingin fyrir því að hann springi ekki ósköp einfaldlega á limminu í tilraunum sínum til þess að varðveita slíkt fastgengi? Ég hef ekki séð það til enda að menn mundu ráða við slíkt með hliðsjón af okkar miklu sveiflum sem hér hafa verið nefndar.
    Hæstv. forseti. Ég vil sem sagt fyrir mitt leyti taka undir það og ítreka það að með afgreiðslu þessa máls og stuðningi við það er ekki á nokkurn hátt verið að blanda sér inn í áform ríkisstjórnarinnar um einhverja ECU-tengingu krónunnar. Í lögum eru heimildir til þess út af fyrir sig. Ef hæstv. ríkisstjórn hefði verið svo vitlaus og forstokkuð að láta sér t.d. detta í hug að vaða í ECU-tenginguna nú um síðustu áramót þá hefði hún getað það ósköp einfaldlega með því að skilgreina upp á nýtt gengiskörfuna og ákveða að hún skyldi verða ECU. Þess vegna er ekki efnisbreyting á ferðinni í frv. og einhver tilvísun í efnahagsáform ríkisstjórnarinnar langt inn í greinargerð frv. jafngildir ekki því að menn greiði atkvæði um stefnu ríkisstjórnarinnar. Það eru ekki greidd atkvæði um greinargerðina og reyndar ekki heldur um ræðu hæstv. viðskrh., því miður liggur mér nú við að segja því að það væri stundum gaman að geta greitt atkvæði á móti þeim á Alþingi. Auðvitað kemur þingið til með að fjalla um þessar tvær lagagreinar eða reyndar þrjár og svo þá fjórðu sem víkur að gildistökunni. Ég vísa m.a. til þess sem segir í upphafi greinargerðarinnar og held að þegar fram líða stundir muni það taka af öll tvímæli um það hvað Alþingi var að afgreiða ef einhverjar deilur verða um það þegar orð hæstv. viðskrh. verða vonandi löngu gleymd.
    Aðeins um vextina að lokum sem hér voru nefndir og réttilega og eðlilega barst það inn í umræðuna. Ég tel að það hafi verið afar athyglisverðar upplýsingar sem hafa m.a. komið fram um þau efni núna síðustu vikurnar, þar á meðal upplýsingar um afkomu bankanna þar sem upplýst er að bankar eins og Íslandsbanki sneru mörg hundruð millj. kr. tapi sínu á fyrri hluta ársins upp í hagnað með óhóflegri vaxtatöku á síðustu mánuðum ársins. Ég held að ástæða væri til þess fyrir menn að fara yfir það hvað það segir um vaxtatökuna og vaxtamuninn í bankakerfinu á síðari hluta ársins að mörg hundruð millj. kr. hallarekstur Íslandsbanka, þessa flaggskips einkavæðingarinnar í bankaheiminum, sem er nú ekki rekinn með glæsilegri árangri en það að hann er alltaf langlakastur bankanna í öllum samanburði, snerist upp í hagnað með þessum okurvöxtum á síðari hluta ársins. Talsmenn bankanna koma auðvitað feimnislaust fram og segja: Afkoman var svo léleg á fyrri hluta ársins að við urðum bara að svínhækka vextina alveg endalaust þangað til við náðum að vinna þetta upp, snúa þessu upp í hagnað. Þetta leyfist bönkunum. Með öðrum orðum eru bankarnir ekki látnir standa frammi fyrir taprekstrinum og sagt við þá: Nú skuluð þið hagræða. Af hverju kemur ekki Þröstur Ólafsson og segir: Það verða bara nokkrir bankar að fara á hausinn. Þeir eru of margir. Gjaldþrotin verða að hreinsa til í þessari atvinnugrein. Við bara höldum óbreyttu rekstrarumhverfi þangað til búið er að fækka bönkunum um svona þriðjung svipað og fyrirtækjunum í sjávarútveginum. Nei. Þá leggst allt liðið með viðskrh. í broddi fylkingar á eitt um það að aðstoða bankana við að taka sér hér hundruð millj. kr. með óheyrilegri vaxtatöku á síðari hluta ársins til þess að snúa tapinu í hagnað. En sjávarútvegurinn býr ekki við þessa góðvild. Þar er ekki rokið til og hlutföllunum breytt þannig að t.d. á næstu mánuðum sem í hönd fara takist að vinna upp tapið frá undangengnum missirum. Það er upplýst að það sé 3--5% í heildina tekið yfir sjávarútveginn, þar af um 8--10% í vinnslunni og þyrfti

þess vegna að taka rækilega til hendinni þó það yrði ekki nema til þess að sjávarútvegurinn kæmist upp fyrir núllið á þessu ári. Þar á að grisja með gjaldþrotunum en bankarnir skulu áfram búa við það sjálftökukerfi að ef þeir lenda óvart í tapi á fyrstu mánuðum einhvers árs, þá sé rokið til, vaxtamunurinn aukinn og vextirnir hækkaðir þannig að þeir komist örugglega í gróða áður en árið er á enda runnið. Þetta er það jafnrétti sem atvinnugreinarnar, bankarekstur og sjávarútvegur, búa við í landinu. Ég skil svo sem vel að hæstv. sjútvrh., sem annars er hógvær maður, skyldi segja það sem hann sagði norður á Akureyri á dögunum.
    Herra forseti. Ég vona nú að hæstv. viðskrh. láti af tilraunum sínum til þess að leggja meiri merkingu í umfjöllun og afgreiðslu málsins hér á þinginu en efni standa til og sætti sig ósköp einfaldlega við það að einhver ákvörðun ríkisstjórnarinnar um ECU-tengingu krónunnar sem hún hefur haft heimildir til samkvæmt lögum og mun hafa áfram samkvæmt þessu frv. er allt annað mál. Það á ekki að blandast umfjöllun Alþingis um þetta frv. sem fyrst og fremst lýtur að þeirri formbreytingu að auðvelda upptöku markaðsviðskipta með gjaldeyri annars vegar og aðlaga þessi lög nýsettum lögum um fjárfestingu erlendra aðila hins vegar og annað ekki.