Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 15:50:00 (4391)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Það er næsta vandlifað í henni veröld ef menn eru fyrst spurðir um hvað liggi á bak við tillögurnar og hver sé greinargerð ríkisstjórnarinnar fyrir þeim og svo þegar frá því er skýrt, þá kvarta menn yfir því en það hafa þingmenn gert hér í löngum röðum. Hvað er þetta? Er maðurinn að gera grein fyrir afstöðu sinni og baksviði þeirrar tillögugerðar sem hann talar hér fyrir? Hv. 9. þm. Reykv. gekk meira að segja svo langt að segja að það væri líklegast að viðskrh. hefði komið aftan að efh.- og viðskn. Ég vildi leyfa mér að bera þær sakir af mér hér, frú forseti. Ég veit ekki betur en þau rök sem ég hef fært fram í málflutningi mínum og tillöguflutningi mínum hafi komið fram mjög skýrt, bæði í grg. frv. sem við ræðum hér og eins í framsöguræðu minni fyrir því, m.a. ástæðurnar fyrir því hvers vegna það gæti verið skynsamlegt að tengjast evrópsku mynteiningunni. Hafi þetta komið þingmönnum á óvart þá verða menn að leita ástæðunnar hjá sjálfum sér en ekki hjá þeim sem hér stendur. Þetta mál liggur einfaldlega svona fyrir.
    Hins vegar er það góð regla að sé manni gefinn hestur að vera ekkert að gá upp í hann heldur þiggja hann. Mér er alveg sama hvaðan gott kemur og bið bara um það að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir og ég spyr ekki um hvatir, ástæður eða röksemdir þingmanna í því máli þótt ég áskilji mér að sjálfsögðu rétt til þess að skýra mínar og það mun ég sannarlega reyna að gera.
    Mér þótti það líka furðu sæta að hv. 7. þm. Reykn. og hv. 9. þm. Reykv. töluðu mikið um það að trúarsetningar, og ég held nú reyndar að hv. 9. þm. Reykv. hafi sagt ofstæki, mættu ekki ráða stefnunni í efnahagsmálum. Um þetta er ég þeim einlæglega samþykkur og sammála en verð nú að segja það að mér þótti heldur skjöplast samlíkingin hjá hv. 7. þm. Reykn. þegar hann fór að líkja evrópska myntkerfinu við kommúnismann og held að honum hafi eitthvað missýnst í því. Líka vil ég leiðrétta þann misskilning hans að ef við kysum --- sem ekki hefur verið ákveðið --- að tengja gengi okkar við Evrópumyntirnar frekar en einhverjar aðrar sem getur vel verið að menn ákveði einhvern tíma, og gangi jafnvel inn í evrópska myntsamstarfið, þá er jafnan viðurkenning á því innan þess samstarfs að varanlegt grundvallarmisræmi í gengismálum má og á að leiðrétta. Það hefur reyndar ítrekað verið gert. Ég ætla að leyfa mér að benda á dæmi Dana af því að hv. 9. þm. Reykv. nefndi hér dæmi Færeyinga og taldi það sanna það að þetta væri hið versta félag að tengjast. Danir hafa með stöðugleika í gengi frá árinu 1982 til ársins 1992 snúið varanlegum, þrálátum viðskiptahalla og verðbólgu í stöðugt verðlag, minnstu verðbólgu í Evrópu, e.t.v. hina minnstu á jarðarkringlunni og verulegan viðskiptaafgang, virðulegi forseti. Þetta eru nú staðreyndirnar um það hvernig þetta hefur reynst þeim. Auðvitað verður þetta ekki yfirfært á okkur á auga lifandi bragði því að menn verða að vinna fyrir þessu. En hitt vildi ég segja að það er fráleit samlíking að halda því fram að tenging af því tagi sem hér hefur verið rædd í tengslum við þetta frv. sé dæmi um trúarbrögð eða ofstæki í stjórn efnahagsmála. Þvert á móti ber hún vitni um leit að skynsamlegum úrræðum þar sem okkur hefur ekki tekist vel og kem ég þá að því sem hv. 7. þm. Reykn. nefndi þegar hann spurði: Hvernig ætli væri umhorfs hér ef við hefðum ekki alltaf verið að fella gengið á árum áður? Já, ég spyr nú líka á móti. Ætli hefði ekki stundum verið hyggilegt að fara hægar í þeim sökum en auðvitað hafa verið þau dæmi eins og við þekkjum öll að undan því varð ekki vikist. En ég held að þar hefði hófið verið betra en hitt sem gert var. Við hefðum þá komist skár af en ekki miður hefðum við valið þá leið að hafa hér stöðugra gengi. En með því er ekki sagt að við höfum alltaf fundið það og það sé á hverjum tíma, einhvern veginn alveg guði gefið að það sem hafi verið og sé sé betra en það sem menn gætu gert. En því miður virðist mér sem sumt af því sem fram hefur komið í þessum umræðum bera einmitt vitni um það sjónarmið að menn vilji engu breyta. Þess vegna fagna ég einlæglega því sem fram kom hér í máli þeirra í röðum nefndarmanna í efh.- og viðskn. sem skrifuðu undir frv. með fyrirvara af því að þeir töldu efnislega ástæðu til þess að gera þær breytingar sem tillögur eru hér gerðar um.
    Ég endurtek það að ég er afar ánægður með að hafa fengið þann stuðning við þetta mál og vonast til þess að það fái líka þá meðferð sem sá stuðningur gaf ástæðu til að ætla að fengist.
    Ég vil vegna spurningar hv. 7. þm. Reykn. skýra frá því að Seðlabankinn hefur að sjálfsögu fylgst með vaxtastigi og vaxtamun í nálægum löndum, gert grein fyrir því í skýrslu sem dreift var í þinginu í desember og vinnur stöðugt að því verki. Mjög æskilegt er að slíkar athuganir haldi áfram og þeim sé haldið stíft að íslenskum lánastofnunum. Hv. þm. nefndi dæmi um það að eitt fyrirtækið gæti fengið lán með 0,5% eða rúmlega það viðbót við Libor-vextina en þyrfti að borga 1,5% eða eitthvað þar um bil ef það tæki lánið hér heima. Að sjálfsögðu á þetta fyrirtæki að taka lánið beint. En ég vil líka láta koma fram að slíkar lántökur voru fyrirtækjunum ekki heimilar fyrr en reglum var breytt að minni tilstuðlan að menn gætu tekið erlend lán á eigin ábyrgð. Þannig á þetta að vera og ég vil líka láta koma fram að það var í ríkisstjórnartíð hv. 7. þm. Reykn. sem forsrh. að þetta var gert.
    Ég vil líka, virðulegi forseti, koma aðeins að því sem kom hér fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að það væri nú aldeilis ekki verið að fækka fyrirtækjunum eða hagræða í bankakerfinu. Hvar hefur þingmaðurinn haldið hús sl. fjögur ár? Bönkunum hefur fækkað úr sjö í þrjá, í fyrsta skipti í sögu íslenskra banka, í fyrsta skipti frá upphafi bankastarfsemi á Íslandi, hefur orðið fækkun starfsmanna í bönkum af því að þar hefur farið fram hagræðing, af því að þar hefur verið knúin fram samruni stofnana með þeim breytingum sem þar hafa verið ákveðnar, m.a. af þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. átti sæti í. Ég átta mig ekki alveg á því hvaðan þessi málflutningur er ættaður. Ég held að hv. þm. hljóti að hafa gleymt sér eitt andartak. Þetta er að sjálfsögðu hið besta mál. Það þurfti og varð að knýja fram hagræðingu líka í þessari atvinnugrein, miðlun fjármagns, og hún þarf að mæta aukinni samkeppni frá útlöndum. Að því er stefnt og þetta frv. sem hér er rætt er að sínu leyti hlekkur í þeirri keðju sem ég treysti að þingið muni styrkja.