Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 16:05:00 (4396)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. fór dálítið frjálslega með sumt af því sem ég sagði hér áðan. Ég sagði aldrei að ECU væru trúarbrögð. Ég sagði að nú væri það trú að það ætti að halda íslenska genginu stöðugu og ég teldi það engu betri trú en kommúnismann. Sumir héldu forðum að hlutirnir gengu svo dæmalaust vel austur í Sovét að það ætti að haga sér eins hér. Í raun og veru þótti mér samanburður við Danmörk ágætt dæmi sem styður það sem ég er hér að segja. Þetta hefur gengið vel hjá Dönum. En Danir eru með allt annan efnahagsgrundvöll en við. Hann er ekkert sambærilegur. Þeir byggja ekki á einni auðlind eins og við Íslendingar og svo fábreyttu atvinnulífi og þess vegna getur vel verið að þetta henti Dönum sem eru með miklu fjölbreyttara atvinnulíf og miklu líkara því sem er í þeim löndum sem eru með ECU. Þeir eru með miklu minna vægi dollarans í þessum viðskiptum en við. Ég tek undir það sem hér kom fram áðan í því sambandi hjá 9. þm. Reykv. Þess vegna má ekki taka þá trú nú að af því að þetta hafi gengið vel hjá Dönum beri okkur að tengja okkur við ECU eða halda genginu föstu.
    Sömuleiðis sagði ég áðan um þróun undanfarinna áratuga að hér væri áreiðanlega undarlegt ástand ef við hefðum haldið genginu föstu þessa áratugi. Vel getur verið að það sé hárrétt hjá hæstv. ráðherra að við höfum breytt því of mikið, það hefði mátt vera eitthvað stöðugra. Það er allt annað mál.
    Að lokum vil ég aðeins segja að ég spurði um vaxtamun og vexti borið saman við önnur lönd. Ég get út af fyrir sig ekki gert kröfu til þess að hæstv. ráðherra hafi svör við því --- en má ég skilja það svo að hann hafi það sem sagt ekki og kannski gætum við þá fengið nánari upplýsingar um það við 3 umr.?