Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 14:14:00 (4402)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það leit út fyrir það lengi vel síðast þegar málið var á dagskrá að sú umræða væri að verða að mestu tæmd og hefði verið það að mínu mati ef ekki hefðu komið til tvær ræður, annars vegar ræða hæstv. viðskrh. og hins vegar hv. 3. þm. Reykv. sem blandaði inn í umfjöllun um þetta mál, verðjöfnun á flutningskostnaði olíu innan lands, ýmsum sögulegum vangaveltum um viðskipti Íslands og Sovétríkjanna. Það er allt annað og óskylt mál þó að segja megi að olíuviðskipti Íslendinga, þ.e. tilhögun innkaupa á olíu hafi tengst viðskiptasamningum okkar við Sovétríkin sálugu um langan tíma. Ég mundi því gjarnan þiggja, hæstv. forseti, að hv. 3. þm. Reykv. yrði gert aðvart um það að ég sjái mig knúinn til að segja nokkur orð í tilefni af ummælum hans hér áðan og mótmæla furðulegum fullyrðingum sem hv. þm. hafði uppi um þau efni. Ég hef ég þó ekki lagt í vana minn að elta ólar við allt það sem hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, segir um málefni í austurvegi. ( Gripið fram í: Ég hygg að forseti hafi ekki heyrt til þín.) Það kemur ekki til greina að forseti fylgist ekki svo vel með fundinum að hann heyri ekki hvert orð sem þar er sagt. Ég veit að ég þarf ekki að endurtaka það að ég bið hæstv. forseta að aðvara hv. 3. þm. Reykv. um að ég vilji gjarnan eiga orðastað við hann.

    Reyndar fannst mér hæstv. viðskrh. gleyma því í hroðalegum lýsingum sínum á því kerfi sem við höfum viðhaft í olíuviðskiptum undanfarin ár að hæstv. ráðherra er búinn að vera viðskrh. í hartnær fimm ár og ég gat ekki betur séð en ræða hans hér fyrir nokkrum kvöldum síðan væri meira og minna ein samfelld árás á embættisferil sjálfs sín í þau fimm ár. Og hvers vegna í ósköpunum hefur hæstv. viðskrh. ekki fyrir löngu afnumið þetta stórskaðlega og vitlausa kerfi viðskipta við Sovétríkin, verðlagsákvarðana á olíuvörum og algerrar flutningsjöfnunar, ef hann er svo mikið á móti því eins og ætla mátti af hans ræðu hér fyrr í umræðunni? Það er sennilega þannig að fyrir hæstv. viðskrh. fer eins og fleirum að hann áttar sig ekki á því hvað tíminn er fljótur að líða og honum finnst hann hafa tekið við þessum málum í gær. Hann gleymir því að hann hefur þegar haft nær fimm ár til að koma hugsjónum sínum í framkvæmd. Það hefur tekist í einstöku tilvikum eins og vitnað hefur verið í í umræðum að undanförnu. T.d. stendur það ofarlega í minni margra að hæstv. viðskrh. hafði baráttumál sitt um stofnsetningu Bifreiðaskoðunar Íslands í gegnum þingið og hefur það verið fáni afreka hans í þessum efnum síðan, stofnsetning og einkavæðing þess merka fyrirtækis sem áður hét Bifreiðaeftirlit ríkisins. Það var ekki alltaf vel þokkað hjá landsmönnum en þó fór svo að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Nú harma allir það að eiga ekki kost á því að eiga áfram viðskipti við Bifreiðaeftirlit ríkisins því að það sem við tók eftir einkavæðingu hæstv. viðskrh. var til mikilla muna verra, bæði hvað þjónustu snertir og þó ekki síður okur í verðlagningu. Nú vilja allir Bifreiðaeftirlit ríkisins aftur eða a.m.k. eitthvað annað en það sem kom í staðinn fyrir það.
    Ég hef áður bent á þá furðulegu mótsögn sem felst í því að jafna flutningskostnað olíuvaranna að hluta til en ekki að öllu leyti. Ég held að svörin hafi verið ákaflega þvælin sem hér komu við því hvers vegna skuli verðjafna að fullu flutningskostnað fólks sem er svo heppið að búa við sjávarsíðuna, í nágrenni við hafnir sem flutningsjöfnun tekur til en ekki íbúa annarra landsvæða, t.d. á Suðurlandsundirlendinu. Hvers vegna í ósköpunum á t.d. að undanskilja þar stórt landsvæði? Ég held að það sé nauðsynlegt að fleiri en Sunnlendingar taki upp þann punkt vegna þess að þetta er réttlætismál. Það skiptir engu þó að menn komi úr öðrum kjördæmum vegna þess að byggðin er svo jafndreifð á sjávarsíðuna og hafnir þannig settar að menn fá út úr því sæmilega flutningsjöfnun eins og t.d. ég reikna með að verði tilfellið við sjávarsíðuna um norðan- og austanvert landið að mestu leyti vegna þess hvernig þar háttar til. Byggðakeðjan er fyrst og fremst út frá höfnum við sjávarsíðuna sem eru eftir atvikum, eins og þetta er áformað samkvæmt reglugerð, sæmilega settar í þessum efnum. En ég segi alveg eins og er að mér finnst það fullkomlega óþolandi að afgreiða málið með þessum hætti og horfa upp á það óréttlæti sem augljóslega felst í því gagnvart ákveðnum landsvæðum, t.d. Suðurlandsundirlendinu. Auk þess voru æfingar hæstv. viðskrh. hér, þegar hann fór að reyna að útskýra þessa 60% jafnaðarmennsku sem í málinu felst, mér með öllu óskiljanlegar. Ég fékk engan botn í það hvað veldur þessari 60% jafnaðarhyggju í hæstv. viðskrh. og hvers vegna í ósköpunum hann er þá ekki bara annaðhvort núll eða 100% jafnaðarmaður. Nei, herra forseti. Ég held að þetta sé nú . . . (Gripið fram í.) Ja, það er þó heiðarlegt viðhorf út af fyrir sig að vera bara á móti jöfnuði. ( ÓÞÞ: Hvað er hann þá?) Þá er hann enginn jafnaðarmaður. Þá er hann í minnsta lagi enginn jafnaðarmaður, ég ætla ekki að segja ójafnaðarmaður, en hann er þó alla vega enginn jafnaðarmaður.
    Eins er það, herra forseti, að ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. viðskrh. fara aðeins betur yfir það hvers konar málamiðlanir liggja til grundvallar frv. Í svari sínu hér um daginn upplýsti hæstv. viðskrh. að þetta frv. væri afsprengi málamiðlana sem gerðar hefðu verið. Eru það málamiðlanir milli jöfnuðarsjónarmiða? Eru sumir í stjórnarliðinu meiri jafnaðarmenn en aðrir og þá hverjir? Var hæstv. viðskrh. píndur til þess að fallast á þessa 60% jafnaðarmennsku og þá af hverjum? Hverjir vildu 100% jöfnuð og hverjir engan? Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. geri betur grein fyrir þessu úr því að hann er að nefna það í svari sínu á annað borð að frv. og niðurstaða þess sé afsprengi málamiðlana í stjórnarliðinu. Ég tel að ekki sé hægt að una við hálfkveðna vísu hér við 1. umr. málsins og það sé nauðsynlegt að hæstv. viðskrh., flm. málsins, geri okkur grein fyrir því hvaða málamiðlanir liggja til grundvallar þessu máli, þessari niðurstöðu. Var það hæstv. ráðherra sem vildi ganga skemur í jöfnunarátt en sjálfstæðismenn lengra eða öfugt? Strandaði það á andstöðu Sjálfstfl. við að flutningsjafna að málið komst ekki nema þessi 60% í mark eða öfugt? Það er eins og mig rámi í að hafa heyrt að einhverjir einstakir hv. alþm. Sjálfstfl. á landsbyggðinni hafi verið að togast á við hæstv. viðskrh. um þetta mál. Ætla menn bara að láta það liggja í þagnargildi hvað þar var á ferðinni? Er ekki rétt að upplýsa hv. Alþingi um það hvaða sjónarmið þar voru á ferðinni og hvers vegna málamiðlunin varð slík sem raun ber vitni, 60% jafnaðarmennska?
    Ég ætla að biðja hæstv. viðskrh. að oftúlka ekki orð mín varðandi það sem ég sagði þegar ég var að gera grein fyrir þeim möguleikum sem mér sýndust vera til þess að tryggja algera verðjöfnun á þessum flutningskostnaði. Þá nefndi ég að þar væru auðvitað tvær leiðir augljóslega færar. Önnur væri sú að skylda ósköp einfaldlega dreifingaraðila olíu í landinu til þess að selja hana á sama verði um allt land og leggja þar með jöfnunarskylduna á herðar dreifingaraðilanna. Hin væri sú að framkvæma þessa flutningsjöfnun í gegnum sjóð með ákveðinni gjaldtöku, með því að afla tekna til að greiða síðan flutningskostnaðinn að einhverju leyti. Ég tók mjög skýrt fram að ég reiknaði með því að menn sæu ýmis tormerki á fyrri leiðinni og ég gaf mér þar af leiðandi meira og minna að við hlytum að vera að tala um síðari aðferðina þannig að ég ætla að biðja hæstv. viðskrh. að oftúlka ekki orð mín í því sambandi. Ég þykist sjá það sem menn hafa löngum gert í umræðum um þessi mál að leiðin geti orðið erfið að þessu jöfnunarmarkmiði, erfitt að framkvæma þetta öðruvísi en með einhvers konar gjaldtöku og endurgreiðslukerfi í gegnum sjóð. Það breytir hins vegar engu um það að það er eingöngu pólitísk ákvörðun hversu víðtæk verðjöfnunin er. Það er ekkert annað en pólitísk ákvörðun að hafa hana 60%.
    Það er auðvitað rugl sem engin haldbær rök hafa komið fram fyrir að nauðsynlegt sé að hafa í þessu ákveðinn ójöfnuð til þess að koma í veg fyrir sóun og að tryggja einhverja hagkvæmni. Eða er það virkilega orðin skoðun Jafnaðarmannaflokks Íslands að nauðsynlegt sé að hafa tiltekinn ójöfnuð alls staðar í þjóðfélaginu til þess að tryggja hagkvæmni? Eru jöfnuður og hagkvæmni orðnar einhverjar andstæður hjá Jafnaðarmannaflokki Íslands?
    Ég held að hæstv. viðskrh. verði að útskýra mál sitt svolítið betur hér og ég hef satt best að segja ekki heyrt kostulegri málflutning frá einum jafnaðarmannaforingja á byggðu bóli en kom hér fram í ræðu hæstv. viðskrh. fyrr í umræðunni. Ég held að einhver botn verði að fara að fást í það hvers konar skepna þessi svokallaði íslenski jafnaðarmannaflokkur er orðinn þegar það birtist manni hér í hverju málinu á fætur öðru að talsmenn hans stilla grundvallarsjónarmiðunum um jöfnuð milli manna upp sem algerum andstæðum við það að reka hlutina með hagkvæmum hætti. Það er nauðsynlegt að innleiða tiltekinn ójöfnuð í dreifingu á olíuvörum í landinu, segir hæstv. viðskrh., til að tryggja hagkvæmni. Það er nauðsynlegt að láta sjúklinga borga tiltekið í heilbrigðisþjónustunni, segir heilbrrh., til þess að tryggja hagkvæmni. Kostnaðarvitund heitir það á fínu máli. ( Gripið fram í: Kostnaðarmeðvitund.) Kostnaðarmeðvitund, segir hæstv. heilbrrh., vonandi með fullri meðvitund. Út á hvaða braut er verið að fara hér? Er þetta hin nýja jafnaðarstefna? Var það þetta sem fólst í nafnbreytingunni á Alþfl. fyrir nokkrum missirum síðan, sú nýja hagspeki að alveg nauðsynlegt sé að þetta sé ójafnt, a.m.k. að 40%, til þess að hlutirnir séu nógu hagkvæmir? Ég held ekki að hæstv. viðskrh. hafi frekar en aðrir fært fram haldbær rök fyrir því að ekki sé hægt verðjafna flutningskostnað á olíuvörum í landinu rétt eins og gert hefur verið án þess að það þurfi að koma í veg fyrir að menn leiti hagkvæmni í slíkri dreifingu. Það er auðvitað rugl. Ótal aðferðir eru til þess að koma í veg fyrir eitthvert sjálftökukerfi olíufélaganna á álagningu eða kostnaði við þessa dreifingu þó svo að um verðjöfnun á flutningskostnaði sé áfram að ræða. Auk þess sem mér finnst, eins og ég sagði hér í upphafi, fullseint í rassinn gripið hjá hæstv. viðskrh. að fara að hugsa um þetta núna þegar komið er sennilega og vonandi fram á elleftu stund í embættistíð hans sem viðskrh.
    Á ferðum mínum um landið að undanförnu hef ég ekki séð betur en að það sé dálaglegur kraftur í uppbyggingu olíufélganna á nýjum bensínhöllum þessa mánuðina þannig að ekki virðist, a.m.k. enn sem komið er, þess gæta sérstaklega að þar sé orðin meiri kostnaðarmeðvitund eða hagkvæmnishugsun þrátt fyrir næstum fimm ára valdaferil hæstv. viðskrh. Þannig er t.d. olíufélagið Skeljungur að reisa nýja höll á Selfossi, eins og ekki sé ekki nóg af olíusjoppum þar fyrir. Þar er Esso með tvær, BP með eina og Skeljungur hefur verið með dælu þar. En það er ekki nógu fínt lengur að afgreiða þetta bara úr smátönkum utan við höfn. Nei, það verður að byggja myndarlegt hof svona 55 metra frá hinu BP-hofinu. Þetta er skrautfjöður í hatt hæstv. olíumálaráðherra eftir fimm ára valdaferil. ( Viðskrh.: Afsprengi jöfnunarkerfisins.) Ég veit ekki betur en önnur höll sé í byggingu á Sauðárkróki, ekki lítil að vöxtum og hefur þó sæmilega vel verið séð fyrir olíusölu í því plássi það ég best veit fram að þessu og svo má áfram telja. Allmörg hof eru í byggingu nákvæmlega núna, vítt og breitt um landið. Þetta er afsprengi kerfisins, kallar hæstv. viðskrh. hér fram í, sem hann er búinn að halda verndarhendi yfir í fimm ár. Enginn hefur bannað honum að taka á og láta hagræða í þessum málum fyrir löngu. Það er auðvitað rugl að bera það á borð fyrir menn að til þess að taka á þessum málum sé nauðsynlegt að innleiða tiltekinn ójöfnuð í þessum efnum. Það er myndarlegur málflutningur af jafnaðarmannaforingjanum hér inni á hv. Alþingi. Nei, ég held að hæstv. viðskrh. verði að gera aðeins betur þegar hann rökstyður sitt mál en koma með órökstudda fullyrðingu eða sleggjudóm af þessu tagi. Er óhugsandi að taka með allt öðrum hætti á þessum málum, t.d. að tryggja tiltekna greiðslu á hverja olíusölu sem gangi til flutningsjöfnunar en síðan sé afgangurinn í höndum olíufélaganna? Þau fengju þannig tiltekna greiðslu til að annast þessa flutningsjöfnun, afganginn skyldu þau leysa sjálf og ættu þá hagnaðar að gæta í því að gera það með sem hagkvæmustum hætti. En tiltekinni innborgun á flutningskostnaði fylgir kvöðin um að selja olíuvörurnar á sama verði um allt land.
    Auðvitað er hægt að útbúa þannig bónuskerfi, eða hvað menn vilja kjalla það, sem tryggir að nákvæmlega jafnmikil rekstrarleg ástæða er fyrir olíufélögin að dreifa olíunni með hagkvæmum hætti, hvort sem flutningsjafnað er að meira eða minna leyti eða öllu. Þetta er auðvitað enginn málflutningur hjá hæstv. viðskrh. Hér er verið að reyna að blekkja menn til þess að fallast á þennan ójöfnuð á grundvelli þess að það sé nauðsynlegt af hagkvæmnisrökum. Ef þetta er hins vegar endanleg og bjargföst skoðun hæstv. viðskrh. og e.t.v. orðin flokksstefna Alþfl. að í hverjum málaflokknum á fætur öðrum, heilbrigðismálum, tryggingamálum, olíudreifingarmálum o.s.frv. sé orðið nauðsynlegt að innleiða ákveðinn ójöfnuð, þá bið ég um að sú flokksstefna verði útskýrð og helst að allir hv. alþm. Alþfl. taki þátt í að útlista hana fyrir okkur á Alþingi.
    Síðan ætla ég að eyða nokkrum orðum í það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um viðskipti okkar við Sovétmenn sem mér fundust nálgast það að vera jafnmikið rugl og þetta hjá hæstv. viðskrh. Ég gat ekki skilið hv. 3. þm. Reykv. öðruvísi en að hann væri beinlínis að segja að það hafi verið mistök á undanförnum árum að halda úti þeim viðskiptum við Sovétmenn sem við höfum gert á grundvelli viðskiptasamninga þangað, þ.e. að það hafi verið mistök að selja Sovétmönnum ull og síld og kaupa af þeim olíuvörur í staðinn. Þetta hafi verið löngu úrelt, vitlaust og ótímabært og menn hefðu betur, eins og hv. þm.

orðaði það, hætt þessu fyrir löngu og snúið sér að öðrum mörkuðum. Þá ætla ég að spyrja hv. 3. þm. Reykv. sem þykist vera nokkuð vel að sér um þessi mál: Hvert átti að selja saltsíldina sem ekki hefði farið til Rússlands? Hvar í heiminum er sá markaður sem hefði keypt það magn af saltsíld og búið til þau margfeldisáhrif í verðmætasköpun sem fylgja því að vinna síldina til manneldis, salta hana í tunnur og selja hana þannig í staðinn fyrir að bræða hana? Veit hv. 3. þm. Reykv. ekki að allan þann tíma sem við höfum selt saltsíld til Sovétríkjanna höfum við jafnframt verið að reyna að koma henni inn á alla aðra markaði? Við höfum selt síld til Skandinavíu og Norður-Evrópu og jafnframt þurft að bræða afganginn allan þennan tíma af því að við höfum ekki haft neina aðra markaði. Þeir eru ekki til. Og að koma svo og tala um það eins og einhvers konar mistök, gott ef ekki af pólitískum þvergirðingshætti, að hafa haldið áfram að flytja út á þennan markað og selja síld er botnlaus málflutningur, ekki glóra í honum. Ég trúi ekki að hv. 3. þm. Reykv. sé alvara. Ég held að hann hljóti bara að hafa í einhverju fljótræði og að vanhugsuðu máli og væntanlega þekkingarleysi haldið þessu fram. Sé þetta hins vegar alvara, þá er það einhver mesta forstokkun sem ég hef nokkurn tíma heyrt, að menn hafi beinlínis átt að afsala sér þessum markaði af pólitískum ástæðum.
    Ég held að sama máli gegni um ullarvörurnar. Það er alveg ljóst að sá hluti ullarvörumarkaðarins sem hefur gengið til Sovétríkjanna undanfarin ár, og nú vonandi til Rússlands, hefði ekki farið neitt annað. Þegar best lét skapaði þetta hundruð starfa á Íslandi sem hefðu ekki orðið til við aðra markaði af skyldum toga af þeim ósköp einföldu ástæðum að nákvæmlega það sama var upp á teningnum í ullariðnaðinum. Samtímis vorum við að reyna að selja inn á alla aðra markaði og vorum meira að segja á undanhaldi og hörfa út af þeim allan níunda áratuginn. Sovétviðskiptin héldu hlutunum þó gangandi. Er hv. 3. þm. Reykv. að segja að betur hefðu svona 200--300 manns norður á Akureyri farið fyrr á atvinnuleysiskrá af því að það hafi verið svo vitlaust að selja inn á markaðina þarna fyrir austan? Hvað er hv. 3. þm. Reykv. að fara? Eða er það bara eins og einn hv. alþm. leyfði sér að velta fyrir sér fyrr í umræðunni, að hv. 3. þm. Reykv. sé haldinn svo af kaldastríðshugsunarhætti enn þann dag í dag að hann taki afstöðu til allra hluta út frá því sem var og hét þegar best blés í glæðurnar hjá kaldastríðsöflunum og að hann sjái heiminn enn í gegnum þau svart/hvítu gleraugu? Að í gegnum þau svart/hvítu gleraugu hafi allan tímann verið vitlaust að selja síld og ullarvörur til Sovétríkjanna? Er von að maður spyrji þegar málflutningur þingmannsins gengur þvert á öll skynsemisrök í málinu. E.t.v. kemur hv. 3. þm. Reykv. upp og útskýrir betur hvað fyrir honum vakti og í hverju öll mistökin liggja að hafa t.d. baksað við að salta síld og selja hana til Sovétríkjanna. Þá verður fróðlegt að vita hvort t.d. hv. 3. þm. Austurl. verður honum sammála. Það skyldi nú ekki fara svo að hann fari austur á firði og segi að nú sé nýr sannleikur kominn í ljós í þessum málum. Þetta hafi verið mistök allan tímann og tóm vitleysa að vinna við það að salta síld á Austfjörðum til útflutnings á Sovét.
    Úr því að þessi mál blönduðust inn í umræðuna á annað borð tel ég mjög mikilvægt að Íslendingar taki á í þessum efnum núna og móti einhverja stefnu gagnvart því hvernig við ætlum að varðveita og byggja stöðu okkar upp á þessum mörkuðum til frambúðar þó svo að sá hluti þeirra sem lotið hefur að olíuviðskiptum okkar eða olíuinnkaupum þaðan sé nú af tilteknum ástæðum á endan runninn. Það er út af fyrir sig hárrétt sem hæstv. viðskrh. sagði að væntanlega eru þeir ekki einu sinni lengur í stakk búnir til þess að útvega okkur þær olíuvörur sem við hefðum áhuga á að kaupa af þeim, t.d. svartolíuna sem engin deila er um að er sú langhagstæðasta sem völ er á. Þá það, við hljótum þá að snúa okkur annað með þau viðskipti. Eftir stendur að þarna eru miklir möguleikar á markaði sem við höfum kunnað að framleiða vörur á og selja með ágætum árangri. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að varðveita stöðu okkar á þeim markaði og helst byggja hana upp til frambúðar. Það er því miður mjög alvarlegt mál að hlutirnir skuli þvælast þannig fyrir okkur Íslendingum að við klúðrum t.d. saltsíldarsölunni þangað austur á þessu ári.
    Ég ætla ekki að fara að lengja umræðuna með því að ræða það hver er sekari þar en annar. En það er ekkert launungamál að mér finnst frammistaða ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, þess vegna Landsbankans, ekki mjög merkileg í þeim efnum. Á sama tíma horfum við upp á það að aðrar þjóðir eru á fullri ferð við að byggja upp stöðu sína með framtíðarhagsmuni í huga á hinum miklu mörkuðum í austanverðri Evrópu og eru jafnvel að gera það með heilmikilli fyrirgreiðslu, lánveitingum eða ábyrgðum af ýmsum toga. Þær taka vissa áhættu í því sambandi en réttlæta það með því að þarna séu framtíðarhagsmunir í húfi.
    Kannski er nauðsynlegt að rifja það upp einu sinni enn hvernig síldarsöluviðskiptin austur byrjuðu á sínum tíma. Þau byrjuðu nefnilega þannig að Íslendingar höfðu kjark í sér til þess að lána Sovétmönnum þegar allt var í kaldakoli þar eftir stríðið og þeir áttu ekki gjaldeyri til að hefja viðskiptin. Þá veittu Íslendingar fyrirgreiðslu og lánuðu Sovétmönnum fyrir viðskiptunum fyrstu eitt til tvö árin og uppskáru traust og velvild á þessum markaði sem dugði þeim um áratugaskeið, hvað sem kalda stríðinu og hv. 3. þm. Reykv. líður. Þetta er nú staðreynd málsins og hv. þm. getur kynnt sér hana. Ég spyr mig oft að því: Háttar ekki svipað til nú? Er ekki svipað kaldakol í málefnum þessara ríkja og var í lok seinna stríðsins? Er nokkuð minni ástæða til þess nú að Íslendingar skoði hvort ekki eigi að tryggja sér hagsmuni þarna og taka jafnvel tiltekna áhættu í þeim efnum? Ég leyfi mér að segja að þó svo færi að við fengjum aldrei krónu fyrir t.d. fyrsta farminn af síld sem þangað færi, kæmist hann þó vonandi ofan í sveltandi fólkið og þá held ég nú að verri hlutur gæti gerst en sá að greiðslurnar létu eitthvað á sér standa.

    Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst mikill aumingjaskapur hvernig á þessum málum hefur verið tekið af okkar hálfu og skil ekki að þjóð sem hefur efni á því að flandra með sína frammámenn út um allan heim og taka á móti öðrum, hafi ekki efni á því að afskrifa nokkrar síldartunnur, ef út í það fer, handa sveltandi fólki.
    Að öðru leyti ætla ég ekki, herra forseti, að lengja umræðuna um þetta hliðarmálefni sem barst inn í umræðuna af skiljanlegum ástæðum og allt í góðu gengi með það. Vissulega hefur fyrirkomulag olíuviðskipta okkar Íslendinga tengst viðskiptasamningunum austur þangað þó að breytingar sem lúta að verðjöfnun á flutningskostnaði olíuvörunnar innan lands séu ekki í beinan karllegg frá þessum viðskiptamálum í austurvegi.
    Ljóst er að stjórnarflokkunum er málið nokkuð viðkvæmt eða ég hélt það a.m.k. Ég átti von á því að enn rynni slíkt blóð um æðar alþýðuflokksmanna að fyrir þeim væri pínulítið viðkvæmt að innleiða svona ójöfnuð eða auka á ójöfnuð á einu af fáum sviðum þar sem nokkurn veginn fullur jöfnuður hefur ríkt með öllum landsmönnun. Það er því miður þannig að á sorglega fáum sviðum á undirstöðuþáttum í þjóðlífinu ríkir nægjanlega fullur jöfnuður og mönnum er stórlega mismunað eftir búsetu, kynferði og aldri í óþolandi mörgum tilvikum, t.d. í skólamálum. Menn halda ræður um það á hátíðisstundum að Íslendingar standi allir blessunarlega jafnir að því að leita sér menntunar. Það er auðvitað haugalygi því að foreldrar barna á landsbyggðinni eru í mörgum tilvikum í miklu erfiðari stöðu. Það kostar margföld útgjöld fyrir íbúa þeirra byggðarlaga sem ekki hafa framhaldsnám innan sinna vébanda að koma sínum börnum til mennta. Þetta er auðvitað augljóst mál. Við höfum stundum bent á það, m.a. þegar hið óþolandi misrétti í raforkumálum er til umræðu, hvers vegna ekki er hægt að verðjafna raforkuna eins og olíuna. Við höfum vitnað til þess að á því sviði væru hlutirnir í sæmilegu lagi, eitt af fáum slíkum sviðum. En hér er verið að boða afturhvarf til verri tíma eða nýbreytni, ef svo má að orði komast, sem gengur þó í fullkomlega öfuga átt. --- Herra forseti. Það er algerlega óþolandi að hæstv. viðskrh. skuli ekki tolla inni í salnum þegar verið er að ræða þessi mál við hann. Ég óska eftir því að kannað verði hvort hann sé á klósettinu eða einhvers staðar annars staðar, að það megi flokkast undir lögmæt forföll. --- Herra forseti. Ég vona að það verði ekki örlög mín að slá þagnarmet fyrrv. þjálfara skíðalandsliðsins út í þessum ræðustóli. Er ekki hægt að fá upplýsingar um hvar hæstv. viðskrh. er? (Gripið fram í.) Annars er alveg guðvelkomið, herra forseti, fyrir mitt leyti að taka málið af dagskrá og ræða það ekki frekar í vetur ef hæstv. viðskrh. hefur ekki meiri áhuga á því en svo að hann sinni því ekki að vera viðstaddur þegar það er til umræðu. Ég mundi gráta þurrum tárum þó að (Gripið fram í.) ( Forseti: Umræðum verður haldið áfram en það getur komið upp sú aðstaða að menn þurfi að bregða sér frá.) Það er vissulega rétt, enda gat ég þess, hæstv. forseti, að auðvitað . . . ( Forseti: Ég vildi biðja hv. ræðumann að sýna örlitla þolinmæði. Það verða gerðar ráðstafanir til þess að gá að því hvort ráðherrann geti ekki komið strax.) Já, ég er forseta einlæglega þakklátur fyrir þá lipurð. (Gripið fram í.) Ætli hæstv. umhvrh. eigi ekki nóg með dýrafrv. í dag. Það verður að ala ráðherrana upp.
    Herra forseti. Þá er víst tímabært að halda áfram fundinum. Ég leyfði mér, hæstv. viðskrh., að gagnrýna það lítillega að þeir ráðherrar sem ættu viðkomandi mál gufuðu upp í umræðunni og hyrfu úr salnum jafnvel þó svo menn þættust vera að eiga við þá orðastað. Ég sá mig knúinn til þess að gera hlé á máli mínu þangað til hæstv. viðskrh. gat heiðrað okkur með nærveru sinni. ( Viðskrh.: Ég var að ræða við menn um Vestmannaeyjaferjuna.) Svo ég segi nú ekki að hann hefði glatt okkur með henni en alla vega er það sérstakur heiður. Ekki er það nú nema gott og þarft að hæstv. viðskrh. kynni sér málefni Vestmannaeyjaferjunnar. Sem betur fer tókst að koma því í höfn að hún yrði endurnýjuð áður en þessi niðurskurðarhungurríkisstjórn tók við sem hefði látið það verða sitt fyrsta verk að hætta við það, ef hún hefði getað. Það er ég alveg viss um. Sem betur fer tókst að ganga frá því eins og fleiri góðum málum sem ríkisstjórninni hefur, þrátt fyrir góðan vilja, ekki tekist að klúðra. ( EgJ: Það þarf að nota réttindin.) Já, en það á líka að nota skipið, hv. þm. Er það ekki ætlunin? ( Viðskrh.: Hvernig væri að bjarga hluta af verkinu innan lands?) Eins og fram hefur komið er ég alveg til í umræður við hæstv. ráðherra Alþfl. og hv. stjórnarþingmenn um hið ágæta Vestmannaeyjaferjumál sem er búið að hrekjast undan allmörgum ríkisstjórnum með aðild Sjálfstfl. um árabil, auðvitað öllum til skammar hvernig þeim hlutum var komið, og fær örugglega liðsstyrk frá ýmsum ónefndum hv. þm. Suðurl. í að útskýra það fyrir hv. þm. hversu brýnt það var orðið, m.a. af öryggisástæðum, að endurnýja þetta skip þótt ég hefði gjarnan kosið að vera ekki að ræða mikið upphátt um það á meðan gamli Herjólfur er enn í notkun. En það stendur svo sem ekkert á mér ef aðrir vilja stofna til þeirrar umræðu.
    Herra forseti. Ég ætlaði að segja það við hæstv. viðskrh. svo að hann heyrði að ég tel að óhjákvæmilegt sé að sú nefnd sem fer ofan í þetta frv. taki til alvarlegrar athugunar að gera á því breytingar sem annað tveggja gangi til þeirrar áttar að um fullkomna flutningsjöfnun verði að ræða eða hins vegar ef menn telja það ganga gagnvart dreifingaraðilunum, núverandi olíufélögum eða hvernig svo sem það verður í framtíðinni, að menn láti þessa 60% verðjöfnun gegnum sjóð duga en breyti þá jafnframt orðalagi 10. gr. frv. þannig að það sem er viðmiðun samkvæmt orðanna hljóðan verði skylda. Í textanum segir: ,,Þó skal við það miðað að auglýst verð hvers innflytjanda gildi á öllum almennum afgreiðslustöðum hans um land allt.`` Ef það er vilji hv. stjórnarliða hlýtur maður að spyrja sig að því hvers vegna menn stíga þá ekki skrefið til fulls og segja: ,,Þó skal auglýst verð hvers innflytjanda gilda á öllum almennum afgreiðslustöðum hans``. Þá getur hæstv. viðskrh. leyft að hafa hærra verð á bensínafgreiðslu á Kili eða í Vonarskarði eins og mér skildist að væri sérstakt kappsmál hans. Það hindraði ekki að þetta væri bundið við almenna afgreiðslustaði og það sem mundi ósköp einfaldlega gerast væri að þessi 40% af flutningskostnaðinum yrðu að verðjafnast innan reksturs olíudreifingaraðilanna hvers fyrir sig. Ég reikna með því að mönnum sé alvara með þessu orðalagi og það sé málamiðlun stjórnarliða að æskilegt sé að auglýst verð hvers innflytjanda gildi alls staðar og því þá ekki að hafa það þannig. Af hverju alltaf þessi hálfvelgja? Er það orðin stjórnarstefna að vera hálfvolgir í öllum málum?
    Síðan er það að lokum þannig, herra forseti, að það er ósköp skiljanlegt að hæstv. viðskrh. sé hvumpinn þegar farið er að leggja mælistiku yfir frammistöðu Jafnaðarmannaflokks Íslands í ríkisstjórn í þessum jafnaðarefnum því að þar er auðvitað meira og minna allt aftur á bak sem til breytinga horfir. Ég get bara ekki nefnt eitt einasta dæmi sem kemur í hug mér um það að ríkisstjórn með aðild Alþfl. hafi aukið jöfnuð landsmanna í skattakerfinu, í tryggingamálum, varðandi olíudreifingu, í menntamálum, viðskipti við heilbrigðiskerfið. Alls staðar er ójöfnuðurinn aukinn. Það er alveg á hreinu. Auðvitað er hæstv. viðskrh. þess vegna svona hvumpinn þegar reynt er að leggja mælistiku yfir frammistöðu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Auðvitað er óþarft að taka fram hvernig aðstöðumunur er að aukast í byggðamálum. Og þetta gerist á sama tíma og menn horfa upp á það að ekki er hróflað við forréttindahópum þjóðfélagsins. Það merkilegasta við bandorminn, sem hér var til umfjöllunar í vetur, er auðvitað það að ekki er hróflað við hálaunahópunum, þeim sem fá fjármagnstekjurnar. Því er sama hvar er borið niður, og þetta mál er auðvitað bara einn lítill angi af því, þetta er einhver mesta ójafnaðarríkisstjórn sem við höfum lengi haft. Þetta er ábyggilega eini svokallaði krataflokkurinn í heiminum sem á ráðherra í ríkisstjórn sinni sem heldur ræður eins og hæstv. viðskrh. gerði í þessu máli fyrir nokkrum dögum þar sem hann amaðist meira og minna við öllum jöfnunarkerfum sem opinberir aðilar kæmu nálægt, sá í því öllu saman spillingu, óhagkvæmni og sukk og ríkið ætti ekki mikið að vera að vasast í slíkum jöfnunaraðgerðum. Það væri allt saman einhvers konar forréttindi eða verndarráðstafanir gagnvart fyrirtækjunum, sagði hæstv. viðskrh. Hafa þær breytingar sem gerðar hafa verið, m.a. undir forustu Alþfl., t.d. í almannatryggingamálum, heilbrigðismálum, verið einhver forréttindamál fyrirtækja sem þar hafa verið á ferð eða hefur verið hróflað við? Ég held nú ekki. Þar hefur einmitt verið ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Ef hæstv. viðskrh. hefur áhyggjur af því að of mikið sé púkkað upp á þessi fyrirtæki, olíufélögin sem eru að byggja hallir út um allt eftir fimm ára valdatíma hæstv. viðskrh., þá skal ég vera fyrstur manna með honum í leiðangur til þess að koma í veg fyrir það því að það er ekki ætlunin að vera að púkka upp á þau. En mig grunar að annað verði niðurstaðan ef þetta frv. nær fram að ganga. Fyrirtæki munu hafa allt sitt á þurru áfram en hluti viðskiptavina olíufélaganna, sem er þannig í sveit settur í landinu, fer illa út úr þessum breytingum og ber fórnarkostnaðinn. Það þurfum við að koma í veg fyrir og það þó að við sitjum uppi á Íslandi með þessa einstæðu útgáfu af fyrrverandi krötum sem núna hafa safnast saman í Alþfl. og eiga þennan einstaka ráðherra sem hamast gegn öllum jöfnunarráðstöfunum og jöfnunarkerfum á vegum opinberra aðila. Við verðum bara að taka málin í okkar hendur og leysa þetta þrátt fyrir Alþfl.
    Ég vona að einhver meiri hluti geti myndast á Alþingi um það að afstýra slysi í þessu máli. Ég bara trúi því ekki að stjórnarliðar, t.d. Sunnlendinga, standi að þessu máli. Það er svo vitlaust. Ætla þrír þingmenn Sjálfstfl. á Suðurlandi virkilega að greiða þessu atkvæði? Ég vona þá a.m.k. að þeim detti ekki í hug að nokkur maður kjósi þá uppi á landi í því kjördæmi ef svo verður. Hvað ætlar hv. þm. Eggert Haukdal að gera? Ætlar hann virkilega að samþykkja að stórhækka verðið á olíuvörum í Rangárvallasýslu? Það er eins og mig minni að hv. þm. hafi stundum sótt fylgi sitt um austanvert Suðurlandskjördæmi. Nei, ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því.
    Ég vil fyrir mitt leyti boða að ég er opinn fyrir því að skoða mögulegar breytingar á þessu í þeirri nefnd sem þetta mál fær væntanlega til meðferðar. Vissulega er maður jafnframt tilbúinn til að taka tillit til þess ef stjórnarflokkarnir hafa þurft að gera þarna einhverjar þjáningarfullar málamiðlanir, en ég trúi þá ekki að ekki sé hægt að taka það upp að reyna að betrumbæta þetta frv. þannig að þarna verði afstýrt slysi. Ég held að það sé með öllu óréttlætanlegt að útkoman verði svona tilviljanakennd fyrir landsmenn eftir því hvernig þeir eru í sveit settir og eftir því hvort þeir liggja nálægt höfnum eða ekki.
    Tökum til að mynda Borgarnes. Þar var byggð höfn eða viðlegukantur fyrir allmörgum árum en er nú orðin lítið notfær í dag. Þar á meðal keyra nú olíufélögin orðið allri olíu í Borgarfjörð. Eftir því sem ég best veit nota þau ekki þá aðstöðu sem þar er þó til löndunar olíu og þannig mundi það væntanlega verða að það bitnaði þá alveg sérstaklega á þeim að olíufélögin af einhverjum rekstrarlegum ástæðum eru hætt að flytja olíuna þangað sjóleiðina en nota landleiðina í staðinn. Það yrði svo til þess ef illa tekst til að Borgarfjarðarhérað byggi við hærra orkuverð í þessum efnum. Sunnlendingar eru auðvitað enn verr settir í þessum efnum því að þar er bókstaflega ekki hægt að byggja höfn. Þó hlýtur að verða næsta baráttumál þeirra, ef þetta vitlausa frv. nær hér fram að ganga, að þeir fái olíudreifingarhöfn með flutningsjöfnun við Dyrhólaey. (Gripið fram í.) Ja, eitthvað hljóta þeir til bragðs að taka ef þetta verður yfir þá dæmt.
    Herra forseti. Þetta mál er þannig úr garði gert, og hefur síst batnað við tilraunir hæstv. viðskrh. til að rökstyðja það, að ég tel algerlega ósamboðið Alþingi að afgreiða það í því formi sem það er núna. Ég vona þess vegna að hv. alþm. verði tilbúnir til þess að skoða þetta með sæmilega opnum huga þegar það kemur til nefndar og aftur til umfjöllunar í þinginu og ég bind vonir við að takist að lagfæra það og

afstýra því slysi sem ég tel að sé annars í uppsiglingu.