Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 15:34:00 (4407)

     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Búið er að ræða mikið þetta frv. til laga um jöfnun flutningskostnaðar á olíuvörum. Ég vil láta það koma hér fram að þegar upprunalega frv. var kynnt í Sjálfstfl. vorum við þó nokkuð margir þingmenn flokksins mjög ósáttir við orðalag þess varðandi flutningsjöfnun. Við vorum sáttir við það sem laut að flutningsjöfnun á sjó en okkur var ljóst að það þyrfti að tryggja að verð yrði einnig það sama annars staðar á landinu. Gerð var veruleg breyting á 10. gr. frv. sem hljóðar nú þannig, með leyfi hæstv . forseta:
    ,,Að undanteknum fyrirmælum um jöfnun flutningskostnaðar samkvæmt lögum þessum, skal um verðlagningu á olíuvörum fara eftir lögum nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, með síðari breytingum.
    Þó skal við það miðað að auglýst verð hvers innflytjanda gildi á öllum almennum afgreiðslustöðum hans um land allt. Hið sama gildir um gasolíu og bensín, sem afgreitt er í birgðageyma við lögheimili aðila er þar stunda fasta staðbundna starfsemi.``
    Í athugasemdum við þessa sömu grein segir:
    ,,Í þessari grein er ítrekað að lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti gildi um olíuviðskipti með því fráviki, sem af jöfnun flutningskostnaðar samkvæmt lögum þessum leiðir. Það er því í höndum Verðlagsráðs að fjalla um verðlagningu olíuvara.
    Gert er ráð fyrir að auglýst verð hvers innflytjanda gildi á öllum afgreiðslustöðvum hans og við afgreiðslu á birgðatanka notenda er þar stunda fasta staðbundna starfsemi. Þetta ákvæði kemur ekki í veg fyrir að hann veiti einstökum kaupendum afslátt í samningum, t.d. við útboð á olíukaupum eða hann krefji sérstaklega um kostnað vegna flutnings á olíuvörum, t.d. til verktaka inn á hálendinu.``
    Með þessu orðalagi og breytingu á greininni, eins og hún liggur hér fyrir í þinginu, er það alveg ótvírætt að sama verð á að vera á öllum olíuvörum á landinu, á öllum hinum almennu afgreiðslustöðvum. Meira að segja segir allt að því hér að sama verð eigi að vera á olíu á geyma við lögheimili og þá er fyrst og fremst átt við sveitir landsins. Með þessu orðalagi er verið að tryggja það. Sú mikla hræðsla sem hefur gripið um sig er ástæðulaus.
    Þá komum við að því, af hverju þessi hræðsla hefur gripið um sig. Hún hefur gripið um sig vegna

þess að frá einu olíufélaginu heyrðist eða var gefið til kynna eitthvað á þá leið að afgreiðslustöðvum yrði fækkað af því að hinn sameiginlegi Flutningsjöfnunarsjóður yrði lagður niður en lagður á herðar hvers olíufélags fyrir sig. Mér þætti gaman að sjá viðskiptamenn olíufélaganna, alveg sama hvaða olíufélag það er, þegar þeir kæmu á Egilsstaði og þyrftu að greiða bensínið hærra verði. Það er alveg útilokað samkvæmt þessu. Þá kemur sá óttinn að olíufélögin leggi niður tilteknar afgreiðslustöðvar sem þeir telja sig hafa byrði af. Hvað ætli þeir segðu ef olíufélögin legðu niður afgreiðslustöðvar á hinum og þessum stöðum á landinu þar sem hafa verið stöðvar jafnvel áratugum saman? Þó þeir vilji ekkert gera fyrir strjálbýlisfólkið þá eru þeir ekki svo illa á vegi staddir. Höfðuðborgarbúar aka ansi mikið út um landið. Það væri gaman að sjá framan í þá þegar þeir kæmu norður á Strandir eða að Kirkjubæjarklaustri ef bensínið væri allt í einu orðið dýrara þar eða þeir fengju bara alls ekkert bensín, það væri búið að loka. Það er alveg útilokað.
    Þessi umræða minnir mig á maraþonumræðu sem varð hér í þinginu nokkrum árum eftir að ég kom á þing um mjólkur- og brauðbúðir. Kvöld eftir kvöld var þingfundur um það hvað þetta væri mikið óhagræði fyrir húsmæðurnar í Reykjavík að leggja niður þessa dásamlegu samkomustaði húsmæðra, brauð- og mjólkursölubúðirnar, því að þar kæmu menn saman, sérstaklega húsmæður, til að ræða málin. Það þótti fráleitt að fara með mjólkina inn í matvöruverslanirnar. Ég tala nú ekki um stórverslanir og kjörbúðir. Alltaf er til fólk sem getur aldrei skilið að ýmsu þurfi að breyta. Tímarnir eru að breytast, þjóðfélagið er að breytast og heimurinn er að breytast. Það þarf alltaf að taka eitthvert mið af breytingum sem verða. Ég held að enginn vilji hefja aftur atvinnurekstur í mjólkurbúðum, taka mjólkina út úr kjörbúðum og öðrum matvöruverslunum og stofna aftur mjólkur- og brauðsölubúðir. Enginn hefur flutt tillögu um það á Alþingi. Það er trú mín að sama verði uppi með þetta þegar á reynir, það verður engin breyting í reynd. Ef eitt olíufélag ætlar að fækka afgreiðslustöðvum, sem það hefur haft um langan tíma, þá munu menn ekki sætta sig við það.
    Ég skal fúslega gangast undir það að ef í ljós kemur að efasemdamennirnir hér hafi á réttu að standa, þá flytjum við bara frv. aftur og fáum þessu breytt. Þá eru olíufélögin búin að sýna hug sinn. Þau hafa þá svikið landsbyggðina. Með þessari breytingu var verið að tryggja að sama olíuverð væri á öllum sveitabæjum í landinu. Við vorum ekki síst með Suðurland í huga þegar við ræddum þessi mál.
    Það getur vel verið að þið séuð greindari á Suðurlandi en annars staðar --- ég skal ekki fara í neitt kapphlaup í þeim efnum --- kannski sér í lagi í Vestmannaeyjum af því að þeir felldu kratana í síðustu kosningum. Ef ég man rétt þá eru þeir búnir að fella kratana í tveimur síðustu kosningum. En ég held að þó að þeir séu nú greindir á Suðurlandi hafi þeir ekki verið búnir að sjá það að Alþfl. eða Jafnaðarmannaflokkurinn færi í stjórn eftir næstu kosningar með Sjálfstfl. Kannski þeim hafi ekki litist á að hafa Alþfl. í félagsskap með Framsfl. og Alþb. Það lýsir kannski hinni sérkennilegu og miklu greind krata á Suðurlandi. Ég vildi bara skjóta þessu inn þó að mér finnist það ekki hafa nein veruleg áhrif á flutningskostnað á olíuvörum.
    Ég segi fyrir mitt leyti að ég var einn af þeim þingmönnum Sjálfstfl. sem vildi fá fram breytingu á frv. Við fengum ákaflega elskulegar kveðjur frá tveimur dagblöðum sérstaklega um að við værum sósíalistar. Þeir væru hvergi orðnir eftir nema í þingflokki Sjálfstfl. því ekki fyrirfinnast þeir í Alþb. Alltaf, þegar tvö af stærstu blöðum þjóðarinnar ná saman í leiðaraskrifum, Morgunblaðið blessað og DV, kemur það illa út. Mér finnst það vera áhyggjuefni ef þau eru samstiga í leiðaraskrifum.
    Mér fannst ekkert óeðlilegt við að það yrði reynt að ná þessu samkomulagi. Það tók sinn tíma eins og gerist og gengur en það náðist. Við það samkomulag ætla ég að standa en það skal ég segja hv. stjórnarandstæðingum og þar með hv. 5. þm. Suðurl. að ég er ekkert síður en hann tilbúinn til að taka upp fullkomna jöfnun á flutningskostnaði á olíuvörum ef olíufélögin ætla að hundsa þann vilja sem fram kemur í frv. Þá hafa þau sagt okkur, löggjafanum, stríð á hendur. Við bendum á, og menn verða að taka það með í reikninginn, að þetta frv. er um aukið frelsi í olíuviðskiptum, í innflutningi á olíu. Vörukaupareikningur verður lagður niður. Menn hafa almennt verið sammála um það en okkur hefur verið legið á hálsi fyrir að vilja ekki sleppa þessu öllu fram hjá með því að leggja niður vörukaupareikninginn. Um það hefur enginn ágreiningur verið á milli stjórnarflokkanna og ég hef ekki heyrt nokkurn ágreining í þeim efnum frá stjórnarandstöðunni.
    Ég er þeirrar skoðunar að í ákvæði í frv. felist að sama verð verður á olíuvörum, á gasolíu og á bensíni. Ég er ekki búinn að sjá það að olíufélögin þori eða vilji sýna viðskiptamönnum sínum, eftir því hvar þeir búa á landinu, að þeir ætli að selja bensínlítrann hærra verði á þessum stað en á hinum. Og ef þeir ætla að fækka verulega afgreiðslustöðunum, þá hafa þeir sýnt það að þeir vilja ekki viðurkenna að verið er að koma til móts við innflutninginn með auknu frelsi og þá þýðir ekki annað en svara á þann veg að flutningsjöfnun verði tekin upp. En ég er algerlega ósammála þeim þingmönnum stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa talað, að í þessu felist nein bein hætta. Komi það í ljós skal ég vera fyrstur manna til að viðurkenna að nauðsynlegt sé að breyta.