Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 15:47:00 (4408)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir hans ræðu. Ég held að hún hafi skýrt nokkuð það sem ég var að spyrja um, þ.e. hver hefði verið ágreiningur stjórnarflokkanna sem legið hefði til grundvallar þeirri málamiðlun sem nefnt var að hafi verið gerð.

    Varðandi það, sem einnig kom fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf., að það sé vilji manna, samanber orðalag 10. gr., að um sama verð verði að ræða á öllum almennum afgreiðslustöðum og til allra fastra kaupenda á olíuvörum þar sem þeir eru með sinn atvinnurekstur, þá dró ég það ekki í efa í minni ræðu. Ég spurði hins vegar hvers vegna menn gangi þá ekki hreint til verks og hafi orðalagið afdráttarlaust. Er nokkur ástæða til þess að láta á það reyna fyrst hvernig olíufélögin fara með þetta ákvæði? Ég held að það sé sáraeinföld breyting. Ef það er vilji þingsins að þannig skuli það vera má breyta 10. gr. þannig og segja: Þó skal auglýst verð hvers innflytjanda gilda. Ég vek athygli á því að eins og þetta er, bæði í 10. gr. og í umsögn um hana, að þá stendur annars vegar í frumvarpsgreininni: ,,Þó skal við það miðað, . . .  `` og hins vegar í umsögn um hana: ,,Gert er ráð fyrir . . .  ``. Ljóst er að orðalag er ekki afdráttarlaust á hvorugum staðnum. Ef menn eru efnislega sammála eða nálægt því að vera sammála um að heppilegast sé að þetta sé svona, því á þá ekki að segja það og setja það ósköp einfaldlega í lagatextann? Eru menn að vinna eitthvað með því að hafa hann pínulítið opinn í annan endann í þessum efnum, ég segi ekki báða enda?
    Mig langar til að spyrja: Er ekki hægt að taka þá skrefið til fulls, hnýta þennan litla lausa enda sem mundi gera það að verkum að fulltrúar Sunnlendinga gætu jafnóhræddir og aðrir staðið að þessari breytingu?