Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 15:50:00 (4409)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Herra forseti. Frv. tengist þeirri ákvörðun sem hæstv. viðskrh. hefur tekið um að gefa allan innflutning á olíuvörum frjálsan frá 1. jan. 1992 og það verður að skoða í því ljósi. Þær ráðstafanir hljóta að kalla fram þá spurningu hvort þær leiði til þess að verðlag á olíuvörum, bensíni, olíu og svartolíu lækki í landinu. Það er grundvallarspurningin. Leiða þessar ráðstafanir til þess að við getum horft fram til þess tíma að verð á olíuvörum lækki?
    Það hefur löngum verið gagnrýnt að olíufélögin hafa starfað í landinu í skjóli ríkistryggðrar einokunar. Á undanförnum árum og áratugum hafa verið lögð fram mörg þingmál um að starfsemi olíufélaganna verði tekin til endurskoðunar. Mér er það minnisstætt að ég var meðflutningsmaður að slíku máli í þinginu á árinu 1979. Áður en það var hafði þetta mál verið til umræðu í þinginu og allt fram á þennan dag. Það verður því að segjast eins og er að nú er verið að standa að allróttækum breytingum hvað kaup og dreifingu olíuvara varðar. Ég hef skilið það svo að þau skref sem verið er að taka núna eigi að leiða til þess að verðið lækki í þágu kaupandans, neytandans.
    Þegar málið kom fyrst til umræðu í þingflokki Alþfl. tók ég það skýrt fram að ég gæti ekki staðið að þessum breytingum ef það mundi leiða til þess að verð á olíuvörum yrði mishátt eftir landshlutum. Það kæmi ekki til greina. Tryggja verði með ákvæðum í lögum að sama verð yrði á olíuvörum hvar sem er á landinu. Samkomulag hefur síðan náðst á milli stjórnarflokkanna um það sem kemur fram í 10. gr. frv. Ég held að tæpast verði hægt að kveða skýrar að orði en gert er þar. Þar er tryggt að sama verð eigi að vera hvar sem er á landinu. Ef það verður mishátt þá er það lögbrot. Hér er ábyrgðinni velt á olíufélögin og þau verða sjálf að standa undir þeirri ábyrgð að sama verð verði boðið hvar sem er á landinu.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst eins og umræðurnar um þetta mál beri þess vitni að fremur sé verið að gæta hagsmuna olíufélaganna heldur en neytandans. Ef við erum að stíga skref í þá átt að verð á olíuvörum lækki þá er það náttúrlega gott skref. Við gætum ekki stigið það skref ef verðið ætti að lækka fyrir suma en hækka fyrir aðra. Ljóst er að ef ákvæði 10. gr. væri ekki í frv. hefði verðið á olíuvörum hækkað á landsbyggðinni og lækkað á höfuðborgarsvæðinu og þróast jafnvel í sömu átt og við höfum séð hvað varðar verðlag á nauðsynjavörum og verðlag á vörum til heimilisins. Það jaðrar við að landsbyggðin sé farin að greiða niður verðlagið á höfuðborgarsvæðinu. Við ættum fremur að horfa í þá átt að taka upp ákvæði eins og felast í 10. gr. frv. í fleiri lögum er fjalla um verðlag og viðskiptahætti í landinu. Ég undrast því margar úrtölur sem átt hafa sér stað í þessu máli. Við ættum fremur að fagna því skrefi sem hér er verið að stíga, tímamótaskrefi, sem táknar að við erum að verja rétt búsetunnar í landinu.