Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 17:13:00 (4416)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá tiltölulega jákvæðu umræðu sem átt hefur sér stað enn á ný um þetta frv. þó með kannski svolitlum fyrirvara um tvær síðustu ræðurnar sem hér voru fluttar. Mér finnst að þær ræður séu í rauninni svolítil tímaskekkja og að þeir hv. þm., þótt þeir séu í hópi hinna yngri hér á þinginu, hafi ekki alveg áttað sig á þeim breytingum sem hafa orðið og eru að verða á afstöðu þorra fólks gagnvart umhverfinu, gagnvart dýrum í umhverfinu og jafnframt gagnvart náttúrunni.
    Ég hjó eftir því að hv. síðasti ræðumaður sagði að það ætti að taka meira tillit til þeirra sem eiga auðlindina. ( GÁ: Auka ábyrgðina.) Já, auka ábyrgð þeirra, en ég spyr: Hver á fugla himinsins? Ég get ekki svarað því hver á fugla himinsins. Er þetta ekki partur af því sem við eigum í sameiningu? Ég held að þetta sé ekki einstaklingseign og held að flestir þingmenn séu raunar sammála um það. ( GÁ: Hluti af landnytjum.) Þar sem land er í einkaeign, hv. þm., ekki er allt land í einkaeign. Ég ætla ekki í smáatriðum að tína upp einstök atriði eins og um það sem segir í þessu lagafrv. og hv. þm. Ingi Björn Albertsson nefndi að ef veiðimaður banar fugli á landareign einhvers einstaklings er sá fugl í því tilviki eign þess sem landið á. Það er ekki verið að breyta neinu með þessu og ég geri ekki ráð fyrir að um þetta sé í rauninni verulegur ágreiningur enda er þetta lítið og smátt atriði í allri umræðunni.
    Mér þótti það hins vegar miður að heyra hv. þm. Inga Björn Albertsson, sem ég held að hafi misskilið hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, fagna því mjög ef ætti að auka þá fjölbreytni sem veiðimönnum stæði

til boða, en hún nefndi sérstaklega að það væri til fyrirmyndar hér hjá okkur að hér hefur aldrei verið leyfð veiði á mófuglum, sem víða eru mikið veiddir, t.d. lóan og spóinn. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann leggja það til, mæla því bót eða einu sinni hugsa til þess að hér yrði farið að stunda skotveiðar á spóa og lóu og ég vona svo sannarlega að ég hafi misskilið hv. þm. Ég held að það sé í rauninni sumpart skáldunum okkar að þakka hvaða hug menn bera til þessara fugla. Það eru raunar margir sem bera þann hug til rjúpunnar líka, þökk sé kannski Jónasi Hallgrímssyni, þó ekki geri það allir.
    Varðandi veiðikortin þá bendi ég bara á það í allri vinsemd að hjá næstum öllum þjóðum í kringum okkur tíðkast þessi háttur. Menn fá veiðikort, menn borga fyrir það og menn skrá veiði sína. Grænlendingar, sem meira en allar aðrar þjóðir lifa á veiðum, telja sér brýnt og nauðsynlegt að taka upp þessa reglu. Mér finnst það vera partur af siðaðra manna háttum í veiðimennsku að taka upp þennan sið.
    Spurt var: Hvað á þetta að kosta? Jú, það var nefnd hér upphæðin þúsund krónur. Mér finnst ekkert óeðlilegt að slíkt kort kosti á bilinu eitt til tvö þúsund krónur. Ég er sannfærður um að flestir íslenskir veiðimenn mundu með glöðu geði borga slíkt gjald sem rynni til rannsókna og til þess að hafa stjórn á þessum stofnum. Auðvitað er alveg ljóst að ýmsir hafa af þessu verulegar tekjur, t.d. rjúpnaveiðum. Auðvitað er það ljóst. Ég geri ekki ráð fyrir að menn muni hafa á móti þessu og ég minni á og ítreka að þessi háttur þykir hvarvetna sjálfsagður.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson skýrði frá því hér að hann hefði stundað fuglaveiðar t.d. í Bandaríkjunum, þar var ekki bara gjald heldur mjög strangar takmarkanir á því hvað mátti veiða marga fugla. Við lifum einfaldlega, hv. þm. Ingi Björn Albertsson, ekki lengur þá tíma og ekki lengur í því þjóðfélagi að menn geti farið hvert sem þeir vilja, út á sjó eða upp á fjöll og veitt, þó um takmarkaðan tíma sé, eins og þeir vilja. Það er ekki rétt lengur. Það sjónarmið á ekki rétt á sér. Ég veit að við erum ósammála um þetta. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson, hefur greinilega allt aðrar skoðanir á þessu en ég hef og auðvitað kemur meiri hluti Alþingis til með að ákveða þetta.
    Hv. þm. var nú búinn að nefna í sinni fyrri ræðu mörg af þeim atriðum sem hann nefndi aftur núna og ég var búinn að svara allmörgum þeirra. Hvernig talan 15.000 er fundin, hún er sjálfsagt ágiskun og ég ætla ekki að leggja dóm á það hvort hún er nærri lagi eða ekki. Til þess skortir mig einfaldlega forsendur. Ég geri ráð fyrir að þeir menn sem frv. sömdu hafi legið nokkuð yfir því að finna einhverja sæmilega trúverðuga tölu. Það má vel vera að hún sé ekki rétt.
    Varðandi þær reglur og hvort ætti að fara að skylda menn á skólabekk og allt sem sagt var um það ætla ég ekki að hafa mörg orð um. Ég vildi bara vekja athygli á því að Evrópuráðið hefur gert samþykkt. Sú samþykkt er frá árinu 1985 eða 1986 og er auðvitað ekkert bindandi fyrir Ísland, en hún er tilmæli til þings okkar og stjórnar þar sem lagt er til að aðildarlöndin innleiði reglur um veiðikort og um strangari kröfur til veiðimanna en gerðar hafa verið hér á landi fram að þessu. Í þessum reglum er m.a. talað um hvernig veiðiprófi skuli háttað, siðfræði veiðimanna og hvaða upplýsingum þurfi að safna til þess að vakta þá dýrastofna sem veitt er úr. Ég endurtek að með þessari samþykkt er Ísland ekkert skuldbundið en þetta eru tilmæli Evrópuráðsins sem við erum aðilar að og höfum væntanlega samþykkt. Þetta var samþykkt af ráðherranefndinni 18.--21. mars 1986 og auðvitað hljótum við að hafa slíkar samþykktir til hliðsjónar og leiðbeiningar þegar við setjum okkur reglur um þessi lög. Við getum ekki og eigum ekki að hafa allt aðrar reglur í umhverfismálum en aðrar þjóðir. Okkur er einfaldlega ekki stætt á því.
    Ég vil þakka hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir hennar ágætu ræðu og ég er henni sammála raunar um flest þau atriði sem hún nefndi. Hv. þm. og formaður umhvn., Gunnlaugur Stefánsson, nefndi að þetta frv. væri hugsanlega samið í einhverju fljótræði. Þá vil ég benda honum á bls. 9 í athugasemdum við frv. þar sem kemur fram að nefndin sem frv. samdi hélt 30 fundi. Það má vera að þeir hefðu þurft að vera þrisvar þrjátíu eða þrjátíu sinnum þrjátíu, þannig að ekki væri hér um fljótaskrift að ræða, en ég held nú samt ekki. Á þessari síðu kemur líka fram að frumvarpsdrögin voru send Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Náttúruverndarráði, fuglafriðunarnefnd, dýraverndarnefnd ríkisins og Skotveiðifélagi Íslands til umsagnar. Frá þessum aðilum bárust margar og gagnlegar ábendingar þannig að það er misskilningur að einhver fljótaskrift hafi verið á þessari vinnu.
    Varðandi það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði í um margt athyglisverðri ræðu er það alveg rétt sem hann sagði um hreindýrin að þeim hefur fjölgað um of. Þess vegna hafa líka verið gerðar ráðstafanir til þess að taka meira úr þeim stofni að undanförnu en gert hefur verið til þess að koma megi stofninum í þá stærð sem þeir er gerst til þekkja telja að það svæði þoli þar sem hreindýrin ganga. Hann nefndi líka atriði sem bar á góma fyrr í þessari umræðu, þ.e. með örninn sem er alfriðaður og vágestur í æðarvarpi, hvort ætti þá ekki að leggja ótvíræða bótaskyldu á hið opinbera þar sem hann veldur usla og tjóni í æðarvarpi. Það finnst mér koma til álita. Slíkar bætur hafa verið greiddar, að ég best veit, og eitt slíkt mál a.m.k. er nú á döfinni. Þetta er eitt af því sem kemur til álita. Hann gerði líka að sérstöku umtalsefni rjúpnaveiðarnar og tekjur sem menn höfðu af þeim hér áður og það er alveg rétt að af þeim höfðu Íslendingar verulegar tekjur. Lýsingar, sem til eru frá þeim tíma þegar rjúpnaveiðin var sem mest, benda til þess að þá hafi verið hér langtum meira meira af rjúpu en hefur verið undanfarna áratugi. Hitt er svo það að ýmiss konar búnaður sem komið hefur til skjalanna að undanförnu gerir það að verkum að rjúpan á sér ekki lengur neitt friðland neins staðar í rauninni vegna þess að á snjósleðum og fjórhjólum fara menn um fjöll og firnindi þar sem menn fóru ekki til veiða áður. Ég held að það sé nokkurt áhyggjuefni

að gengið sé of nærri stofninum.
    Varðandi regluna um skotvopn og hina 50 m fjarlægð sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson gerði sérstaklega að umtalsefni, þá er það m.a. sett til þess að koma í veg fyrir að menn noti farartækin til þess að skjóta úr þeim eða úr skjóli þeirra. Þetta eru reglur samhljóða því sem er í alþjóðasáttmálum sem við ýmist erum aðilar að eða í þann veginn að verða aðilar að og þetta þykir, held ég, sjálfsagt nær hvarvetna.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Varðandi útfærslu á veiðikortunum skal hiklaust viðurkennt að það mál er ekki fullrætt, það þarf meiri umræðu um það. Ég held þó að meginatriðið sé að viðurkenna þá reglu að rétt sé að gera þetta með sama hætti og aðrar þjóðir gera. Ég held að það sé mikilsverð regla.
    Ég tek svo undir það sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði að ég held að mjög brýnt sé að reyna að ná víðtækri samstöðu um þetta mál. Mér er mætavel ljóst að hér eru mjög mörg atriði sem auðvelt er að hafa margar skoðanir á og sjálfsagt margt sem að mati ýmissa orkar tvímælis. Það verður ævinlega svo í málum af þessu tagi. Ég er engu að síður þeirrar skoðunar að um þetta mál sé hægt að ná ágætri sátt vegna þess að ég held að það sé mikill meirihlutastuðningur við þau grundvallarsjónarmið sem liggja að baki frv.
    Eitt atriði sem ég man að lokum, virðulegi forseti, og hv. þm. Ingi Björn Albertssson vitnaði til þegar hann las hér úr greinargerðinni. Fyrri lög hafa byggt á nokkru virðingarleysi gagnvart tilverurétti ýmissa dýrastofna og miðað að eyðingu eða útrýmingu. Þetta er einfaldlega sagt, held ég, vegna þess að til munu vera lög um útrýmingu svartbaks. Það er ekki verið að tala um veiðimenn heldur afstöðu löggjafans varðandi útrýmingu einstakra stofna og það er m.a. það sem verið er að breyta með þessu frv., þó að ég geti vissulega viðurkennt að þeir sem hafa gert minkinn að sérstöku umtalsefni hér hafi töluvert mikið til síns máls.