Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 17:37:00 (4421)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í umræðunni einfaldlega vegna þess að ég missti af þeim umræðum sem urðu í upphafi og þær urðu langar þannig að ég reiknaði með því að flest hefði komið til umræðu sem tilefni hefði verið til.
    En vegna þess hvernig umræðurnar hafa staðið núna langar mig til þess að segja álit mitt hér á 11. gr. og eins að beina spurningu til hæstv. umhvrh. um 9. gr. Fyrst um 9. gr., en þar stendur í 4. tölulið að m.a. sé óheimilt að nota:
    ,,Net nema til kópaveiða og háf til lundaveiða. Fugla er drepast í netum sem lögð eru til fisk- eða kópaveiða má ekki nýta á nokkurn hátt nema að fengnu leyfi umhvrn. . . .  ``
    Þegar líður á hverja netavertíð fá menn mikið af svartfugli og það sem menn geta komið í verð er selt. Mikið er borðað af þeim svartfugli sem veiðist í þorskanetin og reyndar önnur net líka en aðallega eru þetta þorskanetin. Þarna er um að ræða tugi þúsunda af fuglum sem drepast í þorskanetum á vorin og þetta þekkja a.m.k. allir sem búa nálægt höfnunum við suður- og vesturströndina.
    Spurningin er þessi: Þurfa útgerðarmenn sem gera út þessa báta að fá leyfi til þess að nýta þennan fugl eða þurfa þeir sjómenn sem lenda í því að fá þessa fugla í netin að hafa sérstakt leyfi til þess að nýta hann, annaðhvort að borða hann sjálfir eða selja hann? Það kann að vera að það hafi verið spurt um þetta áður en því miður var ég ekki við þegar umræður hófust um þetta frv.
    En um 11. gr. langar mig að segja nokkur orð sem mér finnst mjög mikilvægt að komi fram af því að sú umfjöllun sem varð um þá grein áðan snerist ekki að öllu leyti um það atriði sem ég ætla að tala um. Það er að á veiðikorti skuli getið nafns handhafa, svæðis sem kortið gildir á, gildistímabils, tegunda og fjölda dýra af hverri tegund sem viðkomandi hefur leyfi til að veiða. Ég vara alveg sérstaklega við að farið verði að tilgreina fjölda dýra. Mér finnst ekki athugavert við það ef veiðikort verður á annað borð gefið út að þar sé getið um það hvaða dýr viðkomandi megi veiða því að það getur verið þægilegt fyrir eftirlitsmenn að sjá hvort viðkomandi veiðimaður megi veiða dýr af þeirri tegund sem hann er með á öxlinni og hefur veitt. En að ætla sér að fara að setja á kvóta með þessum hætti kallar á öngþveiti og það eiga menn eftir að upplifa að það verður ekki betra, það verður sennilega miklu verra en í sambandi við útgerðina og úthlutunina á kvótunum þar vegna þess að auðvitað hlaupa menn allir til og sjá peninga í þessu. Einhver sem má veiða fimm endur sækir um það til þess að reyna að koma því þá í verð. Ég held að menn komi til með að stjórna sókninni í þessa fuglastofna fyrst og fremst með því að ákveða veiðitímabil með tilliti til stofnstærðanna þannig að menn reyna að áætla hvað mikið komi til með að veiðast og reyni þá að stytta veiðitímabilin eftir því.
    En ég kom fyrst og fremst upp til að vara alveg sérstaklega við þessu, að menn fari ekki út í þetta, því að þá mun skapast mikið öngþveiti og það verður óskaplega erfitt og þarf mikinn mannskap, það tek ég undir með hv. síðasta ræðumanni, til þess að fylgjast með því að menn séu ekki búnir með kvótann sinn ef tekinn verður upp kvóti.