Sinubrennur

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 18:05:00 (4432)

     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Frv. þetta mun nú seint verða talið til stórmála né heldur til pólitískra mála þrátt fyrir að það sé flutt af hæstv. umhvrh. og sé að formi til stjfrv. Frv. er auðvitað ópólitískt mál í eðli sínu og ég vil greina frá því að þrátt fyrir að um stjfrv. sé að ræða, hafði ég og ýmsir flokksbræður mínir í Sjálfstfl. fullan fyrirvara við það. Þó ýmsum kunni að virðast að um smámál sé að ræða er nauðsynlegt að vanda þá löggjöf sem sett er. Kannski má segja að sum atriði frv. séu til bóta og þá einkanlega það að frv. er miklu styttra en gildandi lög. Ég finn vankanta á frv. sem ég sætti mig ekki við að óbreyttu. Áður en ég vík að þeim vil ég gjarnan taka undir það með hæstv. ráðherra að ástæða er til að herða ákvæði um að takmarka sinubrennur umfram það sem tíðkast hefur á undanförnum árum. Ég er því ekki ósammála, raunar sammála. En slík ákvæði eiga að vera einföld og skýr og koma fram í löggjöfinni sjálfri. Að mínum dómi eiga þau að vera skýr þannig að landeigendur og jarðeigendur, sem hafa auðvitað fulla heimild til þess að fara með land sitt eftir gildandi lögum, viti hvað má og hvað ekki. Frv. byggir á því að sinubrenna sé alfarið bönnuð nema að fengnu leyfi og að tilskilinni tilkynningarskyldu.
    Þess er getið hverjir geta fengið leyfi til að brenna sinu. Það eru eigendur og umráðamenn jarða. Gefið er í skyn af hæstv. umhvrh. að slík leyfi kunni að vera auðfengin í ýmsum tilvikum og vel má svo vera. Um leið og slíkar leyfisveitingar eru færðar í lög um jafneinfalt efni og fjallað er um, á eignarlöndum, jarðeignum bænda, þá kemur ekki fram í lagafrv. sjálfu nema að hluta til hvaða skilyrði skuli sett til þess að leyfið fáist. Í frv. sjálfu segir að hæstv. umhvrh. setji reglugerð að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands og Náttúruverndarráðs þar sem mælt er fyrir hver skilyrði leyfishafa skuli vera til þess að hann geti fengið leyfi sem hann þarf síðan að hlíta. Ég verð að segja það að mér finnst þessi lagasetning óviðunandi.
    Nú er það svo ef ég held mig við þann hluta þessa frv. sem fjallar um sinubrennu að í ýmsum tilfellum getur varla verið einfaldara verk. Í ýmsum tilvikum er það svo að það getur naumast orðið tjón af því verki vegna þess að í mörgum tilvikum er það land sem á að brenna algerlega afmarkað, ýmist af skurðum, vegum, árfarvegum og öðrum slíkum náttúrulegum aðstæðum eða mannvirkjum sem koma algerlega í veg fyrir að eldur breiðist út. Og ég tel það hreint ekki viðunandi fyrir t.d. mig sem bónda og jarðeiganda að ef ég vil kveikja í sinu á einhverjum slíkum bletti á landareign minni, t.d. á óslegnu túni, að þurfa að sækja um leyfi og tilkynna einhverju yfirvaldi áður en ég má hafast slíkt að á minni landareign.
    Hæstv. ráðherra sagði búskaparhætti hafa breyst. Það er rétt. Búskaparhættir hafa breyst m.a. á þann veg að í allstórum stíl eru tún ekki heyjuð vegna þess að margar jarðir eru bústofnslausar eða bústofnslitlar vegna ýmissa aðgerða í landbúnaði og við almennan samdrátt í landbúnaði. Það eðlilegasta, einfaldasta og auðveldasta við að koma í veg fyrir að tún eyðileggist af sinu er að brenna þessa sinu að vorlagi ef það er mögulegt vegna veðurfars. Nú er það bannað nema með leyfi stjórnvalds og með tilkynningarskyldu til annarra eftirlitsaðila. En ef sinan væri hins vegar slegin með vélum þá mætti kveikja í eftir að búið er að slá vegna þess að þá er það hey sem kveikt er í. Og engin ákvæði eru til um að það megi ekki brenna hey. Þannig að ef menn vilja nú komast hjá öllum þessum leyfisveitingum þá geta bændur slegið tún sín að vorlagi, sinuna, og kveikt svo í. Þá getur hæstv. umhvrh. ekkert við því sagt. Þá er verið að brenna hey.
    Hæstv. umhvrh. gæti heldur ekkert við því sagt þó ég eyddi að heita mætti öllum gróðri á landareign minni með því að plægja og umbylta öllu landi á minni landareign. Hæstv. umhvrh. vill setja löggjöf þar sem það er leyfisbundið að ég megi kveikja í sinubletti á óslegnu túni, svo dæmi sé tekið. Þetta finnst mér vera ofstjórn og óþarfa vífilengjur um einfalda hluti. Ég endurtek að ég vil gjarnan setja harðari skilyrði en eru í gildandi lögum um meðferð elds við sinubrennur og einnig um meðferð elds á víðavangi sem er hluti þessa frv. og ég tilkynni það að ég mun flytja um það brtt. við þetta frv. Þær brtt. munu lúta að því að herða ákvæði um meðferð elds, bæði við sinubrennu og við meðferð elds á víðavangi. En þá mundi ég hverfa frá þeim leyfisveitingum sem hér eru að þarflausu uppsettar.
    Annar hluti þessa frv. er um meðferð elds á víðavangi og þó þar kunni að vera nokkuð bætt úr frá gildandi löggjöf, þá finnst mér að þar sé of veiklulega til orða tekið í frv. Þar þarf ekkert leyfi. Pétur og Páll geta farið um landið og kveikt eld án leyfis stjórnvalds og án tilkynningarskyldu þótt þeir eigi ekkert í því landi sem þeir dvelja á. Ég mun óska eftir því að sá hluti frv. sé líka tekinn til athugunar og

í þeim brtt. sem ég flyt mun ég leggja til að þau ákvæði væru fremur hert. Því það segir ekki einu sinni í frv. sjálfu að þeim, sem kveikja eld á víðavangi sem ferðamenn, sé skylt að gæta þess að eldurinn sé slökktur áður en þeir yfirgefa sitt eldstæði. Það er ekki orð um það í frv. Enda vitnaði hæstv. ráðherra í það að stundum hefðu orðið slys, tjón á gróðri og löndum, jafnvel mannvirkjum vegna þess að menn hefðu farið ógætilega með eld á víðavangi.
    Ég tel það út af fyrir sig virðingarvert að hæstv. ráðherra hafi haft samband við forstöðumenn ýmissa stofnana. En ég tel ekki miklu skipta að telja upp fjölmargar slíkar stofnanir ef svo augljóslega er verið að setja upp leyfakerfi, tilkynningakerfi um einfalda hluti eins og gert er ráð fyrir, þá gef ég ekki mikið fyrir síkt samráð.
    Það væri svo sem hægt að gera ýmsar athugasemdir við ræðu hæstv. ráðherra en ég ætla ekki að lengja mál mitt með því. Ég vil aðeins nefna það sem hann las upp úr grg. frv. þar sem segir að ná megi sambærilegum eða betri árangri með skipulagðri beit á því landi sem ella væri hugsanlegt að brenna. Ég spyr nú: Mundi hæstv. umhvrh. hlutast til um að t.d. mér sem bónda væri skaffaður búsmali til þess að þeirri beit yrði við komið? Nú á ég enga skepnu. Hver á þá að vinna að uppsetningu girðinga og annars slíks til þess að koma skipulagi á þá beit og fá til þess búsmala frá einhverjum öðrum til að þeirri beit yrði við komið? Það er hægt að setja svona á blað og segja svona vitleysu í ræðustól sem ekki stenst nema í þeim tilvikum þar sem búsmali er. Þannig er auðvitað lítið með svona hluti gerandi.
    Hæstv. ráðherra sagði að oft væri brennufaraldur á vorin í þéttbýli og víðar og það hefði komið fyrir að gildandi lög væru brotin. Ég held að auðvitað sé engin trygging fyrir því þótt ný lög séu sett að þau séu ekki brotin og að krakkar geri sér það ekki að leik áfram eins og verið hefur að kveikja í sinu í þéttbýli. Lög tryggja ekkert í þeim efnum. Eftir því sem lög eru þess efnis að þau fela í sér augljósa vankanta ef þau eru ekki skýr, afdráttarlaus og einföld, um einfalda hluti þá er auðvitað þeim mun meiri hætta á því að þau séu brotin. Og það er auðvitað mikil hætta á því að þegar sett er upp leyfisveitingakerfi og tilkynningaskyldukerfi að þarflausu að slíkar reglur séu þverbrotnar.
    Ég ætla ekki að fara að tala fyrir þeim brtt. sem ég hef sett saman. Ég mun gera það seinna ef ástæða þykir til. Ég hef ekki kunnað við að flytja brtt. áður en 1. umr. fer fram. En ég mun flytja þessa tillögur og ég treysti því að hv. nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, taki þær til athugunar og skoði hvort með þeim sé ekki hvort tveggja unnið, að settar séu skýrar afdráttarlausar reglur um meðferð elds við sinubrennu og meðferð elds á víðavangi þannig að óhætt sé að hverfa frá því leyfisveitinga- og tilkynningaskyldukerfi sem tildrað er upp með þessu frv.
    Ég ítreka enn að reglur þurfa að vera þannig að tvímælalaust sé bannað að fara með eld með þeim hætti að hætta geti stafað af fyrir trjágróður, kjarrlendi, lyng, náttúruminjar, mannvirki og fyrir almannaheill, eins og það er orðað svo hátíðlega á einum stað í frv. Alls þessa þarf að gæta og frv. sjálft er hægt að búa svo úr garði að það sé á ábyrgð landeiganda, umráðamanns þess lands sem með eld fer ef út af er brugðið í þessu efni og það á að beita viðurlögum við og engin undanbrögð með það. En bóndinn, sem býr á jörð sinni, á ekki að þurfa að sanna það með pappírum eða einhverjum vottorðum eða gögnum að hann hafi leyfi til að kveikja eld í sinu á landi sínu ef hann framfylgir þeim stífu og ströngu reglum sem ég tel eðlilegt að settar séu í þessum efnum.