Sinubrennur

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 18:23:00 (4433)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það ætlar nú að endurtaka sig að hæstv. umhvrh. flytur frv. í formi stjfrv. og stjórnarsinnar hefja strax að rífa það niður. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hér í upphafi. Ég vil eiginlega í öllum aðalatriðum taka undir með þessu frv. En ég skal viðurkenna að það kom mér nokkuð á óvart þegar ég fór að lesa lögin sem gilda í dag vegna þess að í núgildandi lögum er óheimilt að brenna sinu nema til komi leyfi hreppstjóra. Og ég skal viðurkenna það að þetta vissi ég ekki þó ég telji mig bónda og hafi oft kveikt í sinu. Ég reyndar hringdi í nokkra hreppstjóra til að spyrja þá að því hvort þeir hefðu oft verið spurðir leyfis um það hvort það mætti kveikja í sinu og könnuðust þeir ekki við slík erindi í sínum sveitarfélögum. Þannig að staðreyndin er sú að við höfum kannski verið með og erum kannski með þokkaleg lög í gildi um þetta mál en þeim hefur bara ekki verið framfylgt.
    Í þessu frv. er ekki ætlast til að það sé hreppstjóri sem veitir leyfið heldur sýslumaður. Og ég er efins um að það sé betra. Reyndar heyrði ég það af þessum ráðunautafundi, sem hæstv. umhvrh. talaði um, að ráðuneytisstjóri umhvrn., sem þar talaði og kynnti frv., hafði sagt sem svo að þetta hefði ekki virkað með hreppstjórana. Ég held að hinn almenni bóndi hafi því miður ekki vitað af þessum lögum og því lagaákvæði að það þurfi leyfi hreppstjóra til að kveikja í sinu eins og málum er háttað í dag.
    Þetta er eitt af þeim málum sem hefur verið fjallað um á búnaðarþingi. Og mér finnst að þar hafi verið tekið skynsamlega á málum án allra fordóma. En það eru nokkrar ábendingar sem búnaðarþing vill koma á framfæri um málið sem það telur að væri til bóta. Sannleikurinn er sá að það hefur verið farið mjög óvarlega að í sambandi við sinubruna og ég er alveg sannfærð um að menn hafa verið óþarflega iðnir við að brenna sinu og litið á það sem einhverja allsherjarlausn sem það raunar ekki er.
    Einmitt núna á þessum vetri, sem hefur verið sérstaklega snjólítill, hafa orðið slys eða óhöpp sem tengjast þessum sinubrunum. Ég er því alveg tilbúin til að fjalla um það að koma þarna betri skikkan á hvort sem það endilega fæst með því að breyta lögunum mikið en alla vega að koma þeim lögum, sem í

gildi eru, til framkvæmda. Ef ég má, með leyfi forseta, aðeins vitna í athugasemdir sem komu frá búnaðarþingi þá eru þar tillögur um breytingar við tvær fyrstu greinar frv. sem ég vil nefna ef það yrði til þess að auðvelda umræðuna. Í fyrsta lagi að 1. gr. hljóði svo, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem brenna á sinu skal leita leyfis viðkomandi sýslumanns sem í vissum tilvikum getur framvísað þessu leyfi til hreppstjóra eða búnaðarsambands, enda sé fylgt ákvæðum í reglugerð sem umhvrh. setur. Þá sé réttur eigenda eða umráðamanna utan þéttbýlis til sinubrennslu tryggður þar sem hún er talin nauðsynleg og að fenginni umsögn ráðunauta.``
    Það, að umsögn ráðunauta þurfi, gæti kannski orðið nokkuð umfangsmikið ef þeir þyrftu að vera mikið í ferðalögum til að meta aðstæður þar sem eigendur eða yfirráðamenn lands hafa áhuga á að kveikja í sinu. Mér finnst það þó mjög athugandi. En ég sit nú í umhvn. og get fjallað um málið frekar þar og einnig það að þessu leyfi sé hægt að framvísa til hreppstjóra. Ég óttast að erfiðara verði að fá menn til að sækja um þetta leyfi til sýslumanna en til hreppstjóra.
    Við 2. gr. er gerð tillaga um breytingu af hálfu búnaðarþings. Greinin yrði þá þannig, með leyfi forseta, ég les fyrst upp úr greininni eins og hún liggur fyrir í frv.:
    ,,Ábúendur einstakra jarða og umráðamenn óbyggðra jarða geta einir fengið leyfi til að brenna sinu á jörðum sínum.`` Síðan komi og það er tillaga frá búnaðarþingi: ,,Heimild verði þó til sinubrennslu í eða nálægt þéttbýli ef sérstakar ástæður mæla með, eins og t.d. af heilbrigðisástæðum (riðu og fleiri sjúkdóma) enda sé slíkt gert undir eftirliti brunavarna.``
    Síðan kemur óbreytt upp úr 2. gr. frv.:
    ,,Síkt leyfi má því aðeins veita að eigi stafi af almannahætta, hætta á eyðingu náttúruminja, lyng- og trjágróðurs, mannvirkja o.s.frv.`` Viðbótin yrði: ,,Sinubrennsla verði þó aðeins leyfð þar sem öruggar hindranir komi í veg fyrir óviðunandi útbreiðslu sinuelds.`` --- Lýkur þá þessum tilvitnunum og gerir búnaðarþing ekki tillögur um frekari breytingar.
    Ég velti því aftur á móti fyrir mér hvort eðlilegt er að færa það út úr lögunum og setja í reglugerð hvenær sinubrenna megi fara fram. Samkvæmt núgildandi lögum er það á tímabilinu frá 1. des. til 1. maí. Þetta er reyndar það eina sem ég kunni utan að úr núgildandi lögum. Mér var ósköp vel kunnugt um að það mætti ekki kveikja í sinu eftir 1. maí og það finnst mér mjög mikilvægt ákvæði út af fuglalífi. Það er því spurning hvort nokkur ástæða er til að taka það út úr lögunum og færa inn í reglugerð.
    Mér finnst eðlilegt að einn ákveðinn einstaklingur beri ábyrgð á sinubrunanum eins og gert er ráð fyrir í frv. En mér er ekki alveg ljóst, og því spyr ég hæstv. ráðherra, hvernig þessar leyfisveitingar eru hugsaðar. Er nægilegt að fá þær í gegnum síma eða þarf skriflega beiðni? Það skiptir kannski svolitlu máli, ekki síst upp á póstsamgöngur, því þannig háttar t.d. til þar sem ég bý á landinu að við sækjum til sýslumanns á Húsavík þótt við búum rétt við Akureyri og póstsamgöngur eru ekki sérstaklega greiðar þarna á milli.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. hér í upphafi. Það er nokkuð einfalt, eins og kom fram hjá hæstv. umhvrh. í hans framsögu, en getur sjálfsagt verið nokkuð eldfimt mál eins og mér heyrist að það sé nú þegar orðið.