Sinubrennur

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 18:32:00 (4434)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Nú hefur það gerst á einum og sama deginum að sami ráðherrann kemur með tvö mál. Annað er fullt af agnúum og vansmíði ráðuneytismanna. En svo leggur hann hér fram frv. um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi sem mér sýnist að sé allvel unnið og að hæstv. umhvrh. hafi lagt allmikla vinnu í málið áður en það kom til þingsins. Það hefur ekki verið hugarfóstur einhvers eins manns sem tekur hvergi tillit til neins heldur hefur það verið unnið í samráði við marga. Mér sýnist að upphafið hafi verið 1. okt. 1991 þegar hæstv. ráðherra hélt mjög merkilega ráðstefnu sem hann vitnaði hér til þar sem sjónarmið voru rædd. Ég get tekið heils hugar undir öll þau atriði sem sá fundur lagði áherslu á. En þar sagði að full ástæða væri til að takmarka sinubruna frá því sem verið hefur og í öðru lagi að rétt sé að banna sinubruna en hafa heimild til undanþágu á svæðum utan þéttbýlis og fjarri skógræktarsvæðum. Síðan var bent á að nauðsynlegt væri að efla fræðslu til bænda um kosti og galla sinubrennslu og um leiðir til að draga úr sinumyndun. Það kemur sjálfsagt að því að þeir leggi til í umhvrn. að búfé verði fjölgað og landið nýtt hóflega sem hér skal tekið undir.
    En undir þetta vil ég taka og mér sýnist í aðalatriðum að frv. sé nokkuð gott mál. Ég kem af miklu sinubrunasvæði. Suðurland hefur stundum logað, ekki daga og nætur, það hefur stundum logað heilu vikurnar á vorin þegar landið hefur verið þurrt og menn hafa af gáleysi kveikt elda. Ég er því sammála hæstv. ráðherra um að það þarf að gera þjóðina meðvitaða, hvort sem menn búa í sveit eða þéttbýli, um að sinubruni er sorgarathöfn. Hún er sorgarathöfn vegna þess að landið hefur ekki verið nýtt og menn þurfa að fara um það eldi þess vegna. En ég vorkenni engum, miðað við ferðamáta Íslendinga og bílaeign, að þurfa nú að fara til sýslumanns einu sinni á vori og kynna honum hvað sé í bígerð, hvaða land eigi að brenna og hvers vegna. Ég tel að það eigi ekki að vera flókið mál að hitta sýslumann einu sinni á vori og það mundi kannski efla kynni við sýslumennina því ég verð var við það í sumum héruðum að menn þekkja þá ekki lengur, þessa héraðshöfðingja. Ég vil því mæla með því að það verði sýslumaður sem veiti leyfið.
    Ég er ekki viss um að búnaðarþing hafi komist þarna að góðri niðurstöðu, þótt búnaðarþing komist oft að skynsamlegum niðurstöðum nú eins og áður. Það leggur til að hreppstjórarnir verði milliliðir eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir rakti hér. Ég er ekki viss um að hreppstjórar eigi að vera milliliðir þarna. Þeir eru auðvitað milliliðir, þeir eru armur sýslumannsins í lögunum. Sýslumaður getur falið hreppstjórum ýmislegt en ég held að leyfið eigi að sækja til sýslumannsins og að sinubruni fari fram að vel athuguðu máli. Þetta snertir veðráttu, ég talaði áðan um þurrkatíðina, það getur verið hættulegt þess vegna að kveikja í. (Gripið fram í.) Það er hættulítið í rigningu en þó getur stytt upp snögglega.
    Hæstv. ráðherra. Ég fagna frv. og ég tel að þingið muni ná sátt um málið. Það getur vel verið rétt sem hv. þm. Pálmi Jónsson rakti hér að 4. og 5. gr. væru ekki nógu skýrt orðaðar. Það þarf nefnilega að fara mikil fræðsla fram um þetta. Við sjáum af því skaðann sem getur orðið þegar fólk missir eld, þegar fólk gengur illa frá eldstæði eftir að hafa grillað kjöt eða gert einhverja slíka hluti. Margir staðir eru í hættu út af þessu og það þarf að fara fram mikil fræðsla. Ég sé ekki að það geti verið um leyfisveitingar að ræða hvað þetta varðar. En það þarf mikla fræðslu og það þarf að gera öllum mönnum ljóst að þeir hafa ekki leyfi til að kveikja í landinu. Það er gamanleikur margra í þéttbýlinu að fara út um sveitir og kveikja í meðfram vegum. ( Gripið fram í: Nei.) Þá efast einn úr Skagafirði. Þó hygg ég að sá leikur sé stundaður þar oft á vorin. Ég hef orðið þess var í mínu kjördæmi alla vega að menn skreppi út úr bílum þar sem sina er og kveiki eld. Ég hef líka séð það í mínu bæjarfélagi hvernig börn kveikja í sinu, eyðileggja trjágróður, eyðileggja verk sem aðrir hafa lagt mikla vinnu í að koma í framkvæmd. Þar á ég við trjágróður og fleira og það hefur valdið miklum skaða. Þess vegna er ég sammála því að þjóðin þarf að verða meðvituð um að spyrja um það hvort kveikja eigi í landi. Ég held að það sé mjög mikilvægt.
    Það er eitt atriði sem ég velti æ oftar fyrir mér þegar fjallað er hér um ýmis mál, og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir minntist reyndar á að nú ætti ýmislegt að setja í reglugerð sem stæði í lögunum. Ég held að það sé að verða mjög mikilvægt að reglugerðirnar fylgi með frv., að þingið fái að sjá reglugerðir sem eiga að fylgja hverju máli. Hæstv. viðskrh., sem var að fjalla um ójafnaðarmál í dag, þ.e. olíuna, lét þó fylgja reglugerð með frv. Það var til fyrirmyndar hvað það varðar.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá ekki að hafa fleiri orð um málið en þakka umhvrh. hvernig hann hefur staðið að samningu frv. og vænti þess að það geti orðið að lögum á þessu þingi og í framhaldi af því megi allur almenningur, hvort sem hann býr í sveit eða þéttbýli, vita að það er neyðaraðgerð að brenna land og sjálfsagt að menn þurfi að sækja um leyfi, sem ég ætla að sé auðsótt í flestum tilfellum hvað bændur varðar. Hv. þm. Pálmi Jónsson hafði áhyggjur af því hér áðan að hann fengi ekki leyfi til þess að brenna túnin á Akri. Slíkt mál hygg ég að verði auðsótt þótt ég eigi þá von heitari hans vegna að það verði búsmali fyrr en síðar sem sér um þá iðju fremur en eldurinn.