Umferðarlög

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:01:00 (4438)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Brtt. sú sem hér er flutt og skrifuð á allshn. á sér þann aðdraganda sem hv. formaður nefndarinnar gerði hér grein fyrir, þ.e. eftir 2. umr. kom bréf frá Ökukennarafélagi Íslands þar sem það lét í ljós óánægju sína með það hversu lítill þeirra hlutur væri í þessari nýju stofnun og lítil trygging fyrir því að sú þekking sem þeir búa yfir fengi þar að njóta sín. Að beiðni minni hlutans var haldinn fundur í morgun í nefndinni þar sem þeir komu og skýrðu sín sjónarmið. Þar kom einnig formaður Umferðarráðs og fulltrúi dómsmrn. Það voru satt að segja fróðlegar umræður því að þar kom fram mjög skýr staðfesting á því sem við í minni hlutanum höfðum verið að halda fram við 2. umr. málsins. T.d. sagði formaður Umferðarráðs að það sé ekki síður verið að breyta skipulagi Umferðarráðs með því að setja eina stjórn sem tekur ákvarðanir og ræður og losna við hið þunglamalega Umferðarráð. Það er sem sagt undirstrikað að verið er að breyta algerlega stjórn þeirrar stofnunar, frá því að vera frjáls samtök áhugaaðila um umferðarmál sem kýs sér framkvæmdanefnd úr sínum hópi og í það að vera ráðherraskipuð stjórn. Enda kom það líka fram hjá aðstoðarmanni dómsmrh. að ekki kæmi til greina í opinberri stofnun, eins og hann orðaði það, að ráðherra skipi ekki meiri hluta. Að hans mati hefur Umferðarráð hingað til ekki verið opinber stofnun því hann sagði að við breytinguna í að það verði að opinberri stofnun hljóti ráðherra að skipa að eigin geðþótta meiri hluta stjórnarinnar. Þetta var til að undirstrika þá skipulagsbreytingu sem við í minni hlutanum bentum á og vöruðum við að væri verið að gera á Umferðarráði.
    Hins vegar gerðu fulltrúar ökukennara nánari grein fyrir sínum viðhorfum þar sem þeir skýrðu frá því að fram hjá þeim hefði verið gengið að undanförnu við meðferð þessara mála í dómsmrn. Þeir lögðu áherslu á að best yrði tryggt að hin faglegu sjónarmið kæmu fram ef skipuð væri ráðgjafanefnd til þess að hafa hönd í bagga með framkvæmd ökukennslunnar. Það væri betra en að þeim yrði tryggður einn fulltrúi í stjórnina þar sem hann yrði þá í miklum minni hluta. Ég ítrekaði hins vegar á fundinum hvort ekki væri hægt að einhverju leyti að koma til móts við viðhorf ökukennara og að þeirra þekking fengi að njóta sín við stjórn þessara mála. Niðurstaðan varð sú sem hér kemur fram brtt. um. Ég beindi þessari ósk til meiri hluta nefndarinnar sem hefur fallist á hana. Að sjálfsögðu er ekki nema að litlu leyti komið til móts við ábendingar ökukennara um hið faglega ráð þótt þeim verði tryggður fulltrúi í stjórninni sem þeir töldu að væri miklu lakari kostur. Hér er það einungis sett fram sem nefndarmenn lýstu allir yfir að þeir teldu að ætti að stefna að, þ.e. að ökukennarar fengju þarna einhver áhrif að hafa.
    Ég þori ekki að segja neitt um það hvernig þetta verður í framkvæmd en með þessari litlu brtt. er verið að koma örlítið til móts við eðlilegar og að mínu mati æskilegar ábendingar frá ökukennurum. Að sjálfsögðu fer það eftir því hvernig ráðherra ákveður framkvæmd greinarinnar hversu mikil áhrifin verða þar sem ákvæði greinarinnar eru ekki afgerandi. Ég veit ekki nema það væri kannski heppilegra, og vil beina því til formanns nefndarinnar, að bæta inn í brtt. orðinu ,,faglegri`` þekkingu á sviði ökukennslu til að undirstrika að það sé fagleg þekking sem við leggjum áherslu á.