Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:51:00 (4447)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að endurtaka það sem ég sagði hér áðan að iðnrn. hefur haft og mun hafa náið samstarf við samtök iðnaðarins og iðnaðarmanna um stefnumótun í iðnaðarmálum. Það má vel vera að hv. 4. þm. Norðurl. v. hafi ekki veitt þessu eftirtekt í mínu máli hér áðan en einmitt þess vegna er mér ljúft að endurtaka það.
    Það er vissulega rétt athugað, sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. v. og hv. 3. þm. Vesturl., að tengslin milli náms og starfs eru mjög mikilvægur hlekkur í atvinnulífinu. Þau eru e.t.v. ekki nægilega sterk. Frumkvöðlar í atvinnulífi hjá okkur eins og mörgum öðrum þjóðum hafa mjög víða komið úr röðum iðnmeistara sem hafa valið sér það hlutskipti frá upphafi að starfa á eigin ábyrgð. Sú viðleitni er því miður ekki samgróin langskólanámi í okkar skólakerfi og langskólamenn leita miklu oftar að störfum en verkefnum. Þess vegna má það vera rétt hjá hv. 3. þm. Vesturl. að þarna sé nokkurrar hugarfarsbreytingar þörf.
    Hins vegar vil ég leyfa mér, virðulegi forseti, að vekja athygli þeirra þingmanna, sem þetta mál heyra og ekki síst hv. tveggja ræðumanna, að það er einmitt iðnaðurinn sem þrátt fyrir allt hefur sýnt vöxt framleiðslunnar á síðustu tveimur árum. Í fyrra t.d. jókst iðnaðarframleiðslan um 2,5--3% og um tæplega

2% ef allt er talið en um 2,5--3% ef stóriðjan er skilin frá þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður í okkar þjóðarbúskap. Reyndar var líka vöxtur í iðnaði árið áður, árið 1990. Það er þetta sem menn hafa ekki veitt athygli í barlóminum sem hefur tekið menn allt of föstum tökum. Það er vissulega rétt að við þurfum einmitt stórátak til að efla hér útflutningsiðnað þótt menn þurfi þar að hugsa í áratugum en ekki árum.
    Líti menn yfir liðna tíð sést auðvitað glöggt að einmitt frá árinu 1978, þegar iðnaðarstefnumótunin fór fram sem hv. flm. þessarar tillögu vitnaði til, hefur orðið hörmulegt hlé í uppbyggingu iðnaðar á grundvelli okkar orkulinda vegna neikvæðrar afstöðu margra stjórnmálamanna til þeirrar þjóðþrifastarfsemi. Það skulu menn hafa hugfast og láta það ekki blekkja sig þótt nú eigi það litla og huggulega að bjarga landinu og tími hinna stóru lausna sé talinn liðinn. (Gripið fram í.) Ég vil reyndar, virðulegi þingmaður, leggja á það mjög ríka áherslu að það er fjarri öllu lagi að menn hafi vanrækt annað vegna þess að þeir væru með hugann bundinn við stórvirkjanir og iðnað í stórum stíl á grundvelli þeirra. Þvert á móti hafa þeir ágætu menn sem þannig tala ekki veitt því athygli að á vegum iðnrn. hefur á undanförnum árum, og það mun koma enn betur í ljós á þessu ári, beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum einmitt til þess að hvetja til nýjunga, greiða fyrir nýsköpun í atvinnulífinu með atbeina rannsóknastofnana og nokkrum stuðningi. Það mun koma betur í ljós þegar á veturinn líður.
    Að sjálfsögðu er það líka rétt að það er mjög æskilegt að þingmenn leiði hugann að iðnaðarmálum en ég vil vara við þeirri hugsun að iðnvöxtur verði í nefndum. Hann verður í veruleikanum í starfi þess fólks sem við iðnaðinn vinnur.