Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:08:00 (4451)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér til þess að bera af mér sakir því hér sagði hv. 4. þm. Norðurl. v. að enginn ráðherra hefði tekið þátt í umræðum um þáltill. hans um endurskoðun verk- og iðnmenntunar í landinu. Því miður stóð svo á að ég var þá staddur erlendis í embættiserindum en hafði að sjálfsögðu búið mig undir það að taka þátt í umræðum um þetta þarfa mál. Ég vil að það komi hér fram vegna orða þingmannsins.
    Að öðru leyti vil ég líka leiðrétta misskilning hans. Engan varnartón vil ég hafa í mínu máli. Sá málflutningur, sem hér hefur verið hafður í frammi, hefur á engan hátt farið í taugarnar á mér. Ég hef viljað skýra þau sjónarmið sem ég hef og láta í ljósi efasemdir um að nefndarstarf af því tagi sem hér er gerð tillaga um þjónaði tilgangi. Um leið sagði ég, og ég vona að flutningsmaður tillögunnar hafi heyrt það, að ég vænti þess að iðnn. fjallaði einmitt um málið í þeim anda sem býr að baki tillögusmíðinni, þ.e. að atvinnulífið standi á krossgötum og þurfi að búa sig undir nýjar markaðsaðstæður, gera betur en fyrr.
    Að endingu, af því að innt var eftir því hvað væri verið að gera til að búa íslenskan iðnað undir harðnandi samkeppni, þá vil ég líka leiðrétta nokkuð í því máli. Íslenskur iðnaður hefur búið við samkeppni alveg frá því upp úr 1970. Hægt og sígandi hefur verið létt af þeirri tollvernd sem hann naut. Hann mun fyrst og fremst njóta þess að fá greiðari aðgang að opnum markaði fyrir fjármagn og þjónustu. Hans bíður ekki harðari samkeppni en verið hefur en hins vegar betri möguleikar til þess að láta til sín taka, njóta sín betur. Til þeirra möguleika hygg ég gott og vonast til að þingið starfi með iðnrn. að því að búa iðnaðinn undir þetta sem best, einmitt með því að breyta og gera hagkvæmara reglu- og lagaumhverfi atvinnuvegarins. Þannig getum við tekist á við þá möguleika sem framtíðin ber í skauti sér.