Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:11:00 (4453)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég stend nú upp vegna þess að hæstv. iðnrh. hefur ekki treyst sér til að svara þeim spurningum sem voru lagðar fyrir hann hér. Hv. 5. þm. Vestf. bar upp þá spurningu við hann hvort hann ætlaði ekki að fara að svara beiðninni um skýrslu sem er 24. mál þessa þings. Hann hefði getað orðið við því og svarað hvernig hann ætlar að fara með það mál eða hvort það er í vinnslu og hvenær megi búast við því að þeirri vinnslu verði lokið. Ég ætla honum a.m.k. ekki það að hann hugsi sér að sitja á málinu þannig að það komist ekki til umræðu í Alþingi. Ég trúi því ekki. Hins vegar verður að átelja það hversu langan tíma þetta hefur tekið og að það skuli enn ekki vera komið hér til umræðu. Ég ítreka það nú og óska eindregið eftir því að hæstv. iðnrh. svari þessu.
    Annað rak mig upp í ræðustól. Mér finnst að hæstv. iðnrh. verði að segja betur og nákvæmar hvað hann meinar þegar hann segir að vegna neikvæðrar afstöðu stjórnmálamanna til iðnaðarins hafi ekki betur gengið. Mér finnast hálfkveðnar vísur, þar sem menn segja ekki hug sinn, ekki eiga við. Ég tel að svona orðfæri eigi menn ekki að nota. Menn eiga að segja nákvæmlega hvað þeir eru að meina þegar þeir leggja fram svona þungar ásakanir, því það eru virkilega þungar ásakanir að ásaka stjórnmálamenn um að þeir hafi með neikvæðri afstöðu til iðnaðarins komið í veg fyrir vöxt hans. Og þegar sjálfur hæstv. iðnrh. í landinu segir svona hluti, og hann er jú búinn að vera iðnrh. í fimm ár, hlýtur hann að tala af beiskri reynslu, líklega sinni, eða er þetta fortíðarvandi frá því fyrir hans tíð? Mig langar til að fá einhverjar útskýringar á því hvers vegna hann kaus að koma í ræðustól og kveða þessa vísu sem við skildum ekki botninn í.