Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:13:00 (4454)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu mun ég svara skýrslubeiðninni sem hv. 9. þm. Reykv. o.fl. lögðu fram snemma á þinginu. Það er vissulega miður að það skuli hafa dregist svo mjög að leggja skýrsluna fyrir þingið. Hún mun verða lögð fyrir þingið á næstunni og þá mun að sjálfsögðu gefast tækifæri til að ræða hana. En vegna þess að hv. 3. þm. Vesturl. innti mig eftir hvað ég hefði átt við þá hefur hann ekki heyrt til fulls það sem sagt var. Það sem ég sagði var þetta: Því miður var það svo að frá 1978 varð mjög hörmulegt hlé í uppbyggingu orkufrekrar stóriðju vegna andstöðu stjórnmálamanna við hana og við samstarf við erlenda fjármagnsaðila. Þetta var það sem ég sagði, ég lýsti því ekki á nokkurn hátt að hér hefði verið einhver almenn andstaða við iðnaðinn. Ég hygg að þingmaðurinn skilji mætavel hvað ég átti við því m.a. hefur sá stjórnmálaflokkur, sem hann starfar í, verið andstæðingur uppbyggingu stóriðju með þátttöku útlendinga á grundvelli orkulindanna eins og honum er mjög vel um kunnugt.