Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:36:00 (4463)

     Flm. (Stefán Guðmundsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið svolítið merkilegt að sitja hér um stund og staðfestir það sem ég hef verið að velta fyrir mér í vetur, hvort við höfum gert rétt þegar við réðumst í það stórvirki að breyta þinghaldinu á þann hátt sem gert hefur verið. Mér hefur ekki misheyrst, virðulegi forseti, en mér hefur fundist að nú um sinn væru menn alls ekki að tala um málið sem er á dagskrá heldur væru menn að tala um mál sem Alþb. hefur flutt og þar er beðið um skýrslu? Mér hefur skilist að umræðan hafi snúist um það og kann nú ekki beint skil á því hvernig það má vera.
    Ég hef einnig haft áhyggjur af því að mér sýnist að með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þinghaldinu hafi stórlega verið dregið úr möguleikum hins venjulega þingmanns til þess að flytja mál á þinginu og fá þau rædd á eðlilegan hátt. Svo er um það mál sem er á dagskrá nú og flutt er stuttu eftir að Alþingi kemur saman og um mörg mál er svipað ástatt að þau hafa ekki fengist rædd á Alþingi.
    Virðulegi forseti. Ég vil gera þetta að umræðuefni vegna þess að það veldur mér áhyggjum hver þróunin er í þessum málum. Hugsunarháttur hæstv. iðnrh., sem er nú í hliðarsal og heyrir örugglega mál mitt, veldur mér líka áhyggjum vegna þess að ég hafði orð á því að sjálfsagt hefði það fallið illa að hans smekk að ég, flm. tillögunnar sem er til umræðu, leyfði mér að gera tillögu um það hvernig nefndin skyldi skipuð. Ég lagði til að fulltrúar þingflokkanna færu í að endurskoða það mikla og merkilega verk sem hér er og heitir iðnaðarstefna, álit samstarfsnefndar um iðnþróun og var unnin í ráðherratíð þáv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar og er hið merkasta verk. Vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu er mjög brýnt að endurskoðun iðnaðarstefnunnar fari fram. Ég sem sagt leyfði mér að leggja það til að fulltrúar þingflokkanna fengju aðild að slíkri nefnd ásamt fulltrúum iðnaðarins. En hæstv. iðnrh. tekur því heldur fálega og það minnir mig á þau vinnubrögð sem viðhöfð voru þegar ákveðið var að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Þá var einnig ákveðin sú breyting frá því sem áður hafði verið að stjórnarandstöðunni var meinað að eiga fulltrúa í þeirri endurskoðun. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru svolítið einkennileg.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki segja mikið meira. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. að málið fær að fara til nefndar en það verður nefndin sjálf sem ákveður hvernig það verður afgreitt. Það kemur ekki úr ráðuneytinu, vona ég, þó ég reikni kannski með að reynt verði að hafa áhrif á það. Alþingi kveður svo endanlega upp úr með afgreiðslu málsins hvernig það lítur út í endanlegri mynd. Ég vona því, virðulegi forseti, að þingmenn horfi á málið af fullri sanngirni og beri gæfu til þess að ná sæmilegri eða a.m.k. eins breiðri samstöðu og hægt er um þetta mikilsverða mál.