Kennsla í réttri líkamsbeitingu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 23:13:00 (4467)

     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að fela menntmrh. að undirbúa kennslu í grunnskólum landsins í réttri líkamsbeitingu.
    Þáltill. er borin fram sem liður í forvarnastarfi því vart er hægt að finna betri fjárfestingu en þá að koma í veg fyrir sjúkdóma og slys. Margt hefur áunnist í því að kenna holla lifnaðarhætti og réttan lífsmáta almennt en þetta er margþætt kennsla og mikilvægt að hver hlekkur sé vel hugsaður og sterkur. Engin keðja er sterk nema allir hlekkirnir séu heilir.
    Fyrr í vetur efndi hæstv. heilbrrh. til blaðamannafundar og gerði að umtalsefni þá staðreynd að verulegur hluti heilbrigðisútgjalda fer í það að bæta það tjón sem fólk hefur unnið á sjálfu sér með óhollum lifnaðarháttum. Það er bláköld staðreynd að háar fjárhæðir fara af almannafé til að standa undir þeim kostnaði sem læknismeðferð og endurhæfing almennt hefur í för með sér. Þessi umræða beinir óneitanlega huganum að þeim lífsháttum almennings og þeim atbeina sem hið opinbera hefur um forvarnastarf almennt.
    Í grg. með þáltill. sem hér er til umræðu kemur m.a. fram að óþægindi frá hreyfi- og stoðkerfi eru almenn hérlendis. T.d. má benda á að í athugun Vinnueftirlits ríkisins árið 1986 á einkennum frá hreyfi- og stoðkerfi hjá úrtaki Íslendinga á aldrinum 16--65 ára kom í ljós að 17,6% kvenna og 12,6% karla höfðu haft einkenni frá neðri hluta baks sem kom í veg fyrir að þetta fólk gæti stundað dagleg störf einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum. Einnig kom fram að rúm 40% kvenna höfðu haft óþægindi frá hálsi, hnakka og herðum eða öxlum síðustu sjö sólarhringana. Af þessu má sjá að óþægindi frá hreyfi- og stoðkerfi hafa veruleg áhrif á vinnufærni Íslendinga.
    Nokkuð af þeim kvillum sem fengist er við í heilbrigðiskerfinu eru tengdir rangri líkamsbeitingu. Frumorsök þeirra má oft rekja til skorts á fræðslu og öðru sem stuðlað gæti að heppilegri lífsvenjum og betri heilsu. Allt bendir til þess að fræðsla og mótun í þessu tilliti þurfi að byrja snemma. Ákjósanleg leið væri að kenna líkamsbeitingu í grunnskólum og gæti hún verið hluti af eða viðbót við leikfimikennsluna sem þar er nú kennd.
    Rannsóknir hafa sýnt að heilbrigð börn hreyfa sig á réttan hátt, en á grunnskólaaldri breytist svo líkamsbeiting þeirra til verri vegar. Því má ætla að strax á grunnskólaaldri hefjist óþarfa slit á hreyfi- og stoðkerfi barna sem geti seinna á lífsleiðinni valdið ýmsum kvillum, svo sem vöðvabólgu, brjósklosi í hrygg og slitgigt. Börnin þarf að vekja til meðvitundar um eigin líkama, um mikilvægi réttrar þjálfunar og líkamsbeitingar, til að vinna gegn sjúkdómum og/eða álagseinkennum. Ábyrgðin á eigin heilsu á að færast yfir á einstaklingana en það er háð því að þeir fái góða fræðslu og útskýringar. Í þessu sambandi má benda á að víða erlendis hafa skólayfirvöld ráðið sjúkraþjálfara til að sinna forvarnakennslunni, en sjúkraþjálfarar hafa sérþekkingu á hreyfingum, þjálfun og líkamsbeitingu.
    Hagur samfélagsins af auknum forvörnum er vellíðan þegnanna, aukin vinnuafköst, færri veikindadagar, færri ferðir til lækna og annarra fulltrúa heilbrigðisstétta, færri uppskurðir, minni sjúkrahússkostnaður, færri öryrkjar og minnkun lyfjakostnaðar.
    Lagt er til að forvarnafræðslan hefjist þegar í grunnskólum og einnig má hugsa sér að um námskeið yrði að ræða, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Námskeiðin geta verið hluti af sparnaðarstefnu í heilbrigðismálum. Þar gæti markmiðið verið að minnka vöðvabólgu og bakveiki hjá Íslendingum framtíðarinnar. Námskeiðið væri í formi fræðilegra og verklegra kennslutíma þar sem nemandi gæti tileinkað sér rétt vinnubrögð og réttar stellingar við ýmis störf. Það er kannski svolítið hlægilegt að flytja þessa tillögu núna þegar þingmenn eru búnir að sitja á fundi frá því fyrir kl. 8 í morgun margir hverjir en nú er farið að líða að miðnætti og eru nú þingmenn því orðnir skakkir og skældir. En ég ætla samt að halda áfram með að flytja þessa þáltill.
    Eins og fram kom hér er almenn vinna sjúkraþjálfara ekki föst við skóla hér á landi nema við Öskjuhlíðarskólann og Hlíðaskóla. Þó er vitað til þess að sjúkraþjálfari starfaði um tíma við grunnskólann í Bolungarvík með góðum árangri. Víðast erlendis er þáttur sjúkraþjálfara sjálfsagður í skólum og þáttur í heilsuvernd. Mikið vantar enn þá á hér á Íslandi að þessi heilsuverndarþáttur nái nægilega til vinnustaða almennt. Þó eru nokkur fyrirtæki sem hafa fengið til starfa um tíma sjúkraþjálfara til að byggja upp kerfi með starfsfólki en þá lærir starfsfólk létta leikfimi sem það iðkar einu sinni eða tvisvar á dag í vinnutíma og lærir réttar starfsstellingar. Bætt líðan starfsfólks og minni fjarvistir frá vinnu er reynslan af þessum störfum. Því er þetta mjög arðbært.
    Við Íslendingar erum svo fáir að við getum auðveldlega náð utan um ýmsa þætti forvarna betur en stórþjóðirnir. Við ættum t.d. að nota þetta ár, sem er norrænt gigtarár, til að auka rannsóknir á orsökum gigtar sem allt of margir Íslendingar þjást af. Talið er að allt að 10 milljarðar fari á ári vegna gigtarsjúkdóma hér á Íslandi. Þær rannsóknir kosta auðvitað mikla peninga en skila miklu til framtíðar. Mun skynsamlegra er að koma í veg fyrir óþörf óþægindi landsmanna og útgjöld samfélagsins með forvarnaaðgerðum í stað þess að bíða þar til skaðinn er skeður og fólk verður fyrir ómældum óþægindum og hefur orðið fyrir vinnutapi. Því er það ósk mín að eftir umræður verði tillögunni vísað til hv. menntmn. og þar fái hún hraðan og góðan framgang þannig að fljótt megi hefjast handa í grunnskólum landsins við markvissa kennslu í réttri líkamsbeitingu.