Kennsla í réttri líkamsbeitingu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 23:27:00 (4469)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns og fagna þessari fram komnu tillögu. Ég tel að hér sé hreyft afar mikilsverðu máli. Ég hef að nokkru leyti fylgst með þessum málum eins og þau gengu til á sínum tíma heima í mínu héraði þegar þáverandi heilsugæslulæknir, Pétur Pétursson, hafði forgöngu um kennslu og leiðbeiningar varðandi líkamsbeitingu í frystihúsi. Það kom í ljós mjög fljótlega að hér var um að ræða mjög merkilegt starf sem skilaði strax verulegum árangri. Það er miður að þessi tilraun skyldi ekki komast lengra þannig að menn tækju þetta upp víðar um landið og ynnu sameiginlega að þessu verkefni, heilbrigðisstéttirnar og aðilar vinnumarkaðarins.
    Hvað varðar þessa tillögu vil ég varpa því upp hvort ekki væri áhugavert, ef ekki eru um það upplýsingar í dag að nefndin sem fær þessa tillögu til meðferðar hlutaðist til um það að láta taka saman, láta gera eitthvert mat á þeim kostnaði sem lendir á þjóðfélaginu með einum eða öðrum hætti vegna rangrar líkamsbeitingar eða af skyldum ástæðum. Ég held að það væri mjög fróðlegt að hafa það fyrir framan sig hvað menn geta verið með háar tölur í þessu sambandi. Enn fróðlegra væri að sjá, ef minn grunur er réttur, hversu litlu fé þarf að verja til að spara mikið. Hér er um að ræða mál af því tagi sem við ættum að einbeita okkur að í stað þess að böðlast um eins og naut í flagi í heilbrigðismálum.