Kennsla í réttri líkamsbeitingu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 23:30:00 (4470)

     Þuríður Backman :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa till. til þál. sem liggur hér frammi. Þetta er að mínu mati mjög tímabær tillaga þar sem lög um heilbrigðisþjónustu hafa ekki öll náð fram að ganga, m.a. það sem hér var fram talið áðan um forvarnastarf. Samkvæmt heilbrigðislögunum ber að ráða sjúkraþjálfara til starfa á stærri stöðvunum. Á mörgum þeirra eru starfandi sjúkraþjálfarar en þeir sinna ekki nákvæmlega þessu starfi, kennslu í réttri líkamsbeitingu, hvað þá að þeir fari út á vinnumarkaðinn og kenni fólki réttar líkamsstellingar í sinni vinnu. Þeir stunda þar eingöngu sjúklinga sem eru þá jafnvel með einkenni frá stoðkerfi og hreyfikerfi vegna rangra vinnustellinga og rangrar líkamsbeitingar. Það er mikill sparnaður í forvarnastarfi, þessu sem öðru. Það er erfitt í niðurskurði eins og er í dag að tala um sparnað með því að fjölga stöðugildum á heilsugæslustöðvunum. En þar liggur sparnaðurinn því að þetta skilar sér, að vísu ekki í dag, en innan mjög fárra ára. Dæmið sem hv. þm. tók hér áðan um tilraunina í frystihúsinu skilaði sér innan fárra mánaða þar sem vinnutapið varð minna. Fjarvistir vegna bakveiki urðu strax minni. Ekki er nóg að tala hér um kennslu í réttri líkamsbeitingu. Það þarf að fylgja því eftir inn í skólana með því að nota rétta stóla og rétt borð og rétta hæð þannig að vinnuumhverfið sé rétt, ekki bara úti á færiböndunum í frystihúsunum heldur á að byrja strax í grunnskólanum. Börnin eiga að finna strax að rétt líkamsbeiting og réttar stellingar skila sér þannig að þeim líður betur.
    Listinn um heilsuvernd, um fyrirbyggjandi aðgerðir sem heilsugæslustöðvarnar eiga að standa fyrir, er langur. Ég veit ekki um neinn vinnustað eða heilsugæslustöð sem hefur getað uppfyllt þær kröfur sem eru gerðar til stöðvarinnar varðandi heilsuvernd. Það vantar fleiri stöðugildi til að sinna þessu mikilvæga starfi sem skilar sér, eins og ég sagði áðan, innan fárra ára.