Kennsla í réttri líkamsbeitingu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 23:34:00 (4471)

     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka 7. þm. Reykv., 4. þm. Austurl. og 5. þm. Vestf. fyrir mjög góðar undirtektir og mikinn skilning á málinu. Ég bjóst satt að segja ekki við að fá mjög miklar undirtektir við þetta mál því þegar ég lagði frv. fram á sínum tíma voru ýmsir karlmenn hér hlæjandi og höfðu satt að segja ekki mikinn skilning á þessu. Þannig er yfirleitt með allt í sambandi við heilsuna að það er ekki fyrr en hún bilar sem menn gera sér grein fyrir mikilvægi hennar, því miður. Það gladdi mig mjög hversu vel var tekið undir tillöguna. Ég ætla að minna á að fyrrv. heilbrrh. lagði mikla áherslu á forvarnastarf almennt á sínum valdaferli. Hann lagði fram heilbrigðisáætlun sem var vitnað hér til og var samþykkt á þingi og hann lagði líka fram till. til þál. um manneldisstefnu. Ég vona að núv. hæstv. heilbrrh. fylgi þessu eftir. Satt að segja olli það mér nokkrum áhyggjum þegar farið var að taka þetta háa þjónustugjald á heilsugæslustöðvunum því ég er hrædd um að það dragi úr heimsóknum manna á heilsugæslustöðvarnar þar sem þessi fræðsla öll á að fara fram.
    En hér hefur ýmislegt verið tínt til. M.a. minntist 5. þm. Vestf. á að það væri þarft verkefni að gera úttekt á því hvað hin mikla bakveiki Íslendinga og vöðvabólga kostaði þjóðfélagið. Það er þarft verkefni og ég er alveg viss um að ef menn sæju þær fúlgur mundu þeir gera enn þá stærra átak í þessum málaflokki.
    Áðan var minnst á það hvað hefði gerst í þeim frystihúsum þar sem teknar hefðu verið upp leikfimiæfingar í vinnutímanum og fólki kenndar réttar starfsstellingar. Það varð bæði mórölsk bylting í þessum frystihúsum, vinnuafköst urðu miklu betri og líðan fólks varð almennt betri. Ég þakka enn og aftur fyrir jákvæða umfjöllun um þetta frv. og ég vona að það komist hratt og örugglega í gegnum kerfið.