Afgreiðsla lagafrumvarpa í tengslum við EES-samninginn

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 13:48:00 (4477)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir að vekja athygli á þessu sérkennilega máli. Þannig háttar til að við höfum iðulega núna á undanförnum mánuðum spurt um þetta sama. Við höfum iðulega rætt um þetta hér úr þessum ræðustól og reynt að fá svör hjá hæstv. utanrrh. eða hæstv. forsrh. um það hvernig ætlunin væri að taka á þessum Evrópumálum ef --- og ég undirstrika ef --- þau kæmu hér til meðferðar í þessari virðulegu stofnun. Við höfum engin svör fengið né heldur heyrt tilraunir til svara af neinu tagi. Og þeim mun sérkennilegra er það að fyrstu formlegu svörin sem berast eru í fundargerð fundar sem haldinn er erlendis um þessi mál, en þau svör hafa aldrei borist okkur hingað í þessari stofnun svo mér sé kunnugt um. Ég tel að þetta sé gagnrýnivert og ég tel að það sé ástæða til þess í tilefni af fyrirspurn hv. 10. þm. Reykv. að hvetja til þess að hið fyrsta verði haldinn fundur með forsetum Alþingis og formönnum þingflokka þar sem þessi umræða verði kortlögð. Ég tel að hér sé óeðlilega að hlutunum staðið af hálfu hæstv. forsætisnefndar. Ég hlýt að segja það hér nú, virðulegi forseti.