Afgreiðsla lagafrumvarpa í tengslum við EES-samninginn

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 13:50:00 (4478)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil einnig þakka hv. þm. fyrir að hreyfa þessu máli hér. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar. Mér er það ljóst að forseti getur að sjálfsögðu ekki svarað því hvort þetta mál kemur fyrir hið háa Alþingi, þ.e. hvort grænt ljós verður gefið af Evrópudómstólnum, en mér þótti það fróðlegt ef forseti telur að aðeins muni taka fjórar til sex vikur að afgreiða 200 lagafrumvörp, eins og ég skildi fyrirspurnina, hér á hinu háa Alþingi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef annars staðar frá hefur á öðrum þjóðþingum Norðurlanda verið talið að langtum lengri tíma væri þörf, allt upp í þrjá mánuði. Það væri fróðlegt þegar virðulegur forseti hefur haft tækifæri til þess að skoða þessi mál nánar að við þingmenn gætum fengið allítarlegar upplýsingar líka um þessi lagafrumvörp. Eru þetta lítilfjörlegar einstakar breytingar? Hvað er hér um að ræða? Að sjálfsögðu er ekki unnt að spyrja að því hér og nú, þar sem hæstv. utanrrh. er ekki við, hvað líði þá undirbúningi allra þessara frumvarpa, en ég held að það sé nauðsynlegt að þingmenn fái sem

allra fyrst glöggar upplýsingar um bæði stöðu þess máls og þá hvernig virðulegur forseti hugsar sér að láta afgreiða þau mál hér á sex vikum í mesta lagi.