Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:30:00 (4491)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Þetta er nú alveg fullkomlega óþolandi hvernig hæstv. viðskrh lætur hér aftur og aftur og aftur í umræðum um þessi mál, fullkomlega óþolandi og hann verðskuldar auðvitað ekkert annað, þessi hæstv. ráðherra, en að honum sé bara gert lífið sem leiðast það sem eftir er til vors. Hvað á það að þýða að koma með svona glósur til þingmanna sem hafa málefnalega og á efnislegum forsendum tekið afstöðu til máls, lýst yfir stuðningi við það með tilteknum, skýrt afmörkuðum fyrirvara sem gerð hefur verið grein fyrir? En svo kemur hæstv. ráðherra hér í púltið aftur og aftur og lætur hvað eftir annað að því liggja að einhver annarleg afturhaldssöm sjónarmið séu í raun og veru á bak við þennan fyrirvara sem menn eru að lýsa. Getur hæstv. ráðherra alls ekki sætt sig við það hver afstaða manna er í þessum efnum? Það virðist ekki vera. Ég skil satt best að segja ekki svona framkomu og tek það fram að ef þessu heldur svona áfram að hér hefjist í umræðum um þetta mál í raun og veru alveg sami leikurinn og var í umræðum um frv. um Seðlabankann, þá verður maður auðvitað að taka til endurskoðunar alla afstöðu sína til þessara mála. Það er ekki hægt að vinna með svona hæstv. ráðherra eða svona hæstv. ríkisstjórn sem kemur svona fram við stjórnarandstöðuna t.d. í þeim málum þar sem hún nær samstöðu um stjfrv. með meiri hluta viðkomandi nefndar.
    Ég leyfi mér að spyrja líka hv. formann efh.- og viðskn.: Finnast honum þetta smekklegar athugasemdir í garð þeirra stjórnarandstöðuþingmanna sem standa að nál. um þessi efni með þessum skýra fyrirvara sem gerð var grein fyrir, bæði inni í nefndinni og hér í umræðum um þetta mál? Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri og ætla að gefa hæstv. viðskrh. kost á því að koma hér í stólinn og biðjast afsökunar á orðum sínum og svo sjáum við til.