Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:43:00 (4498)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta fer nú vægast sagt að verða þreytandi og ég vil eindregið taka undir ummæli þeirra þingmanna sem hafa rætt á undan mér um að nú verði umræðu um þetta mál frestað. Og ég vil biðja hæstv. ráðherra að færa rök að þessum fullyrðingum sínum, að í þessu máli breyti þingmenn í efh.- og viðskn. ekki eftir sannfæringu sinni. Það liggur alveg ljóst fyrir hvert er meginefni þessa frv. og það styðjum við. Við viljum hins vegar ekki á nokkurn hátt blanda því saman við umræðu um tengingu íslensku krónunnar við ECU. Þannig er málið í hnotskurn. Þannig liggur það fyrir Alþingi og það er ekki við nokkurn annan en hæstv. viðskrh. að sakast ef þessi orðhengilsháttur hans verður þess valdandi að afgreiðsla þessa þarfa máls tefst.