Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:44:00 (4499)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð enn að játa það að ég skil ekki hvaða stefnu þetta mál er hér að taka. Það liggur hér fyrir frv. sem mælt var fyrir í nóvember. Hv. efh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt óbreytt, með fyrirvörum. En ég vil líka benda á að í frumvarpsgreininni er ekki stafkrókur um það efni sem hér er mest rætt, evrópsku mynteininguna, sérstök dráttarréttindi, samsettar mynteiningar, hugsanlegar tengingar við þær. Og hvernig menn geta blandað svo saman málum eins og hér virðist vera gert er alveg ofvaxið mínum skilningi. Menn verða að geta tekið málið til afgreiðslu eins og það liggur fyrir. Ég hvet til þess að menn séu ekki að tefja þetta mál. Ég skil fullkomlega ástæður þeirra þingmanna sem telja að það kunni ekki að vera ráðlegt að íslenska krónan tengist annarri myntkörfu en hún er nú tengd, t.d. evrópsku mynteiningunni. Það eru skiljanleg mál. Hins vegar kemur það þessu máli hreint ekki við og ég bið menn aðeins að staldra við og velta því fyrir sér hvort þeir ætli að tefja þingstörfin með því að fara að taka upp átyllur af því tagi sem hér eru upp teknar.