Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:46:00 (4500)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :

    Herra forseti. Áður en ég nýti mér frekari rétt minn til að tala við þessa umræðu, þá vil ég eindregið óska eftir svörum frá hæstv. forseta varðandi þá ósk sem hér var fram borin upphaflega af hv. 1. þm. Austurl. Ég ítreka hana. Ég fer fram á ásamt honum að þessari umræðu verði nú frestað og tek undir það, sem reyndar hefur komið fram hjá fleiri ræðumönnum. Ég held að það sé með öllu óhugsandi að halda henni áfram eftir það sem hér hefur uppi orðið fyrr en a.m.k. tóm hefur gefist til að meta stöðuna. Þar inn í blandast m.a. ýmis ummæli hæstv. viðskrh. á undanförnum vikum og mánuðum. Útskrift þyrfti helst að fá orðrétta og leiðrétta af því sem hann sagði hér í umræðum um frv. til laga um Seðlabanka Íslands fyrir nokkru síðan. Og ég vil fyrir mitt leyti áskilja mér rétt til þess að skila frhnál. fyrir mína hönd sem nefndarmanns í efh.- og viðskn. til þess að taka fyrir mitt leyti af öll tvímæli um það hvað felst í stuðningi mínum við þessa breytingu og hvað ekki felst í honum, einkum og sér í lagi þó það, hvað það er sem ég er ekki að skrifa upp á í málflutningi hæstv. viðskrh. eða áformum hæstv. ríkisstjórnar í þessu sambandi, þó svo að ég sé hlynntur þessari kerfisbreytingu sem skipulagsbreytingu og tæknilegri lagfæringu á meðferð þessara mála varðandi sölu á skilaskyldu erlends gjaldeyris.
    Það sem hæstv. viðskrh. var svo hér að reyna að segja áðan að menn væru að blanda saman aðskildum málum, þá bendi ég honum á að lesa fyrstu fjórar línurnar af athugasemdum við það lagafrv. sem hér er á dagskrá. Þar er a.m.k. eitt orð sem kemur tvisvar fyrir og það er þessi ágæta mynteining ECU. Hún er bæði í þriðju og fjórðu línu. Ég er hræddur um að það þætti ekki merkileg röksemdafærsla víða annars staðar sem hæstv. ráðherra var hér að reyna að koma með að það væri með öllu óeðlilegt að menn væru eitthvað að tala um þessa evrópsku mynteiningu og tengingu við hana í umræðum um þetta mál. Ég veit ekki hvað það orð er að þvælast þarna inni i greinargerðinni tvisvar sinnum í fyrstu fjórum línunum ef ekki er ætlast til þess að talað sé um það í tengslum við afgreiðslu málsins.
    Ég óska sem sagt eftir því, herra forseti, að umræðu um þetta mál verði nú frestað og sömuleiðis atkvæðagreiðslu um frv. til laga um Seðlabanka Íslands sem hér var lokið umræðu um áðan þannig að bæði málin standi þar sem þau eru nú stödd í dagskránni á meðan þetta verði athugað og síðan verði haft samráð um það áður en þau verða tekin fyrir á nýjan leik.