Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:49:00 (4501)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Þetta litla frv. að vöxtum um breyting á lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála er afskaplega skýrt og auðskilið. 1. gr. er ekki nema þrjár línur, að um sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris sem innlendir aðilar, þar með taldir þeir aðilar sem heimild hafa til að versla með erlendan gjaldeyri, eigi að eignast fyrir seldar vörur, þjónustu eða á annan hátt, fari eftir reglum sem ráðuneytið setur. Í athugasemdum við þetta litla frv. segir:
    ,,Frumvarp þetta er flutt til að strax sé unnt að byrja að þróa hér á landi gjaldeyrismarkað. Í því er lögð til breyting á ákvæðum um sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris í lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála frá 1979.`` Síðan er sagt frá því að í viðskrn. og í Seðlabankanum sé nú unnið að heildarendurskoðun á lögunum frá 1979 í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á gjaldeyrismálum á síðustu árum og stefnu ríkisstjórnarinnar um afnám flestra gjaldeyrishafta á komandi missirum.
    Í efh.- og viðskn. varð samstaða um það og allir lýstu því yfir að þeir væru sammála þessari skipan mála og ég sé ekki annað en að við þingmenn eigum þegar þessari umræðu er lokið að ganga til atkvæða um þetta frv. og það sem í því felst en ekki einhverri setningu frá hæstv. viðskrh. sem hefur farið fyrir brjóstið á mönnum. Ég vil segja að það var ágætt samkomulag í nefndinni um þessa afgreiðslu málsins. Ég sé enga ástæðu til þess að fresta frekar því frv., sem umræðu er nú lokið um, um Seðlabankann eða þessu og ég bið nú menn að hugleiða þetta betur. Þetta er 2. umr. um bæði þessi mál og ef menn vilja fá frekari skýringar frá hæstv. ráðherra, þá er það auðvitað hægt við 3. umr. málsins.

    Ég vil í fullri vinsemd fara fram á það, sérstaklega við nefndarmenn í efh.- og viðskn., sem hafa unnið að afgreiðslu þessara mála beggja, að þeir sætti sig við það að þessari umræðu ljúki og atkvæðagreiðsla fari fram, hvort sem það verður í dag eða á morgun, og síðan komi þetta mál til 3. umr.
    Ég tek það fram að ég leit á þeirra fyrirvara á þann veg að þeir væru að skýra sitt sjónarmið og hlustaði á þann fyrirvara. Ég sé því ekki mjög mikla ástæðu til að gera þessi mál, sem við erum öll sammála um að gera breytingar á, að einhverju stóru deilumáli.