Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:53:00 (4502)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það fór ekkert á milli mála að hér talaði vinnumaður hæstv. ríkisstjórnar. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum mínum með þessa ræðu virðulegs formanns nefndarinnar og benda á að hún bendir ekki til mikils samstarfsvilja eða að það sé mikill hugur til þess að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu um þetta mál sem menn eru þó í grundvallaratriðum sammála um. Ég vil spyrja virðulegan þingmann og formann nefndarinnar hvort hann telji ekki að í umfjöllun og umræðum um þetta mál hafi komið fram fullkomin rök fyrir beiðni okkar um frestun og fullkomnar ástæður til þess að við lögðum fram brtt. við fyrri brtt. um fyrra frv. sem hér var til umræðu.
    Ég vil reyndar líka beina því til hæstv. viðskrh., þó að þetta sé ekki andsvar við hans ræðu, að þessi mál eru það nátengd að að mínu mati verður þar ekki skilið á milli. Þetta er í raun sama málið þó svo að gera þurfi tvær lagabreytingar til þess að koma því fram.
    Ég vil því enn ítreka að að mínu mati er það algjörlega á ábyrgð hæstv. viðskrh. að þetta mál er komið í þessa sjálfheldu og ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með það að formaður hinnar virðulegu nefndar sé ekki tilbúinn til þess að koma á einhvern hátt til móts við minni hlutann.