Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:55:00 (4503)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rétt hjá síðasta ræðumanni að þessi tvö frv. fylgjast að. Um annað frv. er umræðu lokið eftir 2. umr. og ég sé enga ástæðu til annars en að ljúka einnig umræðu um þetta frv. sem er miklu minna að vöxtum. Það hefur enginn boðað neina brtt. við þetta frv., ekki nokkur maður. Það er talað um að vinnubrögðin séu heldur léleg í þinginu og ekki skal á móti því mælt, en alltaf hefur farið á þann veg að þegar komið hefur fram á vorið hlaðast hér upp mörg mál. Þess vegna held ég að það sé af því góða einu að halda áfram með þau mál sem hafa legið lengi fyrir þinginu og ég hef lagt á það áherslu í þessari nefnd að reyna að afgreiða sem flest mál áður en hinar miklu annir byrja. Við þekkjum hvernig þetta er bæði fyrir jólin og eins fyrir þinglok eða lok starfstíma að vori, það er um að gera að reyna að halda málum áfram.
    Ég sé ekki neitt athugavert við það að ljúka 2. umr. um þetta mál. Má hvergi reyna að halda áfram? Ég sé ekki að menn þurfi að láta svona út af þessu máli af því að það er engin breyting boðuð á sjálfu frv.
    Ef hv. þm. telur mig vinnumann núv. ríkisstjórnar þá skulum við bara lofa mönnum að segja það sem þeir vilja í þeim efnum en hvað sem líður vinnumennsku minni hjá hæstv. ríkisstjórn, þá vil ég fyrst og fremst láta ráða mínum gerðum að reyna að halda áfram vinnu þingmála. Ég hef ekkert á móti því að tekist sé á um efnislega afgreiðslu mála, en ég sé enga ástæðu til að liggja á þessu.