Viðskiptabankar

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 15:03:00 (4506)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Frv. þetta um viðskiptabanka er samið af bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og það er alfarið byggt á hinum svokölluðu BIS-reglum með þeim frávikum að sleppt er úr frv. þeim ákvæðum reglnanna sem ekki eiga við og að hinu leytinu er tekið tillit til

atriða í reikningsskilum hér á landi sem ekki er tekið sérstaklega á í þessum reglum. Þá er enn fremur höfð hliðsjón af reglum Evrópubandalagsins, einkum þar sem ákvæði þeirra eru fyllri en hinar svokölluðu BIS-reglur.
    Megininntak þessara lagabreytinga er að aðlaga skilgreiningu á eiginfjárhlutfalli viðskiptabanka þeirri skilgreiningu sem alþjóðlegi greiðslubankinn, Bank for International Settlements, BIS, hefur mælt með að aðildarlöndin taki upp en Ísland er eitt af þeim löndum. Samhliða þessu frv. er frv., sem er hér á dagskránni á eftir, um breytingu á lögum um sparisjóði. Þar er gert ráð fyrir hliðstæðum breytingum fyrir sparisjóðina og felast í þessu frv.
    Frv. gerir ráð fyrir að eigið fé viðskiptabanka skuli vera að lágmarki 8% af tilteknum skilgreindum grunni. Það hefur komið fram í nefndinni að eiginfjárhlutfall í árslok ársins 1990 samkvæmt núgildandi lögum var hjá Landsbanka Íslands 6,8% en samkvæmt BIS-reglunum yrði það 8,2%, Búnaðarbanka 9,4% og Íslandsbanka 8,7%. Ríkisviðskiptabankarnir uppfylla því þær eiginfjárkröfur sem í þessu frv. felast og þá er miðað við árslok ársins 1990. Eiginfjárstaða Búnaðarbankans er rúm en Landsbankinn nær rétt að uppfylla þær kröfur sem frv. gerir ráð fyrir.
    Í nál. segir að nefndin hafi fjallað um þetta frv. og á fund hennar hafi komið Þórður Ólafsson og Ragnar Hafliðason frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og enn fremur Björn Líndal, aðstoðarbankastjóri Landsbankans. Hins vegar bárust skriflegar umsagnir um frv. bæði frá bankaeftirliti Seðlabankans, fjmrn., Íslandsbanka, Sambandi íslenskra bankamanna, Sambandi íslenskra sparisjóða og Sambandi íslenskra viðskiptabanka.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að viðskrh. geti veitt erlendum hlutafélagsbönkum leyfi til að starfrækja útibú hér á landi og þá er gert ráð fyrir því að lög um viðskiptabanka gildi um starfsemi slíkra útibúa eins og við getur átt, sbr. 2. gr. frv.
    Nefndin leggur til að gerðar verði tvær breytingar á frv. Í fyrsta lagi er lagt til að 2. mgr. 4. gr. frv., sem fjallar um eigið fé viðskiptabanka, verði skipt í þrjár málsgreinar og einnig að orðalagi verði breytt lítils háttar frá upphaflegu frv. Það sem áður hét ,,hreint eigið fé`` og ,,blandað eigið fé`` heitir nú ,,eiginfjárþáttur A`` og ,,eiginfjárþáttur B`` og er þar með komið til móts við athugasemdir sem fram hafa komið um upphaflegar nafngiftir sem þóttu vera óheppilegar. Ég vil vekja athygli á því að þessi heiti á ,,eiginfjárþáttum`` verða einungis notuð við útreikning á eiginfjárhlutfalli en munu ekki verða notuð sem heiti efnahagsliða í efnahagsreikningi, enda teljast ekki allir þeir liðir, sem koma inn í eiginfjárútreikninginn, meðal eiginfjárliða í efnahagsreikningi, samanber t.d. víkjandi lán.
    Ég ætla ekki fara nánar út í brtt. Þær hafa legið hér alllengi fyrir og eru prentaðar á þskj. 492. Þær eru við 4. gr. frv. og við fyrri málsgrein ákvæðis til bráðabirgða um það að viðskiptabanki skuli uppfylla ákvæði um eigið fé skv. 4. gr. eigi síðar en í árslok 1992.
    Eins og ég sagði áðan kom fulltrúi Landsbankans á fund nefndarinnar. Hann lagði ekki til ákveðnar breytingar á frv. en gerði nokkuð að umræðuefni starfsemi útibúa erlendra banka og lýsti því yfir og áréttaði það í bréfi, er hann skrifaði til nefndarinnar og dagsett er 5. mars, að Landsbankinn sé sammála þeirri stefnumörkun frv. að heimila erlendum bönkum að starfrækja útibú hér á landi. En á hinn bóginn vill bankinn vekja athygli á nauðsyn þess að slík útibú búi við sömu starfsskilyrði og íslenskir bankar. Sú ráðagerð frv. að lög um viðskiptabanka gildi um starfsemi þessara útibúa tryggir slíkt aðeins að nokkru leyti. ,,Hvergi er á það minnst hvernig og hvort ákvæðum seðlabankalaga um innlánsbindingu og lausafjárskyldu verði beitt gagnvart útibúunum verði þau stofnsett hér á landi,`` segir í bréfi Landsbankans. Og þeir vekja í því sambandi sérstaka athygli á því að íslenskar reglur um innlánsbindingu og lausafjárskyldu eru ekki samhljóða reglum annarra Evrópuríkja. Vitaskuld erum við sammála því að útibú erlendra banka eigi að búa við sömu kjör og aðstæður og íslenskir bankar og útibú þeirra. Um þetta eru ákvæði í lögum um Seðlabanka Íslands svo að í raun og veru er tryggt í þeim lögum það sem Landsbankinn bendir á í þessu sambandi.
    Þá ræðir Landsbankinn um víkjandi lán og vitnar í 4. gr. frv. þar sem m.a. er fjallað um samsetningu eigin fjár banka. Þar er að finna það nýmæli, segir bankinn, að heimilt verður að telja víkjandi lán með eigin fé banka að sérstökum skilyrðum uppfylltum. Landsbankinn bendir á í þessu bréfi sínu að hann telji rétt að í stað orðanna ,,endurgreiðsla hlutafjár`` komi: endurgreiðsla hreins eigin fjár. Ástæða þessarar beiðni er af tvennum toga, bæði rekstrarform viðskiptabanka hér á landi og jafnframt telur Landsbankinn rétt að það sé ítrekað í nál. eða áréttað að ríkisábyrgð sé á erlendum skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna. Og þar bendir hann á að það sé æskilegt í ljósi ónákvæmrar framsetningar í athugasemdum á bls. 4 í frv. sem skilja mætti þannig að ótakmörkuð ríkisábyrgð nái einungis til innlendra skuldbindinga ríkisviðskiptabankanna.
    Þegar við ræddum um þessi ákvæði eftir að fulltrúi Landsbankans kom á okkar fund, voru nefndarmenn í efh.- og viðskn. sammála þessum athugasemdum bankans. Þá var mikið rætt um það hjá fulltrúa Landsbankans og síðar áréttað í þessu bréfi að skv. 1. mgr. 4. gr. frv. er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall sé reiknað af svonefndum áhættugrunni en reglur um grunninn eru settar af Seðlabankanum. Drögum að reglum Seðlabankans hefur verið dreift til viðskiptabanka og sparisjóða og samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að kröfur á banka og sparisjóði verði færðar í 20% áhættuflokk. Það er í samræmi við þær alþjóðlegu reglur sem þetta frv. byggir á. Hins vegar telur Landsbankinn fyllilega koma til greina að kröfur á ríkisviðskiptabankana verði færðar í 0% áhættuflokk vegna þeirrar sérstöðu sem felst í ríkisábyrgð á skuldbindingum þeirra. En í þeirri upptalningu sem við höfum fengið þar sem þessum áhættugrunni er skipað, þá eru í fyrsta flokki aðeins þrír aðilar samkvæmt ákvörðun Seðlabankans, en þar var starfandi sérstök nefnd sem gerði tillögur í þessum efnum. Þessir aðilar eru ríkissjóður, Seðlabankinn og Landsvirkjun. Bankarnir koma síðan í næsta flokki.
    Alþjóðlegu reglurnar eru til leiðbeiningar um flokkun en hindra ekki frávik af því tagi sem hér er gerð tillaga um af Landsbankanum. Hins vegar eru þessi mál alfarið í höndum Seðlabankans og það verður því að vera matsatriði Seðlabankans hvort hann vill taka tillit til þessara óska og meta þær og vega. Mér er óhætt að fullyrða það að nefndin mælir eindregið með því að Seðlabankinn athugi þessa athugasemd Landsbanka Íslands eins og ég hef núna skýrt frá.
    Í nál. sem hér hefur verið útbýtt hafa allir nefndarmenn efh.- og viðskn. skrifað undir þetta álit og nefndin er sammála því að þetta frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á þskj. 492.
    Guðmundur Stefánsson tók þátt í afgreiðslu málsins í stað Halldórs Ásgrímssonar og Magnús Jónsson í stað Rannveigar Guðmundsdóttur. Og undir nál. skrifa Matthías Bjarnason, Magnús Jónsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Steingrímur J. Sigfússon, Vilhjálmur Egilsson, Ingi Björn Albertsson og Guðmundur Stefánsson.