Viðskiptabankar

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 15:38:00 (4510)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir hennar starf að þessu frv. og vil lýsa því yfir í upphafi míns máls að ég er samþykkur þeim brtt. sem nefndin hefur sameiginlega gert við þetta frv.
    Í framsögu hv. 1. þm. Vestf., formanns nefndarinnar, fyrir nál. hér áðan vék hann að nokkrum athugasemdum sem fram hefðu komið af hálfu Landsbankans og það gerðu líka þeir sem á eftir honum töluðu. Ég tel ástæðu til þess að víkja nokkrum orðum að þessum þremur atriðum um leið og ég vil lýsa þeirri skoðun minni að í flestu get ég tekið undir orð hv. 1. þm. Vestf. um þau efni.
    Í fyrsta lagi var í athugasemdum Landsbankans vikið að starfsemi útibúa erlendra banka og áhersla á það lögð að þau lytu sömu reglum, sömu kvöðum og innlendar lánastofnanir. Uppi eru af þeirra hálfu óskir um að einhver slík ákvæði verði tekin inn í viðskiptabankalögin. Þetta tel ég á misskilningi byggt því eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. eru einmitt ákvæði um þetta, að vísu ekki í seðlabankalögunum eins og þau eru nú heldur eins og þau yrðu, að samþykktu því lagafrv. sem hér var til umræðu fyrr á þessum fundi, sem ég vona sannarlega að verði að lögum. Í því frv. eru einmitt ákvæði um það að útibú erlendra banka skuli lúta sömu peningastjórnarreglum og innlendar lánastofnanir.
    Um annað atriði í athugasemdum Landsbankans sem varða stöðu víkjandi lána, sem er nýjung í þeim lagareglum sem hér eru gerðar tillögur um, gerir Landsbankinn þá ábendingu að nauðsynlegt kunni að vera að gera það ljóst í textanum að hlutafé í hlutafélagabönkum og sambærilegt eigið fé ríkisviðskiptabanka sé jafnsett gagnvart kröfuhöfum og gagnvart víkjandi lánum. Ég held að það sé ástæða til þess að gera þetta alveg skýrt, að þarna sé jafnsett eigið fé á ferðinni, og er þess vegna sammála því sem fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl. og hv. 1. þm. Vestf. að nefndin ætti að huga að þessu milli umræðna.
    Í athugasemdum Landsbankans var einnig vikið að ábyrgð ríkisins á skuldbindingum ríkisviðskiptabanka. Þar er um mjög flókið lögskýringaratriði að ræða sem ég tel ekki hyggilegt að þingið taki afstöðu til að svo stöddu. Það var reyndar uppi þegar núgildandi viðskiptabankalög voru til meðferðar hér á þinginu, eins og margir hv. þm. kannast við, og þá var ekki tekin afstaða til þess. Ég tel að síður sé ástæða til þess nú en þá var.
    Þá var í þriðja lagi vikið að því hver vera skyldi staða krafna á ríkisviðskiptabanka í áhættuflokkun þeirri sem gert er ráð fyrir að Seðlabankinn geri á grundvelli þeirra laga sem hér er verið að ræða um breytingar á. Þar kemur fram það sjónarmið að með tilliti til ríkisábyrgðar á skuldbindingum ríkisviðskiptabanka sé eðlilegt að skuldbindingar ríkisviðskiptabankanna séu taldar án áhættu líkt og um ríkið sjálft væri að ræða. Þetta er sjónarmið sem athuga þarf en ég undirstrika líkt og hv. 1. þm. Vestf. gerði að þetta er ákvörðunarefni Seðlabankans að samþykktum þessum lagabreytingum. Það má líka benda á það sjónarmið að það sé mikilvægt að samkeppnisstaða hlutafélagsbanka og ríkisviðskiptabanka sé sem jöfnust og að þeim síðarnefndu, þ.e. ríkisviðskiptabönkunum sé ekki sköpuð sérstaða að þessu leyti.
    Þetta leiðir hugann að orðum hv. 1. þm. Austurl. um að það væri mikilvægt að samræma skattkjör og skattaskilyrði allra lánastofnana án tillits til eignarhalds. Ég er honum alveg sammála um þetta og tel að það sé mjög brýnt að fara yfir þessi atriði, ekki síst meðferð afskriftareiknings útlána gagnvart skattskilum og hef þegar beint því til fjmrh. og fjmrn. að unnið verði að undirbúningi þess máls.
    Ég kem þá að lokum, virðulegi forseti, að orðum hv. 4. þm. Norðurl. e. sem fór nokkrum orðum um stöðu og afkomu Landsbanka Íslands. Það er mjög lofsvert að bera umhyggju fyrir stöðu þessa mikilvæga banka. Ég get upplýst að afkoma Landsbankans varð skárri 1991 en hún var 1990. Eiginfjárstaða hans batnaði lítillega á árinu sem leið þannig að þær spár eða horfur sem hv. þm. vitnaði til reyndust ekki standast. En hitt er rétt að

það þarf að hugsa til framtíðar í þessum efnum, m.a. um það hvernig farsælast sé að treysta eiginfjárstöðu Landsbankans í nýju markaðsumhverfi og þar vék hv. þm. m.a. að áformum ríkisstjórnarinnar um breytt rekstrarform og hugsanlega einkavæðingu lánastofnana. Ég get ekki á þessari stundu upplýst neitt frekar um það en fram hefur komið í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar en vildi þó benda á að auk þeirra leiða sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi til þess að bæta eiginfjárstöðu Landsbankans, þ.e. að auka tekjurnar, væri náttúrlega líka hægt að spara í rekstrinum sem þeir landsbankamenn eru að gera og eru vonandi senn að hafa upp úr sameiningu Samvinnubankans við Landsbankann þótt hún sé enn ekki farin að skila verulegum árangri. Það er líka hugsanlegt að skera niður efnahagsreikninginn, minnka umsvif bankans eða breyta formi reikningsins. Það eru leiðir sem menn geta líka hugleitt. Loks var nefnt að fá aukið eigið fé. Þá komum við einmitt að því að breytt rekstrarform kynni að auðvelda þetta, þ.e. að bankarnir gætu, ef þeir væru reknir í öðru formi en nú, boðið út hlutafé á opnum markaði og þurfa þá ekki að seilast í sjóði skattborgaranna til þess að treysta eiginfjárstöðuna. Þetta er einmitt eitt af því sem huga þarf mjög vandlega að í framtíðinni í íslenskum bankamálum. Það er hárrétt athugað hjá hv. þm. að þetta er eitt af stóru málunum í íslenskum bankamálum. Og sem betur fer hefur íslenskum bönkum vegnað betur á síðustu árum þrátt fyrir erfitt árferði en bönkum í nágrannalöndum og ég vona sannarlega að þannig geti það haldist áfram.