Sparisjóðir

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 15:46:00 (4511)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason ):
    Herra forseti. Nefndin hefur fjallað um þetta frv. samhliða frv. um viðskiptabanka sem hér var að ljúka umræðu um. Þessi frumvörp bæði eiga það sammerkt að lagt er til í þeim að upp verði teknar hinar svonefndu BIS-reglur er fjalla um lágmark og útreikning eigin fjár innlánsstofnana. Allir þeir sömu aðilar sem komu á fund nefndarinnar eða gáfu umsagnir um hitt frv. gerðu það líka hvað þetta frv. snertir en auk þess barst ítarleg umsögn frá Sambandi íslenskra sparisjóða sem sneri að sparisjóðunum almennt.
    Nefndin leggur til sömu efnislegu breytingar á heitum þeirra þátta sem eigið fé innlánsstofnunar skal samsett úr við útreikning á eiginfjárhlutfalli, að notuð verði heitin ,,eiginfjárþáttur A`` og ,,eiginfjárþáttur B`` í stað orðanna ,,hreint eigið fé`` og ,,blandað eigið fé``. Þessar brtt. eru sama eðlis og sömuleiðis seinni brtt. sem prentuð er á þskj. 494 og ég sé ekki ástæðu til að ræða sérstaklega um sem og annað það er ég nefndi varðandi viðskiptabankafrv. því það gildir einnig um þetta frv. Þó vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna í umsögn Sambands íslenskra sparisjóða þar sem segir:
    ,,Innlánsstofnanir eru í hópi örfárra fyrirtækja í landinu sem búa við þær aðstæður að nái þær ekki að uppfylla eiginfjárkröfu þá skal eftir lögbundna málsmeðferð taka þær til skiptameðferðar, enda þó þær eigi umtalsvert eigið fé, jafnvel milljarða kr. Þannig er það forsenda fyrir áframhaldandi starfsemi að takast megi að uppfylla þær eiginfjárkröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.
    Því er nauðsynlegt að þau sjónarmið séu ofarlega í huga þeirra er ákveða að gera auknar eiginfjárkröfur jafnvel þótt það sé gert í því skyni að samræma þær reglum annarra þjóða að þeir geri sér grein fyrir hvort og þá með hvaða hætti sé unnt að uppfylla hinar auknu kröfur.
    Að mati Sambands sparisjóða verður þetta ekki gert nema íslenskum innlánsstofnunum séu sköpuð hliðstæð skilyrði og sambærilegar stofnanir erlendis búa við. Því miður fer víðs fjarri að þannig sé búið að íslenskum innlánsstofnunum. Sú skattheimta er þær

verða að þola er til mikilla muna harðari en sambærilegra stofnana erlendis. Möguleikar þeirra til að uppfylla hliðstæðar kröfur eru því minni.``
    Og síðan segir: ,,Hér skulu nefnd atriði eins og heimildir til að leggja í afskriftareikning útlána á móti almennri útlánaáhættu 1% hér en 4--5% annars staðar. Eignarskattar sem hvergi þekkjast gagnvart stofnunum sem lögskylt er að uppfylla lögbundnar eiginfjárkröfur.``
    Mér fannst rétt að geta sérstaklega um þessa athugasemd í hinni ítarlegu umsögn sem nefndin fékk frá Sambandi íslenskra sparisjóða.
    Brtt. á þskj. 494 eru fluttar af nefndinni og leggur hún til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum.
    Guðmundur Stefánsson tók þátt í afgreiðslu málsins í stað Halldórs Ásgrímssonar og Magnús Jónsson í stað Rannveigar Guðmundsdóttur. Og undir nál. skrifa Matthías Bjarnason, Magnús Jónsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Steingrímur J. Sigfússon, Vilhjálmur Egilsson, Ingi Björn Albertsson og Guðmundur Stefánsson.