Yfirtökutilboð

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 15:58:00 (4513)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Þessi þáltill. um yfirtökutilboð var rædd í efh.- og viðskn. og var ákveðinn frsm. 5. þm. Norðurl. v. en hann er ekki inni á þingi nú svo að ég hleyp í skarðið fyrir hann.
    Á fund nefndarinnar komu tveir menn sem hafa starfað að undirbúningi þessara mála og kynnt sér fyrirkomulag í öðrum löndum, Eiríkur Guðnason aðstoðarseðlabankastjóri og Þorkell Sigurlaugsson, sem vinnur hjá Eimskipafélagi Íslands hf., einn af framkvæmdastjórum þess. Gáfu þeir nefndinni margvíslegar og góðar upplýsingar um hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar og nokkuð umfram það sem kom fram við fyrri umræðu málsins hér í þingi.
    Nefndin leggur einróma til að tillagan verði samþykkt. Guðmundur Stefánsson tók þátt í afgreiðslu málsins í stað Halldórs Ásgrímssonar og Magnús Jónsson í stað Rannveigar Guðmundsdóttur. Undir nál. skrifa Matthías Bjarnason, Vilhjálmur Egilsson, Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Ástgeirsdóttir, Ingi Björn Albertsson, Sólveig Pétursdóttir, Magnús Jónsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Guðmundur Stefánsson.