Ferðaþjónusta

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:31:00 (4514)

     Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 485 ber ég fram fsp. til hæstv. samgrh. um undirbúning stjfrv. um ferðaþjónustu. Fsp. er svohljóðandi:
  ,,1. Hvað líður undirbúningi boðaðra frumvarpa ríkisstjórnarinnar um málefni ferðaþjónustu?
    2. Hvernig er staðið að undirbúningi þessara mála?
    3. Hvernig er háttað samráði við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og á sviði náttúruverndar við þennan undirbúning?``
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja stefnir íslenskt efnahagslíf í mikla kreppu. Atvinnuleysi fer vaxandi um allt land. Í langan tíma er atvinnuleysið hvorki bundið stað né stétt. Niðurskurður á fjárlögum hins opinbera hefur víðtækar afleiðingar og kemur m.a. fram í auknu atvinnuleysi.
    Í hinni dökku umræðu um atvinnumál að undanförnu hefur ferðaþjónustan verið kölluð ,,ljósið í myrkrinu`` og nær eini vaxtarbroddurinn í íslensku atvinnulífi. Ferðaþjónustan getur rennt stoðum undir landsbyggðina því víða er fyrir hendi aðstaða til að taka á móti fleiri ferðamönnum og veita þeim meiri þjónustu. Ferðamálasamtök landshlutanna hafa flest ráðið til sín ferðamálafulltrúa en mikil óvissa er um áframhaldandi starfsemi vegna fjárskorts. Upplýsingamiðstöðvar í öllum fjórðungum eru nauðsynlegur hlekkur í ferðaþjónustunni. Rekstur þeirra verður að vera tryggður frá byrjun. Staða leiðsögumanna er óljós í dag og margt fleira mætti tilgreina sem kallar á ný lög um ferðaþjónustu. Góð samstaða þarf að nást með þjónustu- og náttúruverndaraðilum um nýtingu og umgengni við íslenska náttúru því hún er sú auðlind sem ferðaþjónustan byggir á.
    Frv. til laga um ferðaþjónustu var lagt fram á 113. þingi en hlaut ekki afgreiðslu þingsins síðasta vor vegna andstöðu sem kom fram á síðasta stigi málsins. Mikil vinna hafði verið lögð í frv. og margir kallaðir til ráðgjafar og samráðs og voru því margir sem væntu úrbóta í sínum málum með tilkomu frv.