Ferðaþjónusta

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:44:00 (4519)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er nú svo sem ágætt að rifja upp þetta frv. sem dagaði uppi á síðasta þingi eins og skiljanlegt er enda var ýmislegt í því frv. sem fellur ekki að stefnu Sjálfstfl. og þeirri umgerð sem Sjálfstfl. telur rétt að hafa um þá atvinnugrein sem ferðaþjónusta er og skal ég ekki fara nánar út í þá sálma hér.
    Ég ítreka það sem ég sagði áðan að í ferðaþjónustu hvarvetna er lagt meira upp úr góðu nábýli við náttúruna en áður var. Ég hygg að þær kröfur sem góðir ferðaþjónustumenn eða rekstraraðilar ferðaþjónustu gera til sín um umgengni við náttúruna séu síst minni en gert er af almannasamtökum og að sjálfsögðu miklu markvissari þar sem þeir hafa í sínum höndum að skipuleggja hvernig ferðamannastraumurinn dreifist í stórum dráttum um landið, a.m.k. ef um skipulagðar hópferðir er að ræða. Ég hygg að eina leiðin til þess að ferðaþjónusta geti eflst hér og orðið að sterkum atvinnuvegi sé að þeir sem fyrir henni standa hafi frjálsar hendur. Ég er á hinn bóginn ekki trúaður á að hið opinbera eigi að vera mikið með fingurna í því.