Milliliðakostnaður í sölu landbúnaðarafurða

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:59:00 (4527)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt að það er að sjálfsögðu mikilvægt að hagræða í mjólkuriðnaði eins og á öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Þegar ég var landbrh. beitti ég mér fyrir því að slík hagræðing væri hafin með endurskipulagningu á mjólkurbúunum og stuðningi við það starf sem bar jákvæðan árangur og því hefur verið haldið eitthvað áfram. En sú skýrsla, sem hv. 5. þm. Austurl. ræddi hér, hefur ekki borist mér. Hins vegar höfum við heyrt um það álit sem verðlagsstjóri og fleiri hafa á vinnubrögðum við gerð skýrslunnar. En mér finnst rétt að benda á að mjólkuriðnaðurinn hefur verið að þróast mjög á síðustu árum, þ.e. vörur eru fjölbreyttari, meira unnar og mjög góðar. Að sjálfsögðu er meiri kostnaður við slíkt en ef einungis er seld óunnin mjólk.