Greiðsla ferðakostnaðar vegna tannréttinga

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:41:00 (4543)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því að fsp. af þessu tagi sé lögð fram nema síður sé. Ég leyfði mér aðeins að benda á það að búið væri að skýra frá þessu opinberlega þannig að hér er ekki um neitt að ræða sem með einhverjum hætti hafi verið haldið leyndu eða hafi ekki verið upplýst af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Þessar upplýsingar hafa þegar komið fram en auðvitað er mér bæði ljúft og skylt að svara spurningum um þetta hér á Alþingi engu að síður.
    Í annan stað vil ég benda á, eins og fram kom í máli mínu, að þessi breyting mun ekki gerast fyrr en í árslok 1993, þ.e. tæp tvö ár eru þangað til þessi breyting kemur til framkvæmda.
    Í þriðja lagi svaraði ég því hvað heilbrrn. hygðist gera til þess að reyna að koma til móts við hagsmuni þessa fólks. Það sem við erum að gera er að semja við tannréttingalæknana um að þeir mæti á vettvang, mæti hjá fólkinu í staðinn fyrir að sitja hér suður í Reykjavík og láta viðskiptavinina koma til sín. Ég er nýbúinn að vera á Austurlandi þar sem þessi mál komu m.a. til umræðu. Þó að 800 km séu frá syðsta hluta kjördæmisins og til hins nyrsta er það ekki nokkurt vafamál, ég heyrði það mjög vel á fólki sem ég ræddi við, að fólk telur það mikið til bóta að náðst hafi samningar við tannréttingalækni um að taka að sér að sinna Austurlandi. Það er ekki þar með sagt að tannréttingalæknirinn mæti bara á nyrsta odda kjördæmisins og ætlist til þess að viðskiptavinirnir komi síðan 800 km vegalengd til hans þar. Með sama hætti mun ráðuneytið beita sér fyrir því að samið verði við tannréttingalækni og hefur þegar fengist vilyrði fyrir því að hann taki að sér að þjóna Vestfjarðakjördæmi. Þessu er ráðuneytið að vinna að. Við erum að flytja þjónustuna til fólks í staðinn fyrir að kosta flugferðir til að flytja fólkið til þjónustustaða. Ég vona a.m.k. að landsbyggðarmenn séu ánægðari með að fá þjónustuna í landsbyggðina en að fá einhverja styrki greidda til þess að geta tekið sér far á hendur til Reykjavíkur. Ég vænti þess að fólk sé ánægt með það.
    Virðulegi forseti. Ég held að þessari spurningu sé fullnægjandi svarað og menn geti verið nokkuð ásáttir með það að þegar þessar reglur falla úr gildi í árslok 1993 verði fjallið komið til Múhameðs.