Símaþjónusta Tryggingastofnunar ríkisins

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:56:00 (4550)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa þingmenn um þá mjög einföldu staðreynd að yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins skortir 36 millj. kr. til að geta staðið undir óbreyttum rekstri þeirrar stofnunar. Það var aðeins hægt með því að ráðstafa til stofnunarinnar því hámarki sem heilbr.- og trmrh. gat ráðstafað og fjárln. Alþingis gat ráðstafað til baka til Tryggingastofnunar ríkisins af því fé sem var í hinum svokallaða varasjóði. Stofnunin fær 12 millj. kr. af þessari 36 millj. kr. fjárvöntun. Það er auðvitað út í hött að halda því fram að aðeins þurfi það eitt til að heilbr.- og trmrh. ákveði að leggja til að veita stofnuninni fé sem ekki er til.
    Hv. þm. Svavar Gestsson veit það auðvitað mætavel sjálfur að menn greiða ekki með peningum sem eru ekki til. Það er til lítils fyrir einn þingmann eða einn ráðherra að gera tillögu um ráðstöfun fjármuna sem ekki eru til. Hins vegar þekkir hv. þm. það ekki vegna þess að hann lítur svo á, samkvæmt grein sem hann skrifaði í Þjóðviljann á síðasta ári, að hlutverk fagráðherra sé að leggja til að eyða peningum en hlutverk fjmrh. og fjárln. Alþingis sé að koma í veg fyrir það að þeir nái vilja sínum fram. Ég er ekki sammála honum um það, hv. þm. ( SvG: Ég vil bera af mér sakir.) Hv. þm. er vanur að bera af sér sakir enda ekki vanþörf á.
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka fram að það er allgott samband á milli heilbrrn. og Tryggingastofnunar ríkisins. Varðandi þessar umönnunarbætur vil ég upplýsa það að heilbrrn. hefur fengið tillögur tryggingaráðs um umönnunarbæturnar. En samkvæmt lögum sem hv. þm. átti hlut í að setja með öðrum, þá ber heilbrrn. skylda til að leita einnig umsagnar félmrn. um þessar tillögur. Við sendum að sjálfsögðu strax tillögur tryggingaráðs um reglugerð um umönnunarbætur til félmrn. til umsagnar eins og okkur bar lagaleg skylda til og þaðan hefur umsögnin ekki enn borist.
    En það er mesti misskilningur að það sé eitthvert sambandsleysi milli Tryggingastofnunar og heilbrrn. Heilbrrn. hefur fengið þær afgreiðslur frá tryggingaráði sem beðið var eftir. Hins vegar verður að ætlast til þess af hv. þm. að þeir viti hvaða fyrirmæli ráðuneytunum eru gefin í lögum sem þeir sjálfir setja. Okkur voru gefin þau fyrirmæli að leita ekki aðeins umsagnar tryggingaráðs heldur einnig félmrn.