Fræðsla í íslensku fyrir innflytjendur

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:07:00 (4559)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ráðuneytið hefur þegar reynt að bregðast að nokkru við þeim vanda sem fyrirspyrjandi lýsir en það er ljóst að betur má ef duga skal. Á síðasta ári var fræðsluumdæmunum veittur viðbótarkennslukvóti til að geta veitt innflytjendum á grunnskólaaldri aðstoð í íslensku. 5,5 millj. kr. var skipt á milli þriggja fræðslumdæma þar sem þörfin var talin brýnust. Á þessu ári verður 6 millj. kr. varið í þessu skyni en þær munu að mestu fara til Reykjavíkur- og Reykjanesfræðsluumdæma.
    Í janúar sl. þurftu um 230 börn á sérstakri íslenskukennslu að halda. Ráðuneytið hefur mælst til þess við Kennaraháskóla Íslands að boðin verði fram námskeið eða fræðslufundir fyrir kennara sem falið er að kenna þessum börnum. Hefur skólinn þegar brugðist við og býður upp á námskeið í sumar. Í vetur var hafin þýðing og staðfærsla á norskum lista yfir orð, hugtök og orðasambönd sem talið er nauðsynlegt að útlendingar nái tökum á til þess að geta gert sig skiljanlega á málinu og til að geta skilið málið. Leitað hefur verið umsagnar ýmissa aðila um gagnsemi listans. Er það samdóma álit þeirra að listinn sé m.a. forsenda fyrir námsgagnagerð og hann sé mikilvægur kjarni í námskeiðum fyrir kennara. Listinn mun koma að gagni í grunn- og framhaldsskólum og einnig í fullorðinsfræðslu.
    Frá því á haustönn 1990 hefur ráðuneytið þrívegis veitt Námsflokkum Reykjavíkur styrk vegna íslenskunámskeiðs fyrir tælenska, filippseyska, víetnamska og portúgölskumælandi fullorðna innflytjendur. Námsflokkar Suðurnesja hafa einnig fengið tilsvarandi styrk frá ráðuneytinu í sama skyni. Menntmrn. átti einnig aðild að upplýsingabæklingi um Ísland og íslenskt samfélag. Sá bæklingur kom út á árinu 1991.
    Það er ljóst að það sem hér að framan er talið er ekki nægilegt. Á síðustu árum hefur fjölgað mjög þeim útlendingum sem fá hér dvalarleyfi eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Samkvæmt þjóðskrá í desember 1991 voru 5.400 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi. Á sama ári fengu um 1.000 útlendingar dvalarleyfi í fyrsta sinn og um það bil 1.000 manns fengu framlengt dvalarleyfi sitt. Það er því ljóst að margir útlendingar eru komnir hingað til lands í því skyni að setjast hér að. Ráðuneytið mun vinna að því að afla frekari fjárveitinga til að styðja við íslenskukennslu fyrir innflytjendur, bæði börn og fullorðna. Þá er ákveðið að skipa hið fyrsta starfshóp sem fái m.a. þau verkefni að gera yfirlit yfir fjölda þessa fólks, aldursdreifingu og hvaðan það kemur, gera úttekt á þeirri íslenskukennslu sem er í boði og við hvaða vandamál er að etja og ekki hvað síst að gera tillögur um skipan kennslunnar, gerð námsefnis og þörf fyrir kennaranámskeið og leggja mat á fjárþörf á næstu árum. Þetta verk þarf að vinna í samráði við önnur ráðuneyti svo og ýmsa fræðsluaðila. Vonast er til að tillögur liggi fyrir í byrjun sumars þannig að hægt verði að taka tillit til þeirra við gerð fjárlaga fyrir árið 1993.