Beiting lögregluvalds í forræðismálum

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:29:02 (4570)

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. nr. 522 leyfi ég mér að bera fram fyrirspurn í fjórum liðum vegna beitingar lögregluvalds í forræðismáli kenndu við Sandgerði. Samkvæmt upplýsingum úr fjölmiðlum virðist hafa verið farið með þetta mál eins og á ferðinni hafi verið hópur hryðjuverkamanna að undirbúa illvirki. Ég er einn af þeim sem krossbrá þegar ég frétti af þeim atburði sem þarna átti sér stað.
    Þannig var í fyrsta lagi götunni í Sandgerði lokað með lögreglubifreiðum og mátti enginn fara þar um. Í öðru lagi var húsið umkringt af lögreglu. Í þriðja lagi var ráðist til inngöngu án þess svo mikið að banka á dyr. Í fjórða lagi er vaðið upp á aðra hæð hússins og er þar loksins sýnd húsleitarheimild. Þessi fjögur atriði leiða m.a. til þessarar fsp. sem ég hef hér lagt fram og ég spyr:
    1. Telur ráðherra þörf á að fram fari sérstök rannsókn á því hvernig staðið var að valdbeitingu lögreglu til þess að taka 11 ára gamlan dreng frá móður sinni í Sandgerði 5. febrúar 1992?
    2. Fóru aðgerðir fram með fullu samþykki fulltrúa barnaverndarnefnda í Sandgerði og á Akureyri?
    Ef svo er, er þá eðlilegt að ekki skuli hafa verið búið að undirbúa fólkið áður, hefði sálfræðingur, prestur eða einhver hæfur aðili ekki átt að vera búinn að fara á staðinn og ræða við fólkið og undirbúa það? Leggja nefndirnar blessun sína yfir svona aðfarir þar sem móðir er slitin frá barni, handjárnuð með hendur fyrir aftan bak eins og stórglæpamaður og dregin út á bol og sokkaleistum? Getur það virkilega verið að svona sé gert með samþykki nefndanna? Ég verð að segja að ég vona að svo sé ekki.
    En hver voru þá viðbrögð barnsins í þessu tilfelli? Það kemur m.a. fram í viðtali í DV þar sem rætt er við húsráðandann sem var að sjálfsögðu vitni að þessu öllu saman. Húsráðandinn segir, með leyfi forseta, í viðtalinu um viðbrögð drengsins:
    ,,Viðbrögð drengsins voru hræðileg skelfing, hann féll saman á augabragði. Annar fulltrúi barnaverndarnefndar tók svo drenginn með valdi, setti hendurnar á honum aftur fyrir bak og hélt honum föstum. Hann braust um á hæl og hnakka þegar átti að fara með hann út. Þá kom lögregluþjónn og hélt honum ásamt fulltrúa barnaverndarnefndarinnar. Ég get ekki séð annað en barnið sé í þessu tilfelli bæði beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi.``
    Sé rétt frá sagt get ég ekki annað en tekið undir með þeim sem hér mælir og harmað um leið.
    3. Hver stjórnaði aðgerðum lögreglunnar í þessu máli og hver ber ábyrgð á þeim?
    4. Er algengt að beita þurfi lögregluvaldi í forræðismálum? Hefur það gerst áður að móðir hafi verið handtekin við töku barns með valdi úr umsjá hennar?

    Ég vil aðeins að lokum láta koma skýrt fram að ég er ekki að taka neina afstöðu til forsjársmálsins sem slíks, aðeins til þess þáttar er snýr að aðgerðunum og hvernig fólkið var nálgast af yfirvöldum, bæði lögreglu og barnaverndarnefndum.