Beiting lögregluvalds í forræðismálum

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:40:00 (4573)

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt af því sem síðasti ræðumaður sagði, en ég vil þakka ráðherra fyrir hans svör. Það er vissulega rétt hjá ráðherra að það kom til umræðu að spyrja hæstv. dómsmrh. einnig þar sem hann er yfirmaður lögreglunnar í landinu, en eftir ráðleggingar mætra manna var fsp. lögð fram eins og hér er gert.
    Það sem slær mig einna helst í svari ráðherra er það að aðferðinni, sem þarna var viðhöfð, er ekki mótmælt og þeirri lýsingu, sem ég fór hér með stuttlega, er ekki heldur mótmælt. Þess vegna finnst mér orka tvímælis hvort ekki sé þörf á rannsókn á þeim aðferðum sem þarna var beitt. Mér finnst ekki eðlilegt að þetta sé eins og í Íran, Írak eða Belfast að lögreglulið komi og loki götu, umkringi hús og ráðist til inngöngu í húsið. Þetta er nánast eins og einhverjir hryðjuverkamenn væru á ferðinni. Við erum bara á Íslandi og í litla Sandgerði. Það er nú ekki meira en það. Hvert hefði blessað fólkið átt að flýja? Ég sé vel tilefni til þess að kanna þennan þátt.
    Ég harma það að þetta sé gert í fullu samráði við fulltrúa barnaverndarnefndar Akureyrar og Sandgerðis og þeir skuli leggja blessun sína yfir þennan framgangsmáta í málinu. Ég er eingöngu að hugsa núna um hag barnsins, hver verða viðbrögð þess? Hvaða áhrif hefur það hvernig staðið er að þessu á andlega heilsu barnsins? Hvaða áhrif hefur það þegar ruðst er svona inn í hús og barnið þarf að horfa upp á móður sína dregna í burtu? Ég tel að ekki sé hægt að horfa fram hjá þessu. Ég tel alveg hikstalaust að einhver ábyrgur aðili hefði átt að nálgast þetta heimili með fyrirvara og ræða við fólkið og búa það undir hvað þarna væri að gerast. Það hefði verið eðlilegri framgangsmáti í málinu.
    Ég fagna því einnig sem ráðherra sagði að það er fátítt að til slíkra aðgerða þurfi að koma, ég fagna því. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að það geti þurft að beita lögregluvaldi en þá verður að vera búið að nálgast fólk með nærgætni og virðingu. Menn eiga að hafa það hugfast að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það er fyrst og fremst það sem verið er að biðja um, ekkert annað.