Beiting lögregluvalds í forræðismálum

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:44:00 (4575)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mál af þessum toga eru vandmeðfarin í umfjöllun. Ég vil þó segja að sú lýsing sem gefin var á atburðarás er þannig að mér finnst hún ámælisverð þó þess sé að gæta að ekki hafi komið fram sjónarmið þeirra sem að málinu og framkvæmdinni stóðu. Ég vil leggja á það áherslu að í umfjöllun, sem verið hefur í fjölmiðlum að undanförnu, finnst mér að um of hafi verið vikið frá þeirri staðreynd, sem öllum ætti að vera ljóst, að störf í barnaverndarnefnd eru trúnaðarstörf og þeir sem þar vinna geta ekki tjáð sig um málsatvik og vilja það ekki. Ég hygg, virðulegi forseti, að það sé lærdómur sem við ættum að draga af þessu atviki fyrst tækifæri er til þess að yfirfara frv. til barnalaga og frv. sem væntanlegt er um vernd barna og ungmenna.