Háskólamenntun í listum

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:54:00 (4579)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og ég sagði, þá tel ég mig verða að bíða álits þeirra sem beðnir hafa verið um að tjá sig um þessa skýrslu. Ég get hins vegar upplýst að ég hef þegar átt viðræður við rektor Háskóla Íslands um þetta mál og ég á ekki von á eða ég býst ekki við að umsögn Háskóla Íslands muni án nokkur hátt valda erfiðleikum við að taka ákvörðun í þessu máli.
    Ég held að ekki sé minnsti vafi á því að færa eigi þetta nám á háskólastig og að því verður unnið. Ég vonast sannarlega til að geta tekið ákvörðun í þessu máli sem allra fyrst. Ég get ekki svarað því á þessari stundu hvort heimildin verður veitt þannig að skólastarfið geti hafist nú á haustmánuðum. Ég mun skipa nefnd þessara þriggja skóla, Háskólans og ráðuneytisins til að fjalla frekar um þetta álitaefni og um skýrsluna í heild þegar umsagnir hafa borist.