Afgreiðsla lagafrumvarpa í tengslum við EES-samninginn

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:59:00 (4581)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :

    Virðulegi forseti. Það hefur nú verið upplýst að sú fundargerð sem ég hef hér undir höndum frá EFTA og dagsett er þann 2. mars sl. er röng og villandi a.m.k. hvað Íslandsþátt fundarins varðar. Ég fagna því út af fyrir sig að þetta skuli hafa komið fram og ég fagna þeirri yfirlýsingu forseta okkar að hún skuli nú hafa leiðrétt að okkur séu ekki aðeins ætlaðar 4--6 vikur hér á Alþingi til að afgreiða um 200 lagafrumvörp. Það er auðvitað mikilvægt að það skuli nú liggja fyrir að okkur sé ekki svo naumt skammtaður tíminn.
    Eftir stendur samt að ekkert liggur fyrir um það með hvaða hætti Alþingi ætlar að taka á þessu máli og með hvaða hætti við ætlum að haga okkar vinnu í vor, sumar og haust ef samningur um Evrópskt efnahagssvæði kemur hér til afgreiðslu. Það liggur fyrir að samningurinn muni væntanlega koma út úr EB-dómstólnum í apríl eða maí sem þýðir að ef dómstóllinn fellst á hann kemur hann hér til umfjöllunar í lok apríl eða lok maí. Mér finnst að hv. Alþingi ætti að geta haft eitthverja vinnuáætlun um það hvernig það muni haga sínum störfum ef samningurinn kemur í lok apríl og ef hann kemur í lok maí. Og það þarf náttúrlega ekki að ræða það að ef hann kemur ekki höldum við bara áfram venjulegum störfum hér.
    Forseti taldi að ég hefði átt að bera þessi mál undir hana utan fundar og ekki gera þau að umtalsefni hér undir þingsköpum. Það má vel vera. Ég sá enga ástæðu til að ætla að fundargerðin frá EFTA væri ekki rétt. Þær hafa ekki reynst rangar hingað til, a.m.k. á þeim fundum sem ég hef tekið þátt í þótt auðvitað séu þær aldrei nákvæmar. Þar að auki fannst mér full ástæða til þess að vekja athygli þingmanna allra á því að við værum hér að sigla inn í mikið vinnutímabil, ef að líkum lætur, án þess að fyrir væru nokkrar áætlanir um það hvernig við ætluðum að standa að málum.